Skip to main content

Doktorsvörn í menningarfræði: Claude Nassar

Doktorsvörn í menningarfræði: Claude Nassar - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
14. nóvember 2025 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasal

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 14. nóvember 2025 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild við Háskóla Íslands. Þá ver Claude Nassar doktorsritgerð sína í menningarfræði, Towards Unsettling the Auto-institution of Colonial Logics. Viðburðurinn fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

Andmælendur við vörnina verða Matt Lewis, rannsóknarlektor við Royal College of Art í London og Rick Dolphijn, dósent við Háskólann í Utrecht, í Hollandi. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Björns Þorsteinssonar, prófessors í heimspeki við Háskóla Íslands og Mijke van der Drift, rannsóknaraðjunkts við Royal College of Art í London. Einnig voru í doktorsnefnd Jón Ólafsson, prófessor í menningarfræði við Háskóla Íslands og Hlynur Helgason, dósent í listfræði við Háskóla Íslands.

Gauti Kristmannsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Doktorsverkefnið fjallar um hvernig útilokandi samfélagsleg og pólitísk kerfi viðhalda sér milli kynslóða í gegnum staðbundnar frásagnir og venjur. Rannsóknin skoðar áhrif nýlenduhyggju og nútímavæðingar á staðbundin tengsl og hvernig þessar umbreytingar móta nútímann með samtvinnuðum kúgunarformum. Verkefnið byggir á afnýlendufræðum sem og hinsegin- og femínískum fræðum og greinir hvernig staðbundin merkingarkerfi og reglur styrkja hugmyndir um kynþátt, kyngervi og kynvitund. Einnig er skoðað hvernig skrifræðileg stjórnkerfi takmarka aðra möguleika til að afla sér lífsviðurværis og þekkingar. Markmiðið er að varpa ljósi á aðrar leiðir til að hugsa, lifa og skapa merkingu á sameiginlegan hátt.

Doktorsritgerðin er hluti af rannsóknarverkefninu The Future of European Independent Art Spaces in a Period of Socially Engaged Art (FEINART), sjá www.feinart.org.

Um doktorsefnið

Claude Nassar er með BA-próf í grafískri hönnun frá Notre Dame-Louaize-háskólanum í Líbanon og MA-próf frá námsbrautinni Non Linear Narrative við Konunglegu listaakademíuna í Haag. Hann vinnur að listsköpun og rannsóknum þar sem félagsleg, frásagnarleg og hljóðræn form mætast.

Claude Nassar.

Doktorsvörn í menningarfræði: Claude Nassar