Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Arnar Snær Ágústsson

Doktorsvörn í læknavísindum - Arnar Snær Ágústsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
3. október 2025 9:00 til 12:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 3. október 2025 ver Arnar Snær Ágústsson doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Áhrif blóðþynningar- og bólgueyðandi lyfja á horfur einstaklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein: lýðgrunduð rannsókn. Impact of anticoagulation and immunosuppressive drugs on the prognosis of patients with colorectal cancer: a population-based study.

Andmælendur eru dr. Martti Farkkila, prófessor emeritus við Háskólann í Helsinki, og dr. Richard Goldberg, prófessor við West Virginia University School of Medicine í Bandaríkjunum.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Einar Stefán Björnsson, prófessor og meðleiðbeinandi var Jóhann Páll Hreinsson, sérfræðingur. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Ásgerður Sverrisdóttir, sérfræðingur, Helgi Birgisson, sérfræðingur, Sigrún Helga Lund, prófessor og Sigurdís Haraldsdóttir, prófessor.

Sædís Sævarsdóttir, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 9.00.

Ágrip

Nýgengi ristil- og endaþarmskrabbameina fer vaxandi og eru þau ein algengasta dánarorsök af völdum krabbameina. Ristil- og endaþarmskrabbamein greinast oftast með blæðingartengdum einkennum og fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að blóðþynningarlyf geti aukið líkur á þeim blæðingum. Hins vegar hefur ekki verið rannsakað hvort blóðþynningarlyf geti leitt til snemmgreiningar og þá betri lifunar. Rannsóknir hafa sýnt fram á að hjartamagnýl er verndandi gegn ristil- og endaþarmskrabbameinum en hafa gefið misvísandi niðurstöður um áhrif þess á lifun vegna krabbameina. Þekkt er að sterar draga úr bólgu og hafa víðfeðm áhrif á ónæmiskerfið, en áhrif steranotkunar fyrir greiningu á ristil- og endaþarmskrabbameinum hafa lítið verið rannsökuð og þá ekki áhrif þeirra á lifun.

Allar fjórar rannsóknirnar voru lýðgrundaðar afturskyggnar rannsóknir sem byggðust á gagnagrunnum. Í fyrstu rannsókninni var nýttur blóðþynningargagnagrunnur til að kanna orsakir meltingarvegsblæðinga, frá 2014-2019. Hinar þrjár rannsóknirnar voru byggðar á ristils- og endaþarmskrabbameins-gagnagrunni yfir alla sjúklinga sem greindust með ristil- og endaþarmskrabbamein frá 2000-2019 á Íslandi og borin var saman lyfjanotkun fyrir greiningu og útkomur vegna krabbameins.

Niðurstöður fyrstu rannsóknarinnar sýndu fram á að hjá einstaklingum sem tóku blóðþynningarlyf og fengu meltingarvegsblæðingu stafaði blæðingin oftar af sepa í ristli eða krabbameini. Í annarri rannsókninni kom í ljós að blóðþynningarhópurinn hafði verri heildarlifun en hins vegar betri krabbameinstengda lifun, þó svo að stigun hafi ekki verið marktækt frábrugðin. Þetta gefur til kynna að blóðþynningarlyf útleysi frekar blæðingar frá sepa eða krabbameini í ristli og geti leitt til betri lifunar, að öllum líkindum í gegnum snemmgreiningu en frekari rannsókna er þörf.
Þriðja rannsóknin á hjartamagnýli fyrir greiningu ristil- og endaþarmskrabbameins sýndi að einstaklingar sem tóku hjartamagnýl greindust mun sjaldnar með meinvarpandi sjúkdóm og höfðu betri krabbameinstengda lifun. Hjartamagnýl virðist því hafa hindrandi áhrif á meinvörpun krabbameins. Að lokum voru áhrif stera rannsökuð á lifun einstaklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein en þar kom í ljós að þeir sem tóku stera voru líklegri til að fá endurkomu krabbameins eða látast yfir tímabilið. Þessi áhrif virtust einkum koma fram fimm árum eftir upphafsgreiningu en þessar niðurstöður þarf að staðfesta í fleiri rannsóknum.

Abstract

The incidence of Colorectal Cancer (CRC) is increasing, and it‘s one of the leading causes of death due to cancer. The most common presenting symptoms of CRC are gastrointestinal bleeding events, and oral anticoagulants have been shown to increase the risk of such events. However, there are no studies examining whether oral anticoagulants (OACs) could improve survival through potential early detection. Aspirin has been demonstrated to have protective effects against CRC, but its impact on cancer-specific survival has been conflicting. Aspirin‘s effects are believed to be mediated through anti-inflammation. Corticosteroids have multiple and complex effects on inflammation and the immune system, but their potential effects on CRC have not been previously explored.

All four studies were nationwide studies based on retrospective cohort databases. Study I used data from the OAC prescriptions database to examine gastrointestinal bleeding events in OAC users from 2014 to 2019. Studies II, III, and IV were based on the Colorectal Cancer Database from 2000 to 2019 and compared the association of pre-diagnostic medications with CRC outcomes.

Study I demonstrated that OACs increased the risk of bleeding events due to either colonic adenoma or CRC. Anticoagulation use was associated with improved CRC-specific survival, while overall survival was decreased in OAC users. Both of these results further suggest that anticoagulation could potentially lead to early CRC detection with improved CRC-survival. Aspirin users had improved CRC-specific survival, mediated mainly by fewer patients with stage IV disease. This could mean that aspirin could delay or hinder the metastatic development of CRCs. Corticosteroid use prior to CRC diagnosis was associated with worse disease-free survival, with the decreased survival mostly seen 5 years after cancer diagnosis. This could imply that corticosteroids might have negative effects on long-term cancer survival; however, further studies are required to substantiate these findings.

Um doktorsefni

Arnar Snær Ágústsson er fæddur árið 1993 á Akranesi og uppalinn í Vík í Mýrdal. Hann lauk námi af náttúrufræðibraut Menntaskólans að Laugarvatni og síðan embættisprófi í læknisfræði 2020. Að loknu kandídatsári hóf hann sérnám í svæfingar- og gjörgæslulækningum við Landspítala þar sem hann starfar samhliða doktorsnámi. Á kandídatsári hóf Arnar doktorsnám við Háskóla Íslands og hlaut styrk frá Eimskipasjóði Háskóla Íslands. Foreldrar Arnars eru Ágúst Freyr Bjartmarsson og Kristín Svafarsdóttir.

Arnar Snær Ágústsson ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 03. október 2025.

Doktorsvörn í læknavísindum - Arnar Snær Ágústsson