Upplýsingar fyrir umsækjendur í starfsþjálfun Nemendur sem lokið hafa 90 ECTS í grunnnámi eða 60 ECTS í meistaranámi með fyrstu einkunn (7,25) geta sótt um starfsþjálfun á vori eða hausti. Markmið starfsþjálfunarinnar Starfsþjálfunin er ætlað að þjálfa nemendur í að vinna að verkefnum undir handleiðslu sérfræðinga hjá fyrirtækjum og stofnunum. Verkefnin eiga að tengjast námsgreinum sem kenndar eru í Viðskiptafræðideild og reyna á þá þekkingu og færni sem nemandi hefur aflað sér í náminu. Ávinningur Nemenda af því að fara í starfsþjálfun: Læra að beita fræðilegri þekkingu á raunveruleg verkefni Vinna með reyndum stjórnendum og sérfræðingum Að byggja upp tengslanet og auka samkeppnishæfni þína Eftir starfsþjálfun hafa margir nemendur fengið sumarstörf eða fastráðningu, og umsagnir stjórnenda hafa gjarnan reynst lykillinn að draumastarfinu. Dæmi um verkefni Verkefni nemanda eru afar fjölbreytt og liggja á sviði fjármála, markaðsmála, mannauðsstjórnunar, nýsköpunar, reikningshalds og endurskoðunar, stjórnunar og verkefnastjórnunar. Auglýsingar um starfsþjálfun koma inn á heimasíðu Viðskiptafræðideildar, Facebooksíðu deildar og á Tengslatorg. Umsóknarferlið Hægt er að sækja um fleiri en eina stöðu en umsókn þarf að senda sér fyrir hverja stöðu. Ekki er tekið við mörgum umsóknum í einum sameiginlegum tölvupósti. Senda skal umsóknir á vidskipti@hi.is. Með umsókn þarf að fylgja: Ferilskrá Kynningarbréf Afrit af einkunnum og einingum af Uglu Gerð ferilskráa og kynningarbréfa Vel unnin ferilskrá og kynningarbréf skipta miklu máli þar sem samkeppni um störf er mikil. Mikilvægt er að framsetning, efni og málfar séu vönduð til að vekja áhuga atvinnurekenda. Gerð ferilskráa Það borgar sig að gefa sér góðan tíma við gerð ferilskráa og huga vel að efnisinnihaldi, uppsetningu og málfari. Uppsetning þarf að vera skýr og upplýsingarnar hnitmiðaðar. Ferilskráin þarf að vera grípandi og vekja áhuga vinnuveitenda. Sniðmát: Gott er að byrja á að velja einfalt og snyrtilegt sniðmát, t.d. á canva.com. Efst skulu koma fram nafn, netfang, símanúmer og heimilisfang þannig að auðvelt er að hafa á samband við umsækjandann. Mynd þarf að vera snyrtileg. Upplýsingar um menntun og reynslu Næst eru settar inn upplýsingar um menntun og reynslu. Setjið nýjustu menntun efst og raðið síðan í öfugri tímaröð. Tilgreinið skóla, gráðu og útskriftarár. Ef námið er ólokið skal bæta „ólokið“ við gráðuna. Upplýsingar um starfsreynslu Tilgreinið vinnustað, starfsheiti og starfstímabil. Gott er að nefna helstu verkefni og ábyrgðarsvið í stuttu máli fyrir hvert starf. Byrjið á starfi sem þið sinntuð síðast. Ekki þarf að telja upp öll störf sem unnin hafa verið; einblínið frekar á þau sem tengjast reynslu sem óskað er eftir í umræddri starfsauglýsingu. Aðrar upplýsingar Hér má setja fram atriði sem geta verið til framdráttar í starfi, svo sem tölvukunnátta, tungumálakunnátta, félagastörf, áhugamál, greinaskrif eða annað sem skiptir máli. Meðmæli Mikilvægt er að hafa að minnsta kosti tvo meðmælendur úr fyrri störfum. Tilgreinið nafn þeirra, starfstitil, símanúmer og netfang. Kynningarbréf Kynningarbréfið er mikilvægt markaðstól, og æskilegt er að eiga vel unnið bréf sem hægt er að laga að hverri umsókn. Markmiðið er að vekja athygli vinnuveitanda og sýna hvernig hæfni og reynsla umsækjanda nýtist í starfinu. Í upphafi bréfsins ætti að taka fram hvaða starf er sótt um og hvað kveikir áhuga umsækjanda á því. Í framhaldinu er mikilvægt að draga í stuttu máli fram þau einkenni, hæfni og styrkleika sem geta gagnast fyrirtækinu og stöðunni. Hafi umsækjandi menntun, reynslu eða aðra hæfni úr fyrri störfum sem getur komið að gagni, skal gera það skýrt hvernig sú reynsla nýtist í umræddu starfi. Mikilvægt er að telja fram það sem getur verið umsækjanda til framdráttar og halda jákvæðum tón um sjálfan sig. Hæfileg lengd kynningarbréfs er um ein blaðsíða. Hægt er að fá aðstoð hjá Nemendaráðgjöf HÍ við gerð ferilskráa og