Ávarp Silju Báru R. Ómarsdóttur, nýs rektors Háskóla Íslands, við rektorsskipti

Forseti Íslands, menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrrverandi forsetar, rektorar og fyrrverandi ráðherrar. Kæra samstarfsfólk, stúdentar, ættingjar og aðrir gestir.
Takk fyrir að vera hér í dag, fyrir að sýna Háskóla Íslands og embætti rektors þann heiður að vera viðstödd þessa athöfn. Ég er djúpt snortin yfir því að sjá ykkur öll hér og það er mér mikill heiður að taka við forystu stærsta og elsta háskóla landsins, stofnunar sem hefur verið ein af kjölfestum íslensks samfélags í meira en hundrað ár. Leið mín að þessu embætti hefur ekki verið bein og ég komst ekki hingað ein. Því vil ég sérstaklega þakka öllum þeim sem hafa kennt mér, leiðsagt mér og stutt mig, bæði á minni eigin skólagöngu, í starfi og loks í kosningum til þessa mikilvæga embættis. Ég er þakklát fyrir að tilheyra háskólasamfélagi sem efnir til lýðræðislegra kosninga um forystu sína því það innihaldsríka samtal um Háskóla Íslands sem fór fram í aðdraganda þeirra verður mér dýrmætt veganesti til að leysa verkefni næstu ára.
Einkum vil ég þakka Jóni Atla Benediktssyni fyrir hans störf undanfarinn áratug – og falleg orð í minn garð. Jón Atli hefur sinnt starfi rektors af elju og metnaði fyrir hönd skólans, sem hefur vaxið og dafnað undir hans forystu. Framfaraskrefin hafa verið fjölmörg síðustu tíu ár eins og hann kom inn á; aukið alþjóðasamstarf, uppbygging á háskólasvæðinu, blómstrandi rannsóknastarf og stóraukin nýsköpun, svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur hann reynst mér einstaklega vel í undirbúningi fyrir komandi verkefni – takk fyrir það Jón Atli. Ég finn að ég tek við góðu búi.
Auðlegðin sem Háskóli Íslands býr yfir verður ekki mæld í krónum eða steinsteypu, heldur í þekkingu og sköpunarkrafti. „Orðin eru kastalar okkar Íslendinga,“ sagði Vigdís Finnbogadóttir í innsetningarræðu sinni fyrir 45 árum síðan og bætti við, „Í fámenni og fátækt týndum við aldrei manndómi okkar. Við gleymdum aldrei að setja í orð – hinn eina varanlega efnivið sem við eigum – allan hag okkar og alla hugsun. Einmitt þess vegna hefur okkur reynst svo létt verk að skapa okkur fjölskrúðuga nútímamenningu.“
Þessi orð Vigdísar minna okkur á hvað þekking, tungumál og menning eru dýrmæt. Við eigum rætur í sagnaarfinum og fræðum fortíðar, en um leið höfum við byggt upp nútíma-menntun og framsækin vísindi í hæsta gæðaflokki. Stúdentar okkar eru framtíð landsins, vísindafólkið í fremstu röð og starfsemi skólans hefur áhrif á alla þætti þjóðlífsins. Hér mætast hugmyndir og draumar, reynsla og ný þekking, saga og samtími. En við þurfum að gæta þess að halda áfram að efla og styrkja fjölbreytileika því það er ekki síst hann sem skapar fjölskrúðuga nútímamenningu. Við eigum að fagna þeim sem hingað koma og auðga samfélag okkar með nýjum siðum og venjum.
Verkefni okkar teygja sig út fyrir landamærin – Ísland er ekki eyland nema í eiginlegri merkingu. Við sjáum vaxandi átök og hernað í kringum okkur og nú þegar kallað er eftir auknum framlögum ríkja til öryggis- og varnarmála verðum við að standa vörð um fjárframlög til menntunar og rannsókna, ekki síst til þeirra rannsókna sem viss öfl í heiminum virðast óttast, svo sem rannsóknir á fjölbreytileika, loftslagsbreytingum af mannavöldum og jafnrétti.
Ráðist er gegn akademísku frelsi út um allan heim, þrengt að tjáningarfrelsi og menntastofnanir jafnvel markvisst eyðilagðar. Við erum hluti af hinu alþjóðlega þekkingar-samfélagi sem nú berst fyrir stöðu sinni – og þeirri baráttu þurfum við að taka þátt í.
