Skip to main content
19. nóvember 2025

Hvað segja Farsældarvísar á fjórða ári innleiðingar Farsældarlaga? 

Hópinn sem hélt erindi á málþingi Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar. MYND/Tryggvi Már Gunnarsson

Þriðjudaginn 18. nóvember fór árlegt málþing Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar (ÍÆ) fram í Auðarsal í Veröld – húsi Vigdísar undir yfirskriftinni: Staða farsældarvísa hjá börnum og ungmennum á fjórða ári innleiðingar farsældarlaga. Málþingið var vel sótt af hópi fagaðila úr ólíkum áttum: skólakerfinu, sveitarfélögum og hinum ýmsu ríkisstofnunum sem koma að farsæld og málefnum barna og ungmenna. 

Farsældarlögin á Íslandi tóku gildi í upphafi árs 2022 og hafa það að markmiði að auka snemmtæka íhlutun í lífi barna þegar vandi steðjar að þeim og veita þeim þjónustu við hæfi og um leið draga úr því að börn og fjölskyldur þeirra falli milli vita, lendi á biðlistum og fái ekki viðeigandi þjónustu. Meginhugsunin með lögunum er jafnframt að grípa börnin snemma og veita þjónustu svo þau þrói ekki með sér frekari vanda. Eitt af stoðverkefnum farsældarlaganna er Íslenska æskulýðsrannsóknin sem miðar að því að safna gögnum um svokallaða Farsældarvísa. 

Ragný Þóra Guðjohnsen er faglegur stjórnandi ÍÆ og dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún segir Farsældarvísa mælikvarða á farsæld barna á eftirfarandi fimm sviðum: menntunar, heilsu og vellíðanar, félagslegra tengsla, öryggis og verndar og lífsgæða og félagslegrar stöðu. Ýmsir þættir séu svo mældir innan þessara fimm sviða farsældar.  

Við sjáum þó líka að það er hópur sem stendur höllum fæti og á unglingsárunum þá upplifa ungmennin, sér í lagi stúlkur, aukinn kvíða og depurð og eiga mörg erfitt með að sofna á kvöldin.

Mælingarnar fara fram í samstarfi við sveitarfélög og skóla og lögð er fyrir rafræn spurningalistakönnun sem börn og ungmenni svara; á hverju ári í 4.-10. bekk grunnskóla en annað hvert ár í framhaldsskólum landsins. Ragný segir gögnin viðamikil og hægt sé að rýna þau með ólíkum gleraugum líkt og gert var á málþingi ÍÆ.  

Af niðurstöðunum að dæma þá sjáum við framfarir en einnig að hlúa þarf betur að ákveðnum hópi barna og ungmenna í ljósi Farsældarlaganna

„Þegar horft er á hópinn í heild þá líður meirihluta af börnum og ungmennum vel í skóla, þau eru almennt í mikilli virkni, sérstaklega á miðstigi, þó það dragi úr henni á unglingsárum. Þá hefur vinna eldri nemenda með námi minnkað. Við sjáum þó líka að það er hópur sem stendur höllum fæti og á unglingsárunum þá upplifa ungmennin, sér í lagi stúlkur, aukinn kvíða og depurð og eiga mörg erfitt með að sofna á kvöldin. Það er ákveðinn hópur sem hefur upplifað áföll, orðið fyrir einhvers konar ofbeldi og upplifir aukinn einmanaleika á unglingsárum. Einnig sjáum við bæði styrkleika og áhættuþætti í hópi nemenda með fjölbreyttan menningarlegan tungumálabakgrunn. Þannig eru færri í þeirra hópi sem upplifa sig tilheyra í skólanum og sem geta fengið aðstoð við heimanám en skemmtilestur þeirra á unglinsárum mælist hærri en hjá íslensku nemendunum. Af niðurstöðunum að dæma þá sjáum við framfarir en einnig að hlúa þarf betur að ákveðnum hópi barna og ungmenna í ljósi Farsældarlaganna.“ 

Á málþinginu voru fjölmörg styttri innlegg fagaðila sem rýndu niðurstöður ÍÆ. Eitt erindið snéri að jarðhræringunum í Grindavík.  

„Íslenska æskulýðsrannsóknin er unnin í nánu samstarfi við stjórnvöld og erum við í samstarfi t.a.m. við Embætti landlæknis og Ríkislögreglustjóra. Embætti landslæknis bað okkur hjá ÍÆ að setja inn bakgrunnsspurningu um hvort að börn og ungmenni hafi búið í Grindavík og flutt vegna jarðhræringa. Þar eru áhugaverðar niðurstöður sem voru kynntar á málþinginu um hvort merkjanlegur munur væri á farsældarvísum hjá grindvískum börnum og jafnöldrum þeirra. Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs og prófessor, og David Reimer, einnig prófessor á Menntavísindasviði og Félagsvísindasviði, rýndu í gögnin og sýna niðurstöður að börn sem neyddust til að yfirgefa heimili sitt í Grindavík í nóvember 2023 vegna jarðhræringanna á Reykjanesi og setjast að annars staðar, meta lífsánægju sína verri en jafnaldrar annars staðar á landinu. Þau upplifa enn fremur veikari skólatengsl og meiri skólasóknarvanda en jafnaldrar.  Lesa má nánar um niðurstöður þessa hluta ÍÆ rannsóknarinnar í frétt á vef hi.is. 

„Í skólakerfinu hefur verið markviss innleiðing á hugmyndafræði farsældarlaganna undanfarin ár og í niðurstöðum sjáum við margt jákvætt, svo sem að nemendur treysta kennurum sínum betur og upplifa að þeim þyki vænt um þá. Jafnframt upplifa nemendur aukin tækifæri til þátttöku í skólastarfi, svo sem við að skipulag skólaviðburði. Hins vegar er einnig að sjá aukningu í einelti og slagsmálum á miðstigi, sér í lagi hjá drengjum, og helmingur barna í 4. og 5. bekk notar samfélagsmiðla frekar eða mjög oft. Þessu þarf að bregðast við. Í 9. og 10. bekk eru reykingar mjög litlar, 8% hafa reykt rafrettur sl. 30 daga og 5% notað nikótínpúða. Áfengisneysla þeirra um ævi mældist 18% og sl. 30 daga höfðu sömuleiðis 6% orðið ölvaðir. Þá var kannabisnotkun 5% um ævi og 2% sl. 30 daga. Hvað þetta varðar þurfum við þó alltaf að muna að utan við þessar tölur eru börn í viðkvæmri stöðu sem ef til vill svara ekki könnuninni þannig að túlkun niðurstaðna þarf að miða að því,” segir Ragný að lokum. 

Horfa má á upptöku af málþinginu hér

Hópinn sem hélt erindi á málþingi Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar. MYND/Tryggvi Már Gunnarsson
Málþing ÍÆ. MYND/Tryggvi Már Gunnarsson
Málþing var vel sótt á stað og í streymi. MYND/Tryggvi Már Gunnarsson
Ragný Þóra Guðjohnsen, faglegur stjórnandi Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar og dósent við Menntavísindasvið HÍ. MYND/Kristinn Ingvarsson