Skip to main content
2. október 2025

Skoða reynslu Íslendinga af hinu yfirnáttúrulega

Skoða reynslu Íslendinga af hinu yfirnáttúrulega - á vefsíðu Háskóla Íslands

Flestir Íslendingar kannast við að hafa þurft að gæta sín á híbýlum álfa og huldufólks í steinum og hólum, flest höfum við heyrt draugasögur sem fá hárin til að rísa eða heyrt af tröllskessum sem urðu að steini undir geislum sólarinnar. Þá eru til nærri óteljandi sögur af berdreymi, nafnavitjunum og skyggni Íslendinga. Þjóðtrú hefur löngum skipað stóran sess í menningu okkar og hvort sem fólk lítur á hana sem óþarfa leifar frá gamalli tíð eða trúir að í henni megi finna sannleikskorn mætti fullyrða að í þjóðtrúnni felist menningarleg verðmæti sem mótað hafa sjálfsmynd þjóðarinnar í aldanna rás.

En hversu stóran sess skipar þjóðtrú í lífi landsmanna í dag? Samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið á þjóðtrú Íslendinga síðan á áttunda áratugnum hefur hún breyst mikið samhliða örum breytingum í samfélaginu. „Breytingarnar sjást meðal annars af könnunum sem sendar hafa verið út síðustu áratugi en þær gefa góða innsýn í hversu mörg hafa reynslu af yfirnáttúrulegum fyrirbærum,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir, aðjunkt við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands.

Dagrún Ósk hefur umsjón með spennandi verkefni um þjóðtrú á Íslandi sem hlaut styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna í mars síðastliðnum og í sumar störfuðu tveir þjóðfræðinemar við rannsóknina, þær Kristín Dögg Kristinsdóttir og Þórunn Valdís Þórsdóttir. „Við töldum að það væri þörf á því að kafa dýpra og safna upplýsingum um hvernig reynsla fólks af yfirnáttúrulegum hlutum lýsir sér. Kveikjan að rannsókninni er því áhugi á því að skilja enn betur hvernig þjóðtrú á Íslandi er að breytast og mögulega einnig hvers vegna,“ útskýrir Dagrún Ósk.

Dagrun osk

Dagrún Ósk Jónsdóttir.

Konur trúa frekar á hið yfirnáttúrulega

Þjóðtrúarkannanir hafa verið sendar út þrisvar sinnum síðustu áratugi, fyrst af Erlendi Haraldssyni prófessor í sálfræði árið 1974, af Erlendi og Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði, á árunum 2006-2007 og aftur af Terry árið 2023 í samstarfi við Félagsvísindastofnun HÍ. „Í könnununum er meðal annars spurt um trú, viðhorf og reynslu Íslendinga af hinu yfirnáttúrulega, svo sem berdreymi, nafnavitjunum, skyggni, huldufólki, reimleikum og fljúgandi furðuhlutum,“ útskýrir Dagrún Ósk.

„Ljóst er af þjóðtrúarkönnuninni frá 2023 að konur eru líklegri en karlar til að búa yfir slíkri reynslu,“ bendir Dagrún Ósk á en könnunin leiddi einnig í ljós fleiri áhugaverðar breytur sem taka þarf tillit til, svo sem aldur og búsetu.

Viðmælendur með sem víðtækasta reynslu

Rannsóknin byggist á opnum viðtölum við einstaklinga sem tóku þátt í könnuninni frá 2023 og hefur reynslu af hinu yfirnáttúrulega. „Mörg þeirra sem svöruðu þeirri könnun gáfu leyfi fyrir því að haft yrði samband við þau og þeim boðið í viðtal um eigin reynslu,“ útskýrir hún. Viðtölin voru tekin í sumar og Kristín Dögg og Þórunn Valdís höfðu umsjón með þeim.

Dagrún Ósk segir viðtölin hafa gengið afar vel. „Það hefur gengið vel að taka viðtöl í sumar, sem er frábært. Ég aðstoða Kristínu og Þórunni eftir þörfum og svo hefur Terry Gunnell líka verið okkur innan handar til skrafs og ráðagerða enda þekkir hann kannanirnar út og inn.“

Thorunn

Þórunn Valdís Þórsdóttir.

