Skip to main content
15. desember 2025

Metaðsókn nema HÍ í starfsþjálfun 

Metaðsókn nema HÍ í starfsþjálfun  - á vefsíðu Háskóla Íslands

-  endurspeglar stefnu HÍ um sterk tengsl við atvinnulíf

Starfsþjálfun Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands hefur aldrei staðið jafn sterkt og nú og er skýr birtingarmynd stefnu skólans um náið samstarf við atvinnulífið og framsýna og hagnýta háskólamenntun. 

Viðskiptafræðideild HÍ hefur verið feiknaöflug undanfarin misseri með samstarfi við fjölda aðila í íslensku atvinnulífi og er nú svo komið að yfir 60 fyrirtæki, stofnanir og ráðuneyti bjóða nemendum skólans tækifæri til að vinna að raunverulegum verkefnum. Þar beita nemendur HÍ fræðilegri þekkingu í starfi og flétta við raunhæf verkefni samtímis því að byggja upp tengsl sem nýtast strax að námi loknu.

Starfsþjálfunin er og hefur verið í umsjón Ástu Dísar Óladóttur, prófessors við Viðskiptafræðideild, sem hefur nýtt reynslu sína af rannsóknum og kennslu við uppbyggingu þessa verkefnis ásamt yfirgripsmikilli stjórnunarreynslu úr íslensku atvinnulífi. Markmiðið er skýrt: að skapa samstarf við íslenskt atvinnulíf og um leið vettvang þar sem nemendur fá aðgang að starfsþjálfun sem annars væri erfitt eða jafnvel ómögulegt að nálgast.

„Það er metaðsókn í starfsþjálfun á vormisseri 2026. Við buðum upp á 23 stöður og fengum umsóknir alls staðar að úr HÍ. Við fengum 113 umsóknir frá nemendum í BS- og MS-námi við Viðskiptafræðideild auk umsókna úr öðrum deildum,“ segir Ásta Dís.

Tengsl við atvinnulífið hluti af daglegu námi

Sterk tengsl Viðskiptafræðideildar HÍ við atvinnulífið takmarkast ekki við starfsþjálfunina eina. Á hverju ári koma að Ástu Dísar sögn hundruð gestafyrirlesara úr röðum stjórnenda, sérfræðinga og frumkvöðla inn í kennsluna og miðla reynslu, dæmum úr starfi og innsýn í nýjustu þróun í atvinnulífinu. Þá vinna nemendur fjölmörg raunhæf verkefni í námskeiðum í nánu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir.

Auk þess sitja margir kennarar deildarinnar í stjórnum og sinna ráðgjöf bæði hér heima og erlendis, sem styrkir tengsl fræða og starfs enn frekar. Þetta samspil endurspeglar að Ástu Dísar sögn þá stefnu Háskóla Íslands að menntun og rannsóknir eigi að vera í lifandi tengslum við samfélagið og atvinnulífið.

„Ef við tökum þetta saman er ávinningur nemenda af viðskiptafræðinámi við Háskóla Íslands mjög skýr: sterkur fræðilegur grunnur, náin tengsl við atvinnulífið, raunhæf verkefni, virk teymisvinna og starfsþjálfun sem byggir upp hæfni, sjálfstraust og nýja atvinnumöguleika. Þetta er ekki bara mín skoðun — þetta staðfesta umsagnir nemenda og stjórnenda sem hafa reynsluna,“ segir Ásta Dís.

Starfsþjálfun sem skapar raunverulegt forskot

Ásta Dís segir að nemendur lýsi starfsþjálfuninni sem umbreytandi reynslu sem auki sjálfstraust, hæfni og framtíðarmöguleika. Umsagnir þeirra sýni að starfsþjálfunin hjálpi þeim að tengja saman fræðilega þekkingu og raunveruleg verkefni, taka þátt í teymisvinnu, stefnumótun og ákvörðunartöku og upplifa sig sem virka þátttakendur í starfsemi fyrirtækja.

„Margir nemendur fá störf hjá þeim fyrirtækjum þar sem þeir voru í starfsþjálfun eða umsagnir sem veita þeim skýrt forskot á vinnumarkaði.“

Staðnám og virk þátttaka skipta höfuðmáli

Viðskiptafræðinám við HÍ er staðnám þar sem áhersla er lögð á virka þátttöku, teymisvinnu og hæfni í samskiptum og samstarfi. „Ég heyri æ oftar frá stjórnendum að þeir vilji ráða fólk sem hefur verið í staðnámi, unnið í hópum, lært að rökræða, kynna hugmyndir og leysa ágreining. Fólk sem vinnur í teymum með ólíkan grunn, áhugasvið og færni, fæðir af sér hugmyndir sem leiða oft til nýsköpunar. Slík færni verður til í lifandi námi þar sem nemendur mæta, taka þátt með vísindafólki og kennurum og vinna saman í skapandi teymum,“ segir Ásta Dís.

Þessi nálgun speglast í starfsþjálfuninni að hennar sögn, þar sem nemendur starfa í teymum, sækja fundi, kynna niðurstöður og taka virkan þátt í verkefnum sem líkjast því sem þeir mæta í starfi að námi loknu.

„Ef við tökum þetta saman er ávinningur nemenda af viðskiptafræðinámi við Háskóla Íslands mjög skýr: sterkur fræðilegur grunnur, náin tengsl við atvinnulífið, raunhæf verkefni, virk teymisvinna og starfsþjálfun sem byggir upp hæfni, sjálfstraust og nýja atvinnumöguleika. Þetta er ekki bara mín skoðun — þetta staðfesta umsagnir nemenda og stjórnenda sem hafa reynsluna,“ segir Ásta Dís.

Nemendur í starfsþjálfun