Doktorsvörn á Menntavísindasviði - Sara Margrét Ólafsdóttir
Aðalbygging
Hátíðasalur Háskóla Íslands
Leikur barna í leikskólum: Viðhorf íslenskra leikskólabarna til leiks, reglna í leik og hlutverks leikskólakennara í leik þeirra.
Andmælendur eru dr. Elizabeth Ann Wood, prófessor við University of Sheffield, og dr. Bert van Oers, prófessor emeritus við Vrije University, Amsterdam.
Leiðbeinandi var dr. Jóhanna Einarsdóttir, prófessor á Menntavísindasviði, og meðleiðbeinandi dr. Susan Danby, prófessor við Queensland University of Technology, Ástralíu.
Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Maryanne Theobald, lektor við Queensland University of Technology, Ástralíu.
Dr. Jónína Vala Kristinsdóttir, dósent og forseti Deildar kennslu- og menntunarfræði Menntavísindasviðs, stjórnar athöfninni
Rannsóknin byggir á hugtökum Williams Corsaro um félagsfræði bernskunnar þar sem leitast er við að læra af þekkingu barna og reynslu. Markmiðið er að öðlast frekari skilning á því hvernig börn útskýra leik og aðrar athafnir í leikskólanum, hvernig þau upplifa reglur leikskólans og hvernig þau útskýra hlutverk fullorðinna í leik þeirra. Notað var blandað rannsóknarsnið við gagnaöflun, aðferðir tilviksrannsókna og etnógrafíu. Þátttakendur í rannsókninni voru börn þriggja til sex ára, í tveimur leikskólum í Reykjavík. Myndbandsupptökur voru notaðar sem kveikja að umræðu um athafnir barnanna í leikskólunum.
Helstu niðurstöður sýna að börnin útskýrðu athafnir sínar sem leik þegar þau gátu tekið sér hlutverk og ákveðið hvernig þau notuðu þann efnivið sem þau höfðu aðgang að. Þessar útskýringar eru í samræmi við það hvernig ímyndunarleikur barna hefur verið skilgreindur. Í leik notuðu börnin fjölbreyttar leiðir til þess að takast á við þær reglur sem fullorðnir settu, oft í þeim tilgangi að ákveða hvaða börn mættu vera með í leik og hver ekki. Staða barnanna í jafningjahópnum hafði bæði áhrif á hvernig þau tókust á við reglur leikskólans og hvernig þau litu á hlutverk fullorðinna í leik. Börn sem voru stjórnendur í leik sáu ekki hvernig hinn fullorðni gæti tekið þátt án þess að skemma leikinn en börn sem voru fylgjendur í leik þurftu á stuðningi þeirra að halda. Börnin voru sammála um að hinir fullorðnu tækju sjaldan eða aldrei þátt í leik þeirra; hlutverk þeirra væri að fylgjast með þeim og bregðast við þegar þau þurftu á aðstoð að halda.
Sara Margrét Ólafsdóttir útskrifaðist sem leikskólakennari árið 2003 frá Háskóla Íslands og lauk þar meistaraprófi í menntunar- og kennslufræði yngri barna árið 2013. Sara Margrét starfaði sem leiðbeinandi í leikskóla samhliða grunnnáminu en að því loknu sem leikskólakennari til ársins 2013, þegar hún hóf doktorsnám. Sara Margrét hefur tekið þátt í rannsóknarverkefnum sem tengjast leikskólastarfi, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur meðal annars verið þátttakandi í samstarfsrannsóknum á vegum RannUng (Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna), rannsóknarteymi sem nefnist POET (Pedagogies of Educational Transitions) auk þess sem doktorsverkefni hennar var hluti af rannsókn sem framkvæmd var í Ástralíu. Sara Margrét starfar nú sem stundakennari við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og aðstoðar við rannsóknir í alþjóðlegu rannsóknarteymi, The Politics of Belonging.
Sara Margrét fæddist í Reykjavík þann 11. júlí 1974 en er að flytja á Akranes um þessar mundir. Hún á þrjú börn, þau Elísu, Ólaf Þór og Viktor Orra og er í sambúð með Smára Viðari Guðjónssyni.
Doktorsvörn á Menntavísindasviði - Sara Margrét Ólafsdóttir