Kristín Dögg og Þórunn Valdís sömdu spurningarnar fyrir viðtölin og lögðu áherslu á að finna viðmælendur með sem fjölbreyttastan bakgrunn. „Vinnan hófst á því að við Kristín útbjuggum rannsóknaráætlun og sameiginlegar grunnspurningar fyrir viðtöl svo það yrði samræmi milli þeirra viðtala sem við tækjum með það í huga þó að viðmælendurnir hafa ólíka reynslu. Það hefur áhrif á hvaða stefnu hvert viðtal tekur og hvaða viðbótarspurningar koma út frá því,“ bendir Þórunn Valdís á og Kristín Dögg bætir við: „Við vildum að fjölbreytnin fengi að njóta sín og að viðtölin yrðu ekki einsleit.“ Þegar sá rammi var kominn höfðu þær samband við fólk sem hafði gefið kost á viðtali í fyrrnefndri spurningakönnun fyrir um tveimur árum í von um að það væri enn viljugt til þess.

Rannsóknarvinna frábært tækifæri fyrir nemendur

En hvernig kom það til að þær fóru að vinna að verkefninu? „Fyrir mig hefst verkefnið þegar ég sá auglýst starf fyrir þjóðfræðinema við rannsóknarverkefni um þjóðtrú á Íslandi, sem hafði þá þegar fengið samþykktan styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna. Ég ákvað að sækja um þar sem mér fannst viðfangsefni rannsóknarinnar mjög spennandi og gaman að fá tækifæri til að vinna að svona rannsókn,“ segir Þórunn Valdís. Kristín Dögg sá verkefnið einnig auglýst og sótti um vegna áhuga á umfjöllunarefninu. „Það er ótrúlega gaman að vera í sumarvinnu sem virkilega vekur áhuga hjá manni. Það er frábært tækifæri fyrir nemendur að vinna að sumarverkefnum eins og þessu og einnig gagnlegt til að skoða ólík viðfangsefni innan þjóðfræðinnar, kynnast fólki og fá tækifæri til að vinna undir handleiðslu umsjónarfólksins hverju sinni,“ segir hún.

Sögur fólks og óáþreifanlegur menningararfur heilla

Kristín Dögg og Þórunn Valdís eru báðar ánægðar með fjölbreytnina innan þjóðfræðinnar og finnst erfitt að benda á eitthvað eitt sem þeim þykir áhugaverðast. „Ég hef enn ekki fundið neitt innan þjóðfræðinnar sem hefur ekki vakið áhuga minn,“ segir Kristín og heldur áfram: „Ég hef rosalega mikinn áhuga á fólki almennt og sögum þeirra; skoða hvað það er sem mótar það og hvers vegna við gerum það sem við gerum. Eins finnst mér áhugavert að skoða hvernig fortíðin hefur mótað okkur og spá fyrir um hvað hún og nútíðin geta sagt okkur um framtíðina.“

Þórunn Valdís bendir á tvö svið sem helst vekja áhuga hennar. „Það er frekar erfitt að segja hvar áhugasvið mitt innan þjóðfræðinnar liggur en það eru þó tvö svið sem ég held að standi oftast upp úr. Annars vegar daglegt líf „í gamla daga“ og þá sérstaklega fram að upphafi 20. aldar. Hins vegar óáþreifanlegi menningararfurinn, eins og einmitt þjóðtrúin, en þar er ég alveg jafn spennt fyrir samtímanum og fyrir fortíðinni,“ segir hún.

„Hún veitir mikilvæga innsýn í hugmyndir Íslendinga um þjóðtrú en þær endurspegla á margan hátt gildismat okkar, viðhorf til umhverfisins og hugmyndaheim allan. Slík innsýn er nauðsynleg til að skilja betur það samfélag sem við erum hluti af. Þá hafa orðið margvíslegar breytingar á samfélaginu á undanförnum árum og áhugavert að vita hvaða áhrif þær hafa á þjóðtrúna. Það er líka mikilvægt að safna þessum sögum, reynslu og viðhorfum áður en þau glatast,“ segir Dagrún Ósk um rannsóknina.

Óttaleysi gagnvart yfirnáttúrulegum hlutum

Þórunn Valdís og Kristín Dögg stefna á að kynna niðurstöðurnar í fyrirlestri á ráðstefnu Þjóðarspegilsins í lok október. Fyrirlesturinn mun snúa að upplifunum fólks af framliðnum en hátt hlutfall viðmælenda býr yfir slíkri reynslu og ljóst er að upplifanir þeirra og skynjun er afar fjölbreytt. „Hlutfall þeirra yfirnáttúrulegu fyrirbæra sem viðmælendur okkar höfðu reynslu af er í takt við niðurstöður könnunarinnar sem send var út árið 2023. Mörg þeirra höfðu til dæmis reynslu af að fá hugboð eða að dreyma fyrir einhverju en færri höfðu persónulega reynslu af álfum og huldufólki. Auk þess hafa 20 af 22 viðmælendum okkar einhvern tímann skynjað návist einhvers framliðins en við ætlum einmitt að fjalla sérstaklega um þá upplifun í fyrirlestri okkar á Þjóðarspeglinum,“ segir Þórunn Valdís.

