Skip to main content
22. september 2025

Aðeins helmingur þátttakenda í Heilsuferðalaginu metur heilsu sína góða

Aðeins helmingur þátttakenda í Heilsuferðalaginu metur heilsu sína góða - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fyrstu niðurstöður í þriðju gagnasöfnun Heilsuferðalagsins, langtímarannsóknar við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri sem nær til hóps Íslendinga sem fæddust árið 1988, benda til þess að aðeins rúmlega helmingur þátttakenda meti andlega og líkamlega heilsu sína góða eða mjög góða við 36 ára aldur. Þá reynist um helmingur í ofþyngd og um 20% eiga við offitu að stríða. Frekari niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar á ráðstefnu þriðjudaginn 23. september og verður hægt að fylgjast með henni í beinu streymi.

Í rannsóknarverkefninu „Heilsuferðalagið – langtímarannsókn á Íslendingum fæddum 1988“ er markmiðið að skoða þróun andlegrar, félagslegrar og líkamlegrar heilsu Íslendinga fæddra árið 1988 – frá unglingsárum (15 ára, árið 2003), á forfullorðinsárum (23 ára, árið 2011) til fullorðinsára (við 36 ára aldur, árið 2024). Þriðja gagnasöfnun á vegum rannsóknarinnar hófst í október 2024 og lauk í júní síðastliðnum. Þátttaka var með eindæmum góð en alls tóku 486 einstaklingar (þar af 64% konur) þátt í þriðju gagnasöfnun Heilsuferðalagsins. 

Samtals hafa um 1.000 einstaklingar fæddir 1988 tekið þátt í þessum þremur gagnasöfnunarlotum Heilsuferðalagsins á einhverjum tímapunkti. Um 4.700 Íslendinga eru fæddir eru árið 1988 og því hafa um 20% þeirra tekið þátt í Heilsuferðalaginu. Slík þátttaka í langtímarannsókn telst til algjörrar undantekningar, ekki bara á Íslandi heldur einnig á heimsvísu. Vilja rannsakendur koma á framfæri þakklæti til allra þátttakenda fyrir þeirra framlag í Heilsuferðalaginu.

Fyrstu niðurstöður í þriðju gagnasöfnun Heilsuferðalagsins, sem lauk í sumar, benda til þess að aðeins rúmlega helmingur þátttakenda meti andlega og líkamlega heilsu sína góða eða mjög góða við 36 ára aldur. 
 

Samtals hafa um 1.000 einstaklingar fæddir 1988 tekið þátt í þessum þremur gagnasöfnunarlotum Heilsuferðalagsins á einhverjum tímapunkti. Um 4.700 Íslendinga eru fæddir eru árið 1988 og því hafa um 20% þeirra tekið þátt í Heilsuferðalaginu. Slík þátttaka í langtímarannsókn telst til algjörrar undantekningar, ekki bara á Íslandi heldur einnig á heimsvísu.

Líkamsþyngdarstuðull þátttakenda við 36 ára aldur bendir enn fremur til þess að tæplega 50% þeirra séu í ofþyngd og um 20% eigi við offitu að stríða. Til samanburðar voru 15% þátttakenda í ofþyngd við 15 ára aldur og tæp 2% flokkuðust með offitu.  

Þegar spurt var um hversu oft í viku þátttakendur, sem voru þá 36 ára, hreyfðu sig kom í ljós að um 22% hreyfðu sig aldrei og sama hlutfall hreyfði sig 1 til 2 sinnum í viku. Flestir, eða um 38%, hreyfðu sig 3 til 4 sinnum í viku. Um 37% þátttakenda sögðust finna mjög oft eða oft fyrir mikilli streitu í daglegu lífi og enn fremur mældust 60% þátttakenda með hækkaðan eða of háan blóðþrýsting.

Næstu skref í rannsókninni eru að greina gögn frekar og rýna í hlutlægar mælingar til að skoða hvernig líkamleg og andleg heilsa ásamt félagslegum stuðningi tengjast og móta heilsu á fullorðinsárum.

Fjölmargir vísindamenn og framhaldsnemar Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri auk erlendra samstarfsaðila hafa í þessa rúmu tvo áratugi staðið að Heilsuferðalaginu. 

Ráðstefna Heilsuferðalagsins 

Fjallað verður um framkvæmd rannsóknarinnar og fleiri niðurstöður verða kynntar á ráðstefnu Heilsuferðalagsins sem haldin er þriðjudaginn 23. september milli kl. 12:30 og 16:00.

Streymt verður frá ráðstefnunni og er öllum áhugasömum velkomið að fylgjast með. 

Logo Heilsuferðalagsins