Doktorsvörn: Hamadou Boiro

Aðalbygging
Hátíðasalur
Hamadou Boiro mun verja doktorsritgerð sína „Mansal er þungt orð“: Kóranmenntun til þekkingar, frelsis og valda í Gíneu-Bissá mánudaginn 27. október. Vörn verður stýrt af Unni Dísi Skaptadóttur, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild og fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands. Doktorsvörnin hefst kl. 13:00 og er öllum opin.
Andmælendur eru dr. Mirjam de Bruijn, prófessor í mannfræði við Háskólann í Leiden í Hollandi, og dr. Anneke Newman, mannfræðingur við deild átaka og þróunarfræða við Háskólann í Ghent í Belgíu. Leiðbeinandi ritgerðarinnar var Jónína Einarsdóttir, prófessor emerita frá Háskóla Íslands. Aðrir doktorsnefndarmenn voru dr. Kristín Loftsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, og dr. Neil Howard, Reader við Háskólann í Bath, Bretlandi.
Ágrip
Þessi doktorsritgerð í mannfræði fjallar um Fulbe drengi frá Gíneu-Bissá sem eru sendir í kóranskóla í Senegal. Um er að ræða umdeilda venju sem hefur verið stimpluð sem mansal barna vegna þess. Spurt er hvers vegna heimamenn telji að hugtakið „mansal“ í þessu samhengi sé „þungt orð“ og hvernig þeir bregðist við alþjóðlegum aðgerðum gegn mansali. Rannsóknin byggir á langtíma vettvangsrannsókn (2009–2020), þar sem notast var við þátttökuathuganir, viðtöl og rýnihópa. Þátttakendur voru trúarlegir leiðtogar og kennarar sem hafa verið sakaðir um mansal, kóranskóladrengir sem flokkaðir eru sem fórnarlömb mansals, foreldrar þeirra og annað heimafólk. Rannsóknin sýnir að Fulbe fjölskyldur í Gíneu-Bissá, ekki síst þær sem eru afkomendur þræla, velja kórannám í Senegal fyrir syni sína til þess að bæta félagslega stöðu til valda og frelsis, en ekki vegna fátæktar eða vanþekkingar eins og alþjóðastofnanir halda gjarnan fram. Trúarleg þekking styrkir jaðarsetta hópa á meðan betl og ölmusugjafir eru gagnkvæmar og menningarlega mikilvægar venjur. Aðgerðir gegn mansali og flutningur drengjanna frá Senegal aftur til þorpa sinna í Gíneu-Bissá valda félagslegu uppnámi og ýta undir fordóma á sama tíma og þær þjóna fjölbreyttum hagsmunum, þar á meðal fjármögnun frjálsra félagasamtaka og árstíðabundnum flutningnum vegna uppskeru. Með því að samþætta afnýlendu- og valdakenningar undirstrikar rannsóknin takmarkanir vestrænna barnaverndarráðstafana. Niðurstöður hennar kalla eftir aðgerðum sem taka tillit til staðbundinna aðstæðna og virðingu fyrir virkri þátttöku heimamanna um menntun barna þeirra.
Bakgrunnur doktorsnemans
Hamadou Boiro er með MA gráðu (1999) og DEA (2000) í félagsmannfræði frá Université Cheikh Anta Diop, Dakar, Senegal. Auk rannsókna fyrir doktorsritgerðina hefur hann víðtæka reynslu af rannsóknum á átökunum í Casamance í Senegal, viðbrögðum við átökum, smitsjúkdómum (HIV/alnæmi, kóleru, Ebólu, COVID-19), jafnrétti kynjanna, kynbundnu ofbeldi, umskurði karla, aðstæðum barna og átökum á trúarlegum grunni. Hamadou Boiro hefur starfað fyrir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) sem mannfræðingur í Ebólufaröldrum í Vestur-Afríku 2015 og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó (DRC) 2018–2020 og við viðbrögð við COVID-19 heimsfaraldrinum í Gíneu-Bissá. Hann var ábyrgur fyrir teymi sem vann að samfélagslegu forvarnarstarfi gegn COVID-19 á svæðisskrifstofu WHO fyrir Afríku í Brazzaville, Lýðveldinu Kongó. Hann hefur einnig starfað fyrir WHO í Angóla og Mósambík og UNICEF og Evrópusambandið í Gíneu-Bissá. Eiginkona hans er Kelly Lopes og eiga þau tvær dætur, Nayra Ude og Ayanna Rasheeda. Hamadou Boiro starfar nú sem rannsakandi við Stofnun menntunar og rannsókna (Instituto Nactional de Educação e Pesquisa—INEP), Bissá, Gíneu-Bissá.
Hamadou Boiro ver doktorsritgerð sína "Trafficking is a heavy word": Quranic education for knowledge, liberation and power in Guinea-Bissau