Þórunn Valdís leggur einnig áherslu á hversu áhugavert hefur verið að heyra hvernig fólk segir frá reynslu sinni og hvað sé líkt og ólíkt með upplifunum fólks af svipuðum hlutum. „Það gæti líka verið skemmtilegt að skoða orðaval fólks og athuga hversu ólík túlkun þeirra getur verið á sömu hugtökum. Ég veit þó ekki hvort það muni koma fram í niðurstöðum þessa verkefnis eins og stefnan er í dag,“ segir hún.

Kristin

Kristín Dögg Kristinsdóttir.

Við vinnslu viðtalanna kom það Kristínu Dögg skemmtilega á óvart hve opnir karlkyns viðmælendur hennar voru. „Eldri kannanir sýna að konur eru gjarnari á að tala um þessi málefni og því kom mér það mikið á óvart hve opnir þeir voru, bæði að svara mér þegar ég leitaðist eftir viðtali og í sjálfum viðtölunum.“

Kristín Dögg skynjaði einnig ákveðið óttaleysi gagnvart reynslunni af yfirnáttúrulegum hlutum. „Fólkið sem ég ræddi við er sjaldnast hrætt við „yfirnáttúrulega“ hluti og lítur á þá sem hluta af veruleikanum frekar en eitthvað yfirnáttúrulegt. Eins og einn viðmælandinn minn orðaði það er skemmtilegra að ímynda sér álfa hoppandi um grasið þegar maður sér það bærast út undan sér heldur en að útskýringin á því sé bara vindurinn. Það er mikil fegurð í óttaleysi viðmælenda og virðingu þeirra fyrir náttúrunni og því sem kann að leynast í henni.“

Þjóðtrú tilheyrir ekki bara fortíðinni

Aðspurðar um möguleg áhrif niðurstaðna rannsóknarinnar segja Kristín Dögg og Þórunn Valdís að þær muni meðal annars auka skilning á því hvernig fólk upplifir yfirnáttúrulega hluti. „Niðurstöðurnar munu jafnframt sýna fram á að margs konar þjóðtrú og yfirnáttúra tilheyra ekki bara fortíðinni heldur líka samtímanum. Þá gæti rannsóknin til dæmis orðið til þess að aðrir verði opnari fyrir því að tjá sig um svipaða persónulega reynslu.“

Rannsóknin er jafnframt mikilvæg til að skilja betur hvernig þjóðtrú Íslendinga hefur þróast og breyst á undanförnum árum og hvers vegna. „Hún veitir mikilvæga innsýn í hugmyndir Íslendinga um þjóðtrú en þær endurspegla á margan hátt gildismat okkar, viðhorf til umhverfisins og hugmyndaheim allan. Slík innsýn er nauðsynleg til að skilja betur það samfélag sem við erum hluti af. Þá hafa orðið margvíslegar breytingar á samfélaginu á undanförnum árum og áhugavert að vita hvaða áhrif þær hafa á þjóðtrúna. Það er líka mikilvægt að safna þessum sögum, reynslu og viðhorfum áður en þau glatast,“ útskýrir Dagrún Ósk.

Ljúka verkefninu á Þjóðarspeglinum

„Minni vinnu lýkur í raun eftir Þjóðarspegilinn en hver veit hvort það verði eitthvað meira í framhaldinu, það væri virkilega gaman,“ segir Kristín Dögg sem er með BA-gráðu í þjóðfræði og viðbótardiplómu að auki. Hún hyggst jafnframt stunda frekara nám í vetur. „Ég hlakka mikið til vetrarins en ég byrjaði í meistaranámi í þjóðfræðikennslu í ágúst. Það er þverfaglegt nám með áherslu á þjóðfræðikennslu á framhaldsskólastigi.“

Þórunn Valdís byrjaði aðra önn sína í framhaldsnámi í þjóðfræði nú í ágúst. „Eftir fyrirlesturinn okkar á Þjóðarspeglinum mun ég líklega segja formlega skilið við þetta verkefni og einbeita mér að náminu en þó er ekki útilokað að lokaverkefnið mitt í því muni fara á svipaðar slóðir,“ segir Þórunn Valdís að lokum.

""