Starfstengd leiðsögn og kennsluráðgjöf - Örnám


Starfstengd leiðsögn og kennsluráðgjöf
Örnám á framhaldsstigi – 30 einingar
Stutt 30 eininga nám þar sem komið er til móts við brýna þörf á sérstakri menntun fyrir kennara sem annast starfstengda leiðsögn í skólum.
Skipulag náms
- Haust
- Starfstengd leiðsögn – leiðsagnarhlutverkið
- Þróunarstarf í menntastofnunum
- Vor
- Leiðsögn og samvinna
Starfstengd leiðsögn – leiðsagnarhlutverkið (STM104F)
Námskeiðið er ætlað kennurum á öllum skólastigum og öðrum sem annast starfstengda leiðsögn á sviði uppeldis og menntunar. Námskeiðið er grunnnámskeið á námssviðinu/námsleiðinni Starfstengd leiðsögn á sviði uppeldis og menntunar en einnig er hægt að taka það sem stakt valnámskeið.
Tilgangur námskeiðisins er að nemendur öðlist þekkingu og skilning á starfstengdri leiðsögn, markmiðum með slíkri leiðsögn, leiðsagnarhlutverki kennara og leiðsagnaraðferðum, og geti beitt þekkingunni í starfi. Stefnt er að því að nemendur geti nýtt sér helstu kenningar um starfstengda leiðsögn og fræðileg hugtök til að ræða og skipuleggja eigið starf sem leiðsagnarkennarar. Áhersla er lögð á að nemendur verði meðvitaðir um hvernig starfstengd leiðsögn getur eflt faglega starfshæfni einstaklinga og hópa, m.a. nemenda í vettvangsnámi, nýliða í kennslu, reyndra kennara og annars fagfólks. Lögð er áhersla á hagnýta þjálfun í starfstengdri leiðsögn sem leið til aukinnar fagmennsku og hugað er að ábyrgð og samstarfi leiðsagnarkennara og þeirra sem njóta leiðsagnarinnar.
Þróunarstarf í menntastofnunum (STM110F)
Markmið þessa námskeiðs er að þátttakendur öðlist hagnýta og fræðilega þekkingu á einkennum þróunarstarfs og þáttum í menningu menntastofnana sem stuðla að umbótum eða hindra þær. Jafnframt öðlist þeir leikni í að skipuleggja og leiða þróunarstarf, starfsþróunartækifæri og móta þróunaráætlanir. Byggt er á kenningum um faglegt lærdómssamfélag sem gerir ráð fyrir að faglegt nám og þróun stofununar séu nátengd.
Í lok námskeiðsins eiga nemendur að:
- hafa skilning á helstu hugtökum og kenningum um þróun menntastofnana og skóla sem og frístundastofnana sem lærdómssamfélags,
- geta tekið faglegar ákvarðanir um leiðir í starfs og skólaþróun sem og þróun frístundastofnana og rökstutt þær,
- geta aflað fjölbreyttra gagna um þróunarstarf og metið gildi þeirra,
- geta beitt hugtökum, kenningum, líkönum og aðferðum á raunveruleg viðfangsefni,
- geta átt frumkvæði og haft forystu um rannsóknar- og þróunarverkefni í mennta- og frístundastofnunum til að efla fagmennsku,
- geta greint leiðir til að efla kennara og starfsfólk frístundastarfi í með þátttöku alls samfélagasins.
Námskeiðið er skipulagt í lotum með fjarnámssniði, staðlotur (skyldumæting er í fyrri staðlotu) eru tvær auk kynninga á lokaverkefnum. Þess á milli fer fram lestur fræðilegs efnis, verkefnavinna og samræður þátttakenda. Auk þess býðst nemendum að taka þátt í umræðutímum um viðfangsefnin. Verkefni námskeiðsins eru hagnýt og tengjast þróunarstarfi og leiðsögn við raunverulegar aðstæður. Lögð er áhersla á samræðu og samstarf nemenda samhliða sjálfstæði í vinnubrögðum og frumkvæði auk virkni í umræðum og lestri fræðilegs efnis.
Námsmat byggir á fjölbreyttum verkefnum sem ýmist eru unnin í samvinnu við aðra eða eru einstaklingsverkefni.
Leiðsögn og samvinna (STM215F)
Tilgangur námskeiðsins er að nemendur öðlist djúpan skilning á leiðsögn, samvinnu og faglegu samstarfi í skólastarfi með áherslu á starfsmenntun kennara og skólaþróun. Markmiðið er að nemendur geti beitt þessari þekkingu á gagnrýninn og markvissan hátt sem leiðsagnarkennarar, kennsluráðgjafar og leiðtogar í teymisvinnu og þverfaglegu samstarfi.
Námskeið er kennt í fjarnámi með tveimur staðbundnum lotum og þremur raflotum, og gert er ráð fyrir mætingu í þær. Fyrirlestrar, umræður, einstaklings- og hópverkefni.

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.

