Menntun og félagsleg þátttaka flóttafólks með sérstaka áherslu á börn og ungmenni

Alþjóðlega ráðstefnan New Frontiers: Inter-disciplinary Research on Refugee Children and Youth fór fram dagana 31. október til 1. nóvember í húsnæði Menntavísindasviðs í Sögu.
Saman eða sundruð? Menntun og félagsleg þátttaka flóttabarna og -ungmenna á Íslandi (e. A Part and Apart? Education and social inclusion of refugee children and youth in Iceland (ESRCI) er heiti umfangsmikillar rannsóknar sem Hanna Ragnarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið HÍ leiðir og voru fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar meðal annars kynntar á ráðstefnunni.
Meginmarkmið rannsóknarverkefnisins, Menntun og félagsleg þátttaka flóttabarna og -ungmenna á Íslandi (ESRCI)), sem er öndvegisverkefni styrkt af Rannsóknarsjóði, eru að rannsaka með gagnrýnum hætti aðlögun sýrlenskra og írakskra flóttabarna og -ungmenna á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi, skipulag náms þeirra og hvernig hugað er að vellíðan þeirra í félagslegu umhverfi og námsumhverfi. Þátttakendur í ESRCI verkefninu eru flóttabörn og -ungmenni af ólíku kyni og foreldrar þeirra sem komu til Íslands árin 2016-2021.
Í mörgum tilvikum var rætt um samstarf og myndun nýrra tengsla milli landa og mun ráðstefnan tvímælalaust stuðla að aukinni samvinnu milli fræðimanna í málaflokknum.
„Foreldrarnir hafa fjölbreytta menntun og félags- og efnahagslega stöðu og fjölskyldurnar búa í ellefu sveitarfélögum á Íslandi. Aðrir þátttakendur eru kennarar, skólastjórar og námsráðgjafar barnanna þar sem við á, í leik-, grunn- og framhaldsskólum, starfsfólk sveitarfélaga og sjálfboðaliðasamtök í nærsamfélögum þeirra,“ segir Hanna.
Skipuleggjendur ráðstefnunnar eru þverfaglegt rannsóknarteymi sem unnið hefur að ESRCI verkefninu síðastliðin tæp þrjú ár. Meðal viðfangsefna rannsóknarinnar eru fjöltyngi, menntun, farsæld, félagsleg net, traust og aðgengi að þjónustu.
„Á ráðstefnunni beindum við sjónum að reynslu flóttafólks í mismunandi löndum, einkum barna og ungmenna. Lögð var áhersla á mismunandi sjónarhorn svo sem menningarlegt, pólitískt, félagslegt, trúarlegt og efnahagslegt. Einnig var lögð áhersla á þverfagleg erindi fræðimanna, svo sem á sviði menntunarfræða, sagnfræði, mannfræði, félagsfræði, málvísinda, stjórnmálafræði, lista og bókmennta,“ segir Hanna sem tekur fram að erindi og umræður á ráðstefnunni hafi einkennst af djúpri þekkingu og innsýn í málefni flóttabarna og -ungmenna í mismunandi löndum.
„Af viðbrögðum þátttakenda að dæma var ráðstefnan þeim hvatning til að halda áfram rannsóknum með flóttabörnum og –ungmennum. Í mörgum tilvikum var rætt um samstarf og myndun nýrra tengsla milli landa og mun ráðstefnan tvímælalaust stuðla að aukinni samvinnu milli fræðimanna í málaflokknum. Þátttakendur hafa m.a. beðið um að vera á póstlista og að glærum frá ráðstefnunni verði miðlað,“ segir Hanna.
Þegar Hanna er spurð að því hvort hún telji niðurstöður rannsóknarinnar geta haft áhrif á framtíðarstefnu stjórnvalda hér á landi í málefnum flóttafólks og hælisleitenda er svarið skýrt.
„Mikill áhugi var á pallborði þar sem fulltrúar frá ráðuneytum, sveitarfélögum, skólasamfélaginu, Rauða krossi Íslands og ASÍ tóku þátt og voru þau sammála um að ESRCI verkefnið veitti mikilvægar upplýsingar fyrir íslenskt og alþjóðlegt umhverfi um aðgengi og þátttöku og hvaða hindrunum flóttabörnin og -ungmennin mæta í námsumhverfi sínu. ESRCI teymið vonast til að niðurstöður verkefnisins hafi áhrif á mótun framtíðarstefnu í málefnum flóttafólks og hælisleitenda á Íslandi,“ segir Hanna að lokum.
Nánari upplýsingar má finna á vef ráðstefnunnar hér
Nánari upplýsingar um rannsóknarverkefnið má finna á vef verkefnisins hér

