Sniðgönguyfirlýsing námsbrautar í mannfræði

Yfirlýsing námsbrautar í mannfræði um sniðgöngu á háskólum og rannsóknastofnunum í Ísrael:
Námsbraut í mannfræði við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands lýsir yfir stuðningi við Palestínufólk og baráttu þeirra fyrir tilvistarrétti sínum gegn ísraelskri nýlendustefnu og þjóðarmorði. Með þessari yfirlýsingu göngum við til liðs við akademískar stofnanir um allan heim sem styðja frelsisbaráttu Palestínu og fordæma þjóðarmorð sem felur meðal annars í sér gjöreyðingu allra háskóla á Gaza og ofsóknir á hendur háskólakennurum og -nemendum á Vesturbakkanum og Jerúsalem. Við fetum hér í fótspor Deildar faggreinakennslu og fleiri námsbrauta og deilda við Mennta- og Hugvísindasvið HÍ sem hafa þegar samþykkt slíka sniðgöngu.
Akademískar stofnanir í Ísrael eru virkir þátttakendur og þar af leiðandi samsekar í nýlendustefnu, landráni, þjóðernishreinsunum og aðskilnaðarstefnu Ísraelsríkis. Þær taka meðal annars þátt í þróun vopna og tækni í hernaðarlegum tilgangi, sem og þróun á hernaðaraðgerðum og -kenningum, aðferða til að viðhalda hernámi og til að hvítþvo og réttlæta stríðsglæpi stjórnvalda og kúgun gagnvart þeim sem gagnrýna Ísraelsríki, auk þess sem þær skerða tjáningarfrelsi nemenda og háskólakennara og beita kerfisbundinni mismunun í garð palestínskra nemenda. Þess vegna hefjum við akademíska sniðgöngu gegn Ísrael. Í þessari sniðgöngu felst að:
- Slíta öll tengsl við ísraelska háskóla og aðrar rannsókna- og menntastofnanir.
- Stofna ekki til frekari tengsla við ísraelska háskóla og aðrar menntastofnanir.
Með tengslum er átt við hvers konar samstarf, svo sem rannsóknir og kennslu, ráðstefnur, vinnustofur og málstofur. Sniðganga er friðsamleg leið til þess að lýsa yfir vanþóknun á framferði ísraelskra stjórnvalda og styðja palestínsku þjóðina. Námsbraut í mannfræði mun sniðganga akademískar stofnanir í Ísrael og afþakka samstarf við ísraelskar menntastofnanir og akademískt starfsfólk sem starfar fyrir stofnanir sem eru samsekar í þjóðarmorði þar til stjórnvöld þar í landi láta af stríðsglæpum og aðskilnaðarstefnu og hætta þjóðernishreinsunum á Gaza og Vesturbakkanum.
Yfirlýsingin var samþykkt á námsbrautarfundi 11. sept. 2025.
Kennarar við námsbraut í mannfræði, HÍ.