Í nýlegri grein ræðir menntunarfræðingurinn Henry Giroux hugtakið „menntamorð“, sem er fylgifiskur þess þjóðarmorðs sem við höfum þurft að horfa upp á, svo gott sem í beinni útsendingu, í tæp tvö ár. Meðvituð eyðilegging menntainnviða verður ekki kölluð annað en „menntamorð“. Það er alvarlegt og þarf að fordæma. En önnur og lævísari birtingarmynd þess er hugmyndafræðilegt ofbeldi sem felst í því að brjóta niður tjáningarfrelsi og akademískt frelsi með því að refsa og ógna fræðafólki um allan heim. Það þarf hins vegar ekki alltaf að beita ofbeldi heldur er fræðasamfélaginu gert ljóst að betra sé að þegja en að stíga fram. Það er á ábyrgð okkar allra að verja akademískt frelsi.
Til þess þurfum við að styrkja þá farvegi sem háskóla-samfélagið hefur til að takast á við úrlausnarefni sem upp kunna að koma – hvert er hlutverk okkar þegar við verðum vitni að menntamorði? Eigum við að stíga fastar til jarðar þegar falsfréttir grafa undan ákvarðanatöku sem byggir á vísindalegum niðurstöðum? Ein leið til að móta slíka stefnu er í gegnum samræðulýðræði, sem ég vil nýta til að takast á við flókin málefni og ná sameiginlegri niðurstöðu. Með þessari aðferð má einnig efla lýðræðislega stöðu háskólaþings sem ákvarðanatökuvalds.
Þannig getum við styrkt vissu okkar um að háskólasamfélagið standi með gagnrýnum röddum, standi með rétti fræðafólks til að leita sannleika og þekkingar án óeðlilegra afskipta og ræða hugmyndir frjálst og án ótta við ritskoðun eða refsiaðgerðir, eins og kemur fram í nýlegri yfirlýsingu íslenskra háskólarektora um akademískt frelsi og sjálfstæði háskóla.
Kæru gestir, ég mun ávallt leggja ríka áherslu á akademískt frelsi og áfram styðja þá sterku hefð að leyfa vísindunum að stjórnast af forvitni, fagmennsku, og gagnrýnni hugsun. Þetta þarf að ná inn í skólastofurnar því kennsla í háskólum er ólík kennslu á öðrum skólastigum að því leyti að hún þarf að byggja á rannsóknum og stúdentar eru þannig þátttakendur í leitinni að þekkingu og auknum skilningi. Það er gæðamál fyrir kennslu að styrkja akademískt frelsi og rannóknir.
Um leið þarf að tryggja jafnvægi milli grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna, með því verða til framtíðarverðmæti fyrir samfélagið. Háskólinn þarf að halda áfram þeirri sókn sem hafin er í erlenda sjóði. Þar má gera ráð fyrir að samkeppnin harðni ef fjármunum verður enn frekar beint til þröngt skilgreindra öryggis- og varnarmála. Ef niðurskurðarstefnu í nágrannalöndum okkar verður fram haldið eru það einkum hug- og félagsvísindi sem þrengt verður að en án þeirra tapast skilningur okkar á mannlega þættinum í öllu vísindastarfi.
Við munum mæta nýjum áskorunum í framtíðinni – gervigreindin er ein þeirra þótt í henni felist líka mörg tækifæri. Minnum okkur á að upphaflega hugtakið „artificial intelligence“ þýðir í raun manngerð greind – en hún verður aldrei mannleg. Eins og mörg þau tæki sem mannkynið hefur smíðað sér getur hún verið mjög hjálpleg, um leið og muna verður að gervigreindin er afurð okkar greindar. Sitt er hvað, sólin eða manngert ljós.
Þekking og vísindi mega ekki vera einkamál fárra. Þau eru lykillinn að framtíðinni, sem varðar okkur öll. Vísindi leggja grunn að framþróun og bættum lífsgæðum en þau eiga líka að vera jöfnunartæki. Það er ekki hagur vísindanna að niðurstöður rannsókna séu læstar inni í hagnaðardrifnum tímaritum og það er meðal annars þess vegna sem UNESCO mælir með því að aðildarríki sín tryggi opinn aðgang að rannsóknum. Rannsakendur við Háskóla Íslands eru langt yfir meðaltali á heimsvísu hvað varðar birtingar í opnum aðgangi. Þetta þurfum við að tryggja áfram enda eru opin vísindi ein leið til að brúa bilið milli iðnvæddra ríkja og þróunarríkja og hraða framförum í þágu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Háskóli Íslands nýtur mikils trausts meðal almennings. Það er mikilvægt að viðhalda þessu trausti, sem við gerum með gagnsæju og hreinskiptu samtali við samfélagið með framþróun í vísindum, tækni og þekkingu að markmiði. Þannig hefur skólinn verið leiðandi afl í íslensku samfélagi og ég mun leggja höfuðáherslu á að hann verði það áfram.
