Skip to main content

Doktorsvörn í iðnaðarverkfræði - Ásgeir Örn Sigurpálsson

Doktorsvörn í iðnaðarverkfræði - Ásgeir Örn Sigurpálsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
31. janúar 2025 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Doktorsefni:
Ásgeir Örn Sigurpálsson

Heiti ritgerðar:
Mynsturröðun: Hagnýt aðferð við röðun valkvæðra skurðaðgerða með tilliti til óvissu í skurðtímum, legulengd og komum hálfbráðra tilfella

Andmælendur:
Dr. Jaideep J Pandit, prófessor við Oxford háskóla á Englandi Dr. Michael O'Sullivan, dósent við Auckland háskóla á Nýja-Sjálandi

Leiðbeinendur:
Dr. Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, Háskóla Íslands
Dr. Tómas Philip Rúnarsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Edmund Kieran Burke, rektor við Bangor háskóla, Wales 

Doktorsvörn stýrir:
Dr. Rúnar Unnþórsson, prófessor og deildarforseti Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar HÍ  

Ágrip:
Hækkandi meðalaldur, aukinn umönnunarkostnaður og skortur á heilbrigðisstarfsfólki valda sífellt fleiri áskorunum í rekstri sjúkrahúsa. Því er eðlilegt að sjúkrahús hafi það að markmiði sínu að hámarka nýtingu auðlinda með því að ná fram sem mestu flæði sjúklinga og lágmarka biðtíma eftir veittri þjónustu. Það reynist þó þrautin þyngri því ýmsir óvissuþættir leiða oft til frestana og endurröðunar. Af þessum sökum hefur röðun skurðaðgerða fangað athygli rannsakenda og heilbrigðisstarfsmanna víða um heim. Tilgangur þessarar rannsóknar er að auka skilning okkar á því hvernig hámarka megi flæði sjúklinga í valaðgerðum í