Þverfaglegt framhaldsnám í umhverfis- og auðlindafræði býður upp á starfsþjálfun fyrir meistaranemendur sína í hinum ýmsu atvinnugreinum. Starfsþjálfunin er hagnýtt valnámskeið sem veitir nemendum tækifæri til að fá innsýn í starfsemi frjálsra félagasamtaka, fyrirtækja eða stofnana (skipulagsheilda) sem tengjast umhverfis- og auðlindafræði. Fjölbreyttur ávinningur er fólginn í því að bjóða nemendum starfsþjálfun. Skipulagsheildir fá aðgang að nýjustu þekkingu á viðfangsefnum og fræðum í gegnum nemendur. Jafnframt efla þær aðgengi sitt að framtíðarmannauði og tengsl sín við háskólasamfélagið. Nemendur öðlast þekkingu og reynslu af starfi sem tengist námi þeirra beint undir leiðsögn sérfræðinga í atvinnulífinu. Í lok starfsþjálfunar hafa nemendur fengið tækifæri til að beita fræðilegri þekkingu á raunveruleg viðfangsefni, öðlast reynslu á tilteknu sviði og eflt tengslanetið sitt. Starfsþjálfun er metin til 6 ECTS og samsvara þriggja vikna fullu starfsnámi (120 klst alls). Hægt er að dreifa starfsnámi yfir lengri tíma, allt að einu kennslumisseri (13 vikur). Verkefni nemanda skulu vera tvenns konar: eitt veigamikið verkefni, sem að minnsta kosti helmingi starfsþjálfunar er varið í, og hins vegar tilfallandi verkefni skipulagsheildarinnar. Æskilegt er að nemandi kynnist sem flestum starfssviðum hennar og fái innsýn í starfsemina. Hægt er að skrá nemendur í námskeiðið hvenær sem er, líka utan hefðbundinna skráningartímabila. Ekki eru gefnar einkunnir fyrir starfsþjálfun, eingöngu staðið eða fallið. Starfsþjálfunartækifæri Nemendur eru hvattir til að hafa frumkvæði að starfsþjálfun í samráði við starfsfólk námsleiðarinnar. Vinsamlegast hafið samband við verkefnisstjóra í umhverfi@hi.is. Eftirfarandi skipulagsheildir eru í formlegu samstarfi við námsleiðina og bjóða reglulega upp á starfsþjálfunarstöður. Landsvirkjun Advania Orkuveita Reykjavíkur (OR) og dótturfélög þess ON, Carbfix og Veitur Umsagnir stjórnenda „Við hjá Advania erum mjög ánægð með samstarfið við umhverfis- og auðlindafræði námsbrautina við Háskóla Íslands. Við vorum að leita að nemendum sem gætu komið inn með ferskt sjónarhorn á sjálfbærnimálin okkar. Þeir nemendur sem hafa verið í starfsþjálfun hjá okkur fengu innsýn í hvernig staðið er að gagnasöfnun fyrir sjálfbærniuppgjör, markmiðasetningu að draga úr losun og verkefni sem snúa að því að auka hringrásarhugsun. Starfsnámið skapaði mikið virði fyrir Advania og það var virkilega gaman að sjá nemendur takast á við þær áskoranir sem við lögðum fyrir þau. Við hlökkum til að taka á móti fleiri nemendum í framtíðinni.“Þóra Rut Jónsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærni hjá Advania „Við hjá Landsvirkjun leggjum áherslu á að geta veitt nemum tækifæri til að kynnast starfsemi okkar og vinnubrögðum samhliða því að öðlast dýrmæta starfsreynslu í sínu fagi, bæði í gegnum sumarstörf en einnig starfsnám. Við erum virkilega ánægð með samstarfið við umhverfis- og auðlindafræði Háskóla Íslands. Reynsla okkar af starfsþjálfun nemenda hefur verið mjög góð. Starfsneminn okkar fékk tækifæri á að spreyta sig á verkefnum af mismunandi toga og stóð sig með stakri prýði. Það hefur verið gaman að fylgast með henni fóta sig áfram í atvinnulífinu að námi loknu. Við hlökkum til að taka á móti fleiri nemum í starfsþjálfun frá umhverfis- og auðlindafræðinni.“Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastóri samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun Umsagnir nemenda „Ég fékk tækifærið til að fara í starfsþjálfun hjá Samtök iðnaðarins í mastersnáminu mínu. Ég fékk tækifæri til að beita þeirri þekkingu sem ég hafði aflað mér í náminu og nýta hana til að aðlaga starfsemi samtakanna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Vinnan í verkefninu hjálpaði mér einnig að finna mér viðfangsefni fyrir meistaraverkefni mitt. Starfsþjálfunin gaf mér kost á að læra um samtökin og mynda tengsl við fólk í þessum geira. Þar sem ég er frekar nýlega flutt til Íslandi var þessi starfsþjálfun sérstakt tækifæri til að vinna á íslenskri skrifstofu og auka skilning minn á starfsmenningu hér á landi. Starfsþjálfunin var almennt frábær reynsla, og mér tókst að skila af mér vel unnu verkefni, sem hjálpaði mér að ljúka meistaranáminu og upplýsti stefnu mína í atvinnuleit.“Sarah Christine Olson Í starfsþjálfun minni hjá PennFuture vorið 2023 snéri mitt áhersluverkefni að stefnu Pennsylvaníu-ríkis í sólarorku. Ég vann fyrst og fremst að tveimur verkefnum tengdum sólarorku. Annarsvegar ritstýrði ég leiðarvísi PennFuture um sólarorku fyrir sveitafélög og hinsvegar skrifaði ég hvítbók um sólarorku. Hvítbókin er 16 síðna skjal sem inniheldur m.a. kafla um kosti sólarorku, algengar mýtur um sólarorku, helstu áskoranir í uppbyggingu sólarorku, og stefnutillögur fyrir löggjafa ríkisins. Þar að auki skrifaði ég þrjár blogggreinar um sólarorku, fór yfir lögfræðilegar skrár og tók þátt í ýmsum fundum og vefnámskeiðum. Á heildina litið hjálpaði starf mitt með PennFuture mér að þróa gagnlega færni eins og samskipti, stefnugreiningu, ræðumennsku og rannsóknir. Starfsþjálfunin var sérstaklega gagnleg þar sem ég fékk reynslu og leiðsögn í starfi innan umhverfismála auk þess að efla þekkingu mína á stefnumótun í endurnýjanlegri orku, sviði sem ég vonast til að starfa innan eftir útskrift.“Caroline Anne Weiss Hefur þinn vinnustaður áhuga á að taka á móti starfsnema? Námsleiðin í umhverfis- og auðlindafræði hefur verið í samstarfi við yfir 25 skipulagsheildir af öllum stærðum og gerðum sem boðið hafa uppá starfsþjálfun. Skipulagsheildin ber ábyrgð á því láta starfsnema í té vinnuaðstöðu og tilnefnir ábyrgðaraðila sem hefur umsjón með vinnu hans, leiðbeinir í störfum og tryggir að starfsneminn öðlist innsýn inn í starfsemina. Skipulagsheildir eru hvattar til að hafa frumkvæði að samstarfi og starfsþjálfunarverkefnum. Ef þinn vinnustaður hefur áhuga á að taka á móti meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði má hafa samband við verkefnisstjóra námsleiðarinnar í umhverfi@hi.is. Hefur þú áhuga á að sækja starfsþjálfun? Mögulegt er að hefja starfsþjálfun með tveimur leiðum: Skipulagsheildir auglýsa eftir starfsnemum í tiltekin starfsþjálfunarverkefni. Nemendur hafa frumkvæði að starfsþjálfunarverkefni eða spyrjast fyrir um starfsþjálfunarverkefni (í samráði við starfsfólk námsleiðarinnar) hjá tiltekinni skipulagsheild og þróa verkefnið í samstarfi. Þegar stöður eru auglýstar skulu nemendur senda umsóknir sínar til umhverfi@hi.is með heiti starfsþjálfunarstöðu sem sótt er um í titli. Gefa skal til kynna á hvaða tímabili nemandi sækist eftir að vera í starfsþjálfun. Umsókninni skal fylgja: Kynningarbréf að hámarki 500 orð sem inniheldur: Stutta útskýringu á áhuga nemandans á tiltekinni starfsþjálfun. Stutta útskýringu á hæfni og reynslu nemandans sem gæti nýst í starfsþjálfuninni. Ferilskrá með fyrri menntun og starfsreynslu. facebooklinkedintwitter