Við erum heppin að búa í landi þar sem almenningur skilur mikilvægi menntunar og atvinnulífið sækir í vísindalega þekkingu. Tengsl milli háskóla og atvinnulífs eru gríðarlega mikilvæg og ég sé mörg tækifæri til að efla þau með stofnun háskólasamstæðu Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum. Samstæðan mun auka fjölbreytni í námsframboði, auka þjónustu við stúdenta um allt land og vera þannig áfangi í jafnrétti til náms. Skólinn stendur nú þegar sterkt í framboði sínu á námi og þjónustu um allt land, en þetta verður óneitanlega mikilvæg viðbót við þann sterka grunn sem fyrir er. Háskóli Íslands er og verður skóli alls landsins. Við megum aldrei gefa afslátt af því.
Góðir gestir. Þrátt fyrir mikla fjölgun íbúa landsins er fjöldi stúdenta við HÍ nokkurn veginn sá sami og hann var fyrir áratug, þótt vissulega hafi hann sveiflast mikið á þessum tíma. Ein möguleg ástæða þessa er að innflytjendum sé ekki að fjölga jafn mikið í háskólanámi og í samfélaginu, því fólksfjölgun er jú að mestu þeim að þakka.
Við þurfum að gæta þess að vera háskóli allra landsmanna, bæði þeirra sem eiga hér djúpar rætur og þeirra sem eru rétt að skjóta rótum. Okkur ber að huga að því hvað það er sem stendur í vegi fyrir aðgengi og þátttöku vissra hópa. Það kann að vera kennslutungumál, takmarkað framboð fjarnáms, tímasetning kennslustunda, eða eitthvað allt annað. Allt er þetta rannsóknarefni. Við þurfum að greina ástæðurnar, móta og innleiða stefnu til að auka aðgengi og tryggja þátttöku ólíkra hópa. Ef menntun á að vera sameiningarafl – sem ég tel að hún eigi að vera – þarf að opna háskólann fyrir þessum hópi og ég mun leggja áherslu á að HÍ sé skóli fyrir öll þau sem vilja læra, óháð bakgrunni eða aðstæðum.
Á næstu mánuðum stækkar nærsamfélag okkar hér verulega þegar Menntavísindasvið flytur í Sögu. Þar sem áður var sofið í öllum herbergjum verður nú vakað yfir fjöreggi samfélagsins, menntun. Í Sögu munu kennarar næstu kynslóða hljóta menntun og þjálfun við framúrskarandi aðstæður, sérstaklega verður aðbúnaður list- og verkgreina stórbættur sem vonandi skilar sér út í skólakerfið áður en varir. Þessi flutningur skapar einnig tækifæri fyrir aukin tengsl milli fræðasviða. Ég er sannfærð um að þetta muni styrkja skólann sem heild og treysti því að þverfræðilegt samstarf muni aukast enn frekar í þessu umhverfi og að nýsköpun – ekki síst samfélagsleg nýsköpun – muni blómstra sem aldrei fyrr eftir þeim ásum sem liggja munu frá Sögu og VR, til Grósku og yfir í Eirberg.
Kæru gestir, fjármagn sem veitt er til háskólastarfs er ein arðbærasta fjárfesting sem til er. Þess vegna ætti það að vera augljós leið til að efla hag samfélagsins að fullfjármagna háskólastigið, að gera Háskóla Íslands kleift að sinna öllum sínum fjölþættu lögbundnu og samfélagslegu hlutverkum, án þess að ganga á úthald og heilsu starfsfólks við skólann. Þetta er nauðsynleg forsenda þess að efla rannsóknir, nám og nýsköpun sem eru undirstaða velmegunar og velferðar hverrar þjóðar. Samfélag án fullfjármagnaðs háskóla er eins og skip með laskað stefni.
Verkefni næstu ára eru að skapa gott og réttlátt starfsumhverfi bæði fyrir starfsfólk og stúdenta. Ég óska eftir samstarfi við stjórnvöld um að fjármagna þær umbætur sem gera þarf á starfsumhverfinu til þess að bæta vellíðan í starfi og námi. Nýlegar rannsóknir sýna að álag á háskólastarfsfólk er gríðarlegt, sér í lagi meðal þeirra sem eru að hefja störf og kulnunareinkenni eru áberandi mikil meðal akademísks starfsfólks og doktorsnema.
Það er ekki náttúrulögmál að fólk verði að keyra sig út til þess að ná árangri í starfi. Breyttar áherslur – breytt skilgreining á árangri – og fjölgun akademískra starfa eru rétta leiðin í átt að heilbrigðara háskólasamfélagi.
