Skip to main content
25. nóvember 2025

Ný hlaðvarpsþáttaröð um alþjóðlega menntunarfræði 

Nemendur á 1 ári í BA-náminu MYND/Tryggvi Már Gunnarsson

„Í þessari hlaðvarpsþáttaröð könnum við lykilatriði í þróun námsbrauta, kennslufræði, menntastefnu, kerfisbundnar áskoranir og félagslega og menningarlega virkni með því að draga fram reynslu nemenda okkar og kennara,“ segir Susan Elizabeth Gollifer, lektor á alþjóðlegri námsbraut í menntunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, um nýtt hlaðvarp um námsbrautina. 

Í fyrsta þættinum ræða Hanna Ragnarsdóttir, Allyson Macdonald og Ólafur Páll Jónsson, sem eru öll prófessorar við Menntavísindasvið, ástæður þess að ákveðið var að stofna alþjóðlega námsbraut í menntunarfræði árið 2008 við Menntavísindasvið. „Við köfum djúpt í mikilvægi stofnanalegs stuðnings, þverfaglegs samstarfs og hlutverks þrautseigju og skuldbindingar í að viðhalda nýstárlegum aðferðum í háskólanámi,“ segir Susan. 

Námsbraut um alþjóðlegt nám í menntunarfræði hóf starfsemi árið 2008 og býður upp á nám á ensku. Í upphafi voru innan við tuttugu nemendur skráðir í námið en upphaflegt markmið þess var að veita nemendum sem búsettir eru á Íslandi en höfðu ekki íslensku að móðurmáli aðgang að háskólanámi. „Nú eru yfir 200 BA- og MA-nemendur frá yfir þrjátíu löndum skráðir í námið og námsbrautin býður upp á rými til að efla þvermenningarlegt nám með þátttökukennslu með það að markmiði að rækta gagnrýna hugsun á sviði samanburðar- og alþjóðlegrar menntunar.“ 

Hlaðvarpsþáttaröðinni nýju er ætlað að veita innsýn í sögu námsbrautarinnar, heimspeki og menntunarlega nálgun og áhrif. Í þessum fyrsta þætti er áherslan lögð á reynslu þeirra sem hafa tekið þátt í námsbrautinni frá stofnun hennar en þau Susan Gollifer og Ernest Boakye Yiadom, fulltrúi nemenda í í alþjóðlegu námi í menntunarfræði, ræða við áðurnefndna þrjá af stofnendum námsins. 

Hér má hlusta á fyrsta þátt hlaðvarpsins

Myndirnar hér að neðan voru teknar á kynningarfundi nemenda í upphafi skólaársins við húsnæði Menntavísindasviðs á Sögu. 

Nemendur á 1 ári í BA-náminu MYND/Tryggvi Már Gunnarsson
Hópmynd af nemendum MYND/Tryggvi Már Gunnarsson