Varði doktorsritgerð um þýska hugmyndastrauma og íslenska söguskoðun

Einar Einarsson hefur varið doktorsritgerð sína í sagnfræði, „Sumir eru vaknaðir af svefni“: „Þýskir“ hugmyndastraumar og íslensk söguskoðun frá um 1750 til um 1850, við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði Háskóla Íslands. Ritgerðin var unnin undir leiðsögn Guðmundar Hálfdanarsonar, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands og Simon Halink, rannsakandi við Fryske Akademy í Hollandi.
Andmælendur við vörnina voru Lena Rohrbach, prófessor við háskólana í Basel og Zürich í Sviss og Sveinn Máni Jóhannesson, nýdoktor í sagnfræði. Sverrir Jakobsson, deildarforseti Deildar heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands, miðvikudaginn 21. janúar.
Um rannsóknina
Það hefur lengi verið vitað að sú menningarlega þjóðernisstefna sem átti uppruna sinn í Þýskalandi á síðari hluta átjándu aldar og við upphaf þeirrar nítjándu hafði talsverð áhrif á orðræðu og söguskoðun forvígismanna íslensku sjálfstæðisbaráttunnar. Markmið þessarar ritgerðar er að gera tilraun til þess að varpa ljósi á það hvernig og af hverju söguskoðun Íslendinga ummyndaðist á afar stuttu tímabili, frá því að vera frekar dæmigerð söguskoðun upplýsingarinnar (í sinni þýsku gerð) yfir í það að verða söguskoðun menningarlegrar þjóðernisstefnu. Í ritgerðinni er einnig lagt mat á það hvernig þessi áhrif bárust til Íslendinga og hvernig þau birtust í tjáningu þeirra, hvort sem um ræðir skáldskap eða pólitísk skrif, í bundnu máli og óbundnu.
Um doktorsefnið
Einar Einarsson lauk bæði B.A.- og Magistergráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og hefur þar að auki numið sagnfræði við Humboldt Universität í Berlín og Ruprecht-Karls-Universität í Heidelberg.