kynningarbréfa. Bóka þarf tíma. Umsagnir nemenda um starfsþjálfun ,,Starfsþjálfunin hjá Bónus uppfyllti allar væntingar mínar og gott betur en það. Við fengum fleiri og fjölbreyttari verkefni hjá markaðsdeild Bónus heldur en ég hafði búist við áður en ég kom inn. Starfsþjálfun fær mann klárlega til að horfa með öðrum augum á þau námskeið sem maður situr í Háskólanum þar sem maður áttar sig betur á því hvað námsefnið og verkefnin eru virkilega að undirbúa mann fyrir atvinnulífið svo maður geti sinnt ýmsum störfum á sem bestan hátt. Ein helsta ástæðan fyrir því að ég valdi að taka MS nám í viðskiptafræði er sú hvað það er hægt að velja sjálfur nánast alla áfanga sem eru í náminu, sem hentaði mér vel því ég hef afar fjölbreytt áhugamál á ýmsum sviðum. Ef ég hefði vitað hvað það er skemmtilegt að starfa við markaðsmál þá hefði ég eflaust valið fleiri námskeið sem heyra undir markaðsfræðina og myndu þá undirbúa mig betur fyrir störf á þeim vettvangi“. Ólafur Frímann Kristjánsson viðskiptastjóri hjá Icelandair Cargo ,,Ég tók starfsþjálfun í BS náminu og þar fékk ég innsýn inn í fyrirtækjarekstur og áskoranir sem mæta stórum og smáum fyrirtækjum á Íslandi. Ég lærði að fyrirtækin sem tengjast bláa hagkerfinu á Íslandi eru fjölbreytt eins og þau eru mörg. Ég hef öðlast aukna kunnáttu á sviði hringrásarhagkerfis og aukinn skilning á mikilvægi tengslamyndunar og klasastarfsemi. Ég lærði að það er gott að hafa opinn huga þegar maður vinnur í nýksköpunarumhverfi því maður veit aldrei hverjir geta mögulega náð saman um samstarf eða hvaða lausnirnar koma.Námið undirbjó mig nokkuð vel undir starfsnámið. Það sem nýttist best var kúrsinn Rekstur í sjávarútvegi sem ég tók samhliða starfsnáminu og jók skilning minn á viðfangsefninu jafnt og þétt. Reynsla mín af starfsnámi Sjávarklasans var mjög góð. Ég fékk krefjandi og metnaðarfull verkefni og mér var treyst til þess að inna þau af hendi. Viðmót starfsfólks Sjávarklasans var einstaklega gott og mér leið vel á skrifstofunni. Ég hef meiri áhuga á nýsköpun eftir starfsnámið og kynntist þeim verðmætum sem eru fólgin í bláa hagkerfinu fyrir landið. Árangursrík frumkvöðlastarfsemi veltur á því að fá góða hugmynd en einnig að koma henni í réttan farveg“. Valgerður Árnadóttir, meistaranemi í fjármálum í Háskóla Íslands ,,Ég fór í starfsþjálfun hjá Samkaupum í meistaranámi mínu. Starfsþjálfunin stóð svo sannarlega undir væntingum og gott betur. Ég var vel undirbúin fyrir starfsþjálfunina og hafa allir þeir áfangar sem ég hef lokið í mastersnáminu komið að miklu gagni. Stærsti ávinningur minn í þessari starfsþjálfun hefur einmitt verið að fá tækifæri til að hlusta og læra af ólíkum hópi fólks sem hvert og eitt spilar mikilvægt hlutverk í rekstri fyrirtækisins. Að fá tækifæri til að para námsefnið við raunaðstæður, setja gögn upp í líkön og tímalínur til að sjá hvernig stefnumarkandi þættir hafa áhrif hver á annan. Stór ávinningur fyrir mig hefur einnig verið að ná að mynda tengsl við það atvinnulíf sem ég sækist eftir að starfa í. Notaði ég tækifærið og tengdist ég því starfsfólki Samkaupa sem ég hafði verið í samskiptum við í tengsla-appinu LinkedIn“. Erna María Jensdóttir sjálfstætt ráðgjafi og frumkvöðull ,,Ég fór í starfsþjálfun í grunnnámi mínu í Háskóla Íslands hjá Kiwi. Ég lærði heilan helling á meðan ég var í starfsþjálfuninni og gat nýtt mér margt úr náminu. Það sem stóð upp úr varð að skapa mitt eigið vörumerki og byggja það upp bæði með efnissköpun og markaðsáætlun. Starfsþjálfunin hjá Kiwi uppfyllti allar væntingar mínar og er mjög þakklát fyrir þetta tækifæri. Ég hef lært gríðalega mikið og það hjálpaði mér mikið á þessum tíma að vera á vinnustað eins og Kiwi þar sem hlutirnir eru að gerast og það gagnast mér enn í dag. Það var mjög gott að geta sett þetta á ferilskránna eftir grunnnámið og er þekking og reynsla sem hefur nýst mér mjög vel“. Sunneva Eir Einarsdóttir, hlaðvarpsstjórnandi og þáttastjórnandi á Stöð2 facebooklinkedintwitter