Skip to main content

Doktorsvörn: Sara Stefánsdóttir

Doktorsvörn: Sara Stefánsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
4. apríl 2025 10:00 til 12:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Sara Stefánsdóttir ver doktorsritgerð sína í fötlunarfræði við félagsfræði- mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Vörnin fer fram í hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 10:00 og er öllum opin.

Heiti ritgerðarinnar er Glíma seinfærra foreldra við kerfisbundnar hindranir út frá réttindamiðaðri nálgun / Parents with Intellectual Disabilities Negotiating Systemic Challenges through a Rights Based Approach.

Andmælendur eru dr. Annadís G. Rúdólfsdóttir, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands og dr. Susan Collings, vísindamaður við University of Western Sydney, í Ástralíu.

Leiðbeinendur eru dr. Hanna Björg Sigurjónsdóttir, prófessor við félagsfræði- mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands og James G. Rice, prófessor við félagsfræði- mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands.

Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. David McConnell, prófessor við University of Alberta í Kanada og dr. Marjorie Aunos, aðjúnkt við Brock University og University of Alberta í Kanada.

Vörnin fer fram á ensku.

Viðburðinum verður streymt á Teams:

Join the meeting now

Verið öll velkomin

 

Um verkefnið:

Áhersla á mannréttindi fatlaðs fólks hefur aukist á undanförnum árum og eru nú rúmlega átta ár liðin frá fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á Íslandi. Þrátt fyrir þessa þróun litast viðhorf til seinfærra foreldra enn í dag af hugmyndum fortíðar um mannbætur sem sjúkdómsvæða, stimpla og útiloka þá en seinfærir foreldrar og börn þeirra eru meðal jaðarsettustu fjölskyldna samfélagsins. Rannsóknir sýna að fái seinfærir foreldrar viðeigandi stuðning geta þeir alið upp og hugsað um börn sín. Samt sem áður standa þeir enn frammi fyrir ýmsum hindrunum. Þar á meðal neikvæðum viðhorfum og óviðeigandi stuðningi sem stuðlar að háu hlutfalli þeirra sem  missa forsjá barna sinna.

Rannsóknin Glíma seinfærra foreldra við kerfislægar hindranir út frá réttindamiðaðri nálgun varpar ljósi á hvernig seinfærum foreldrum á Íslandi vegnar í foreldrahlutverkinu með hliðsjón af stuðningskerfi og mannréttindum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna á gagnrýninn hátt hvort og hvernig seinfærum foreldrum á Íslandi er veittur stuðningur til að hugsa um börn sín í ljósi þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað varðandi réttindi fatlaðs fólks og mannréttindi. Henni var einnig ætlað að greina þær hindranir sem talsmenn og stuðningsfólk seinfærra foreldra mæta er þeir krefjast réttlátrar og sanngjarnar málsmeðferðar, sérstaklega þeirra sem tengjast barnaverndarkerfinu. Að lokum var markmið rannsóknarinnar að koma rödd seinfærra foreldra á framfæri til hagsbóta fyrir aðra foreldra og þá sem koma að þeirra málum.

Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á hvernig sú þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum áratugum á vettvangi mannréttinda er ekki fullnægjandi til þess að ryðja úr vegi samfélagslegum og kerfislægum hindrunum þegar kemur að seinfærum foreldrum. Einnig kom í ljós að þekkingarleysi á þörfum og réttindum þessara foreldra er til staðar á öllum stigum kerfisins.  Það gefur til kynna þörf fyrir heildstæða stefnu og vitundarvakningu innan þeirra kerfa sem þessir foreldrar eiga aðkomu að. Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi nálgunnar sem byggir á samvinnu og réttindamiðaðri nálgun til að tryggja réttláta meðferð og viðeigandi stuðning við seinfæra foreldra. Auk þess er mælt með að stjórnvöld standi að öflugu framtaki í málaflokknum til að bregðast við áðurnefndum hindrunum og að áhersla verði lögð á mikilvægi fjölþætts stuðnings, þar með talið formlegrar þjónustu, fjölskyldustuðnings, og réttindagæslu.

Um doktorsefnið:

Sara Stefánsdóttir (f. 1976) lauk bakkalárprófi í iðjuþjálfunarfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2001 og meistaraprófi í heilbrigðisvísindum frá sama skóla árið 2010. Sara starfaði um árabil sem iðjuþjálfi með fötluðum börnum og ungmennum en hefur lengst af starfað í Háskólanum á Akureyri við kennslu og rannsóknir við iðjuþjálfunarfræðideild. Áherslusvið hennar í kennslu og rannsóknum tengist fötlun og fjölskyldulífi, stuðningi og þjónustu heilbrigðis- og velferðarkerfisins.

Sara Stefánsdóttir ver doktorsritgerð sína í fötlunarfræði við félagsfræði- mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands.

Doktorsvörn: Sara Stefánsdóttir