Skip to main content

Doktorsvörn í líffræði - Safina Musa

Doktorsvörn í líffræði - Safina Musa - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
15. desember 2025 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Doktorsefni: Safina Musa

Heiti ritgerðar: Áhrif fæðustjórnunar á vöxt Nílartilapíu – umhverfislegar og efnahagslegar afleiðingar (Effects of aquafeed management on Nile tilapia production – environmental and economic consequences)

Andmælendur:
Dr. Nasser Kasozi, framkvæmdarstjóri rannsókna, við Buginyanya rannsóknar og þróunarstofnunina í Uganda, í Mbale, Uganda.
Dr. Anders Kiessling, prófessor við Sænska Landbúnaðarháskólann (SLU) í Uppsala í Svíþjóð.

Aðalleiðbeinandi: Dr. Helgi Þór Thorarensen, prófessor við Háskólann í Tromsö.

Umsjónarkennari: Dr. Arnar Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Sigurður S. Snorrason, prófessor emeritus við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Dr. Ólafur Sigurgeirsson, lektor í fiskeldi við Háskólann á Hólum, Íslandi.
Dr. Tumi Tómasson, GRÓ Sjávarútvegsskóli, Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, á Íslandi.

Doktorsvörn stýrir: Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og deildarforseti Líf-og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands.

Ágrip

Þrátt fyrir góðar aðstæður til fiskeldis í Keníu og Austur-Afríku hefur vöxtur greinarinnar verið hægur. Helstu hindranir fyrir vexti fiskeldis á svæðinu eru léleg gæði fóðurs og hár fóðurkostnaður. Það veldur því að framleiðslukostnaður verður hár og umhverfisáhrif meiri en þau þyrftu að vera. Í þessu doktorsverkefni voru gerðar fjórar tilraunir sem allar höfðu það markmið að greina þennan vanda: 1) Samanburður á kostum og göllum þess að nota annars vegar verksmiðjuframleitt þanið fóður og hins vegar kögglað fóður frá smáframleiðendum á svæðinu, við eldi á Nílartilapíu í kvíum í Viktoríuvatni. Flestar fiskeldisstöðvar freistast til að nota síðarnefnda fóðrið því það er ódýrara. Niðurstöður tilraunarinnar sýndu hins vegar að framleiðslukostnaður var 26% lægri þegar þanda fóðrið var notað þrátt fyrir að það var talsvert dýrara. Meginástæðan var að fóðurnýting var mun betri með þanda fóðrinu og fastur kostnaður við eldið lægri. Að auki óx fiskurinn mun betur þegar hann var alinn á þöndu fóðri og umhverfisáhrif voru minni. 2) Rannsókn á umhverfisáhrifum kvíaeldis á tilapíu í Viktoríuvatni. Í tilrauninni voru könnuð umhverfisáhrif í Viktoríuvatni af kvíaeldi á tilapíu. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að eldið hefur áhrif á vatnsgæði og botn vatnsins, en þessi áhrif eru staðbundin og þeirra gætir mest innan 50 m frá kvíunum. Á hvíldartíma eftir að framleiðslu lauk endurnýjuðust vatnsgæðin fljótt og urðu söm og áður. Hins vegar dugði fjögurra mánaða hvíldartími ekki til að set og botndýralíf féllu aftur í fyrra horf. Vandamál geta skapast í framtíðinni ef hvíldartíminn er ekki lengdur eða kvíarnar ekki færðar til milli eldislota. 3) Fæðuval og vöxtur tilapíu í eldistjörnum með áburði. Í þessari tilraun var rannsakað fæðuval og vöxtur tilapíu í eldistjörnum með mismikilli fóðrun, með eða án áburðar til að örva framleiðslu á þörungum og smádýrum sem lifa af þeim. Magainnihald fiskanna benti til að lítil tilapía (60-90 g) éti ekki tilbúið fóður við þessar aðstæður. Þess í stað nærist hún aðallega á svif- og botndýrum, en fóðrið fellur til botns þar sem það virkar sem áburður. Stærri fiskar nýta hins vegar fóðrið. Of mikil fóðrun dregur úr vatnsgæðum þannig að vöxtur fiska verður minni. 4) Fæðuval og vöxtur tilapiu í eldistjörnum. Í þessari tilraun voru ísótópamælingar notaðar til þess að meta fæðuval tilapíu í ábornum tjörnum og framlag mismunandi fæðutegunda til vaxtar. Niðurstöður tilraunarinnar staðfestu niðurstöður fyrri tilraunarinnar og sýndu að lítil tilapia nýtir ekki fóður heldur nærist hún á svif- og botndýrum þar til hún nær 100 g í þyngd. Því má lækka fóður- og framleiðslukostnað verulega með því að bera vel á tjarnirnar, en fóðra ekki með tilbúnu fóðri fyrr en fiskurinn nálgast 100 g. Hár framleiðslukostnaður hefur orðið til þess að illa hefur gengið í tjarnaeldi í Austur Afríku og margar eldisstöðvar hafa hætt framleiðslu. Niðurstöður doktorsverkefnisins eru mikilvægt framlag til sjálfbærrar uppbyggingar fiskeldis í Keníu og Austur Afríku bæði frá rekstrarlegum og umhverfislegum sjónarhóli.

 

Um doktorsefnið

Safina Musa lauk bæði BS. og MS prófi frá Moi Háskólanum í Kenýa. Meistararitgerð hennar, unnið undir handleiðslu Phillip Raburu, fjallað um leifar eiturefna í vatni og seti í Viktoríuvatni í Kenýa.

Eftir að námi lauk, hóf Safina störf við Hafrannsóknarstofnun Kenýa, þar sem hún er nú yfivísindamaður á fiskeldissviði. Samhliða doktorsnáminu tók Safin einnig þátt í mörgum vinnustofum og þjálfunarbúðum.

Fyrir utan rannsóknir hennar, sem mynda doktorsritgerðina, hefur Safina einnig unnið margar aðrar rannsóknir og birt þær í ritrýndum greinum, bókum og bókarköflum. Fagsvið hennar er fiskeldi, næring fiska, betrumbætur á fóðri, greining á umhverfisáhrifum og félagsleg og efnahagsleg áhrif fiskeldis.

Safnia er kvænt Dr. Christopher Mulanda, og eiga þau þrjú börn.

Safina Musa

Doktorsvörn í líffræði - Safina Musa