Doktorsvörn í faraldsfræði - Svava Dögg Jónsdóttir

Aðalbygging
Hátíðasalur
Föstudaginn 30. janúar 2026 ver Svava Dögg Jónsdóttir doktorsritgerð sína í faraldsfræði við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Kynferðisleg áreitni og ofbeldi í starfs- og námsumhverfi á meðal íslenskra kvenna: Áfallasaga kvenna. Sexual violence in work and academic settings among women in Iceland: Cohort and registry-based studies.
Andmælendur eru dr. Isabelle Niedhammer, sérfræðingur við French National Institute for Health and Medical Research (INSERM), og dr. Linda Magnusson Hanson, prófessor í faraldsfræði við Háskólann í Stokkhólmi.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Arna Hauksdóttir, prófessor. Auk hennar sátu í doktorsnefnd Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor, Thor Aspelund, prófessor, og Þórhildur Halldórsdóttir, dósent.
Stefán Þ. Sigurðsson, prófessor og varadeildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 9.00.
Ágrip
Kynferðisleg áreitni og ofbeldi í starfs- og námsumhverfi eru alvarleg lýðheilsuvandamál sem geta haft víðtæk áhrif á heilsu og starfsferil kvenna. Þrátt fyrir vaxandi þekkingu á algengi slíkra upplifana skortir enn þýðisrannsóknir sem kanna áhættuþætti og tengsl við andlega og líkamlega heilsu. Markmið þessarar ritgerðar var að kanna algengi kynferðislegs ofbeldis á vinnustað meðal íslenskra kvenna, tengsl við andleg og líkamleg einkenni, og tengsl við ávísanir á lyfseðilsskyld lyf.
Verkefnið byggði á svörum rúmlega 30.000 þátttakenda í þýðisrannsókninni Áfallasaga kvenna, framkvæmdri á Íslandi á árunum 2018–2019. Þátttakendur voru íslenskar konur á aldrinum 18–69 ára sem svöruðu rafrænum spurningalista um lýðfræðileg einkenni, vinnuaðstæður og heilsu.
Um þriðjungur þátttakenda hafði einhvern tíma orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað, og hluti þeirra upplifði slíkt í núverandi starfi. Slík reynsla var algengari meðal ungra kvenna, kvenna í vaktavinnu og í tilteknum atvinnugeirum, auk þess sem samkynhneigðar og tvíkynhneigðar konur voru oftar útsettar. Kynferðislegt ofbeldi á vinnustað tengdist verri andlegri og líkamlegri heilsu, þar á meðal einkennum þunglyndis, kvíða, svefnvandamálum og auknum veikindafjarvistum. Þegar skoðaðar voru upplýsingar um lyfjaávísanir sem lágu fyrir á árunum eftir þátttöku í rannsókninni kom í ljós að konur sem höfðu orðið fyrir slíkri reynslu voru líklegri til að hefja meðferð með þunglyndislyfjum, kvíðastillandi-/svefn-/ róandi lyfjum og verkjalyfjum. Þessi tengsl urðu þó veikari þegar tekið var tillit til áfalla í æsku.
Kynferðislegt ofbeldi á vinnustað er algengt meðal íslenskra kvenna og tengist fjölbreyttum heilsufarsvandamálum og ávísunum á lyfseðilsskyld lyf. Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi stefnumótunar og aðgerða til að koma í veg fyrir ofbeldi á vinnustöðum og bæta öryggi og heilsu kvenna.
Abstract
Workplace sexual violence is a serious public health concern for women and has been associated with wide-ranging health and occupational consequences. Despite growing knowledge about the prevalence of such experiences, population-based studies examining risk factors and associations with mental and physical health outcomes remain limited. The aim of this thesis was to examine the prevalence of workplace sexual violence among Icelandic women, its associations with mental and physical health symptoms, and its relationship with prescribed medications.
The project was based on responses from more than 30,000 participants in the Stress-And-Gene-Analysis (SAGA) cohort, a population-based study conducted in Iceland in 2018–2019. Participants were Icelandic women aged 18–69 years who completed an online questionnaire on demographics, working conditions, and health.
Approximately one third of participants reported having experienced sexual harassment or violence in the workplace at some point, and a proportion reported such experiences in their current job. These experiences were more common among young women, women working shifts, and those working in certain work sectors. Lesbian and bisexual women were also more likely to report exposure. Workplace sexual violence was associated with poorer mental and physical health, including symptoms of depression and anxiety, sleep problems, and increased sickness absence. When examining information on prescription data recorded in the years following participation in the study, women who had experienced workplace sexual violence were more likely to initiate treatment with antidepressants, anxiolytics/hypnotics/sedatives, and analgesics. These associations became weaker after accounting for childhood adversities.
Workplace sexual violence is common among Icelandic women and is associated with a wide range of adverse health outcomes and medication prescriptions. The findings underscore the importance of policy development and targeted interventions to prevent violence in the workplace and to improve women’s safety and health.
Um doktorsefnið
Svava Dögg Jónsdóttir er fædd árið 1987 í Reykjavík. Hún lauk B.Sc.-gráðu í sálfræði árið 2015 og M.A.S.-gráðu í hagnýtri tölfræði árið 2019, báðum við Háskóla Íslands. Hún hóf doktorsnám í faraldsfræði árið 2020. Samhliða náminu gegndi hún formennsku í FEDON, félagi doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands, á árunum 2023–2025, og var þar á undan fulltrúi doktorsnema í Stúdentaráði 2022–2023. Svava sinnti einnig kennslu og aðstoðarkennslu í faraldsfræði og tölfræði á árunum 2020–2023 og leiðbeindi diplómanema í GRÓ-GEST-prógramminu (Gender Equality Studies and Training Programme) árið 2021. Samhliða fræðastörfum sinnti Svava á árunum 2018–2024 verkefnastjórnun hjá sprotafyrirtækinu Beanfee, þar sem hún vann að þróun hugbúnaðar til atferlisþjálfunar. Frá árinu 2024 hefur Svava starfað sem verkefnisstjóri á sóttvarnarsviði hjá Embætti landlæknis, þar sem hún leiðir Evrópuverkefnið ISNSS (Improving and Strengthening National Surveillance Systems), sem styrkt er af heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins (EU4Health).
Svava Dögg Jónsdóttir ver doktorsritgerð sína í faraldsfræði við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 30. janúar 2026.