Starfsumhverfi stúdenta þarf einnig að bæta og tryggja þeim örugga framfærslu í námi. Það er full vinna að vera í námi og við verðum að virða þá staðreynd. Ég vil að stúdentar á Íslandi hafi efni á því einbeita sér að náminu og mun standa með þeim í baráttu sinni fyrir því enda eru hagsmunir stúdenta jafnframt hagsmunir háskólans.
Skólinn þarf áfram að flétta sjálfbærni inn í allt sitt starf og vera virkur þátttakandi í umhverfisvernd og viðbragði gegn loftslagsbreytingum. Þarna er þverfræðilegt samstarf enn og aftur lykilatriði – náttúrunni er alveg sama hvaðan gott kemur og þekkir ekkert til deildarmúra frekar en annarra landamæra. Því er brýnt að háskólinn auðveldi þekkingarsköpun þvert á fræðasvið.
Þverfræðilegt samstarf er mikilvæg forsenda nýsköpunar sem er lykilþáttur í starfi Háskóla Íslands. Nýsköpun tengir saman fræði og framkvæmd, styrkir samstarf milli akademíu og atvinnulífs og skapar vettvang til að þróa lausnir við áskorunum samtíma og framtíðar. Fyrir íslenskt samfélag er nýsköpun forsenda samkeppnishæfni, sjálfbærrar þróunar og aukinna lífsgæða – og þar gegnir Háskóli Íslands lykilhlutverki.
Góðir áheyrendur, áfram þarf að leggja áherslu á jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu. Samfélag sem tileinkar sér þau gildi leiðir af sér ríkari þekkingu, meiri sköpun og jákvæðari samskipti. Ég vil skapa starfs- og námsumhverfi þar sem hlúð er sérstaklega að þeim hópum sem standa höllum fæti, hlustað á raddir þeirra og tryggt að öll fái jafnan aðgang að samfélagi Háskóla Íslands. Það mun gera háskólann okkar enn betri og samfélagið allt sterkara. Háskóli sem ekki stendur opinn öllum sem þangað leita er eins og fræðimaður sem ekki er opinn fyrir nýjum hugmyndum.
Í því samhengi er vert að geta þess að frá og með morgundeginum gegna konur rektorsstöðum allra íslensku háskólanna. Það er sjálfsagt ekki mitt að greina eða meta þann sögulega áfanga, en ég fæ ekki varist því, á yfirstandandi kvennaári þegar við fögnum svo mörgum tímamótum í jafnréttisbaráttunni, að rekja hann til Vigdísar Finnbogadóttur og þeirra tímamóta sem kjör hennar - fyrir 45 árum í gær – markaði. Kæra Vigdís, sú stund lifir í okkur enn. Sjálf var ég níu ára gömul stelpa í Ólafsfirði og fylgdist spennt með enda var kosningaskrifstofa rekin heima hjá mér! Breytingarnar sem hafa orðið á íslensku samfélagi síðan þá eru ekkert annað en stórkostlegar og ég verð að játa að ég hef gaman af því að eiga þátt í þessum áfanga í sögu íslenskra háskóla og jafnréttisbaráttunnar.
Ég er sannfærð um að samheldið háskólasamfélag er lykill að því að skapa skólanum enn bjartari framtíð. Framtíð sem felst í því að koma enn betur til móts við þá sem starfa og nema við skólann, framtíð sem skapar fleirum tækifæri til þess að sækja sér menntun sem auðgar íslenska menningu og atvinnulíf. Og ekki síst, framtíð sem tryggir starfsfólki skólans getu til að sinna störfum sínum, án þess að ganga á heilsu þess og líðan.
Þessi dægrin er það rætt á alþjóðavettvangi að við séum að glíma við straumhvörf á fjölda sviða í einu, þar sem heimsfaraldrar, stríðsátök, lýðræðisógnir og loftslagsvá herja á okkur nánast samtímis, í einni fjölþættri krísu. Á ensku heitir það polycrisis en á íslensku gætum við kallað þetta fjölbragðakreppu. Þetta vísar til þess að bæði stöndum við frammi fyrir mörgum risavöxnum vandamálum í einu og þau er ekki hægt að leysa í einangrun og þess vegna verðum við að hugsa og vinna saman þvert á svið og greinar.
Framtíðin krefst þess af okkur í háskólasamfélaginu, öðrum fremur, að við séum reiðubúin að þróast, læra og laga okkur að nýjum aðstæðum. Það er á okkar ábyrgð að tryggja að Háskóli Íslands verði áfram leiðandi afl í íslensku samfélagi. Það getum við meðal annars gert með því að halda áfram að setja íslensk orð utan um viðfangsefni samtímans, reisa með þeim nýja kastala.
Kæru gestir, ég hlakka til að leiða háskólasamfélagið á næstu árum. Ég þakka fyrir það traust sem mér er sýnt og mun leggja mig alla fram um að standa undir því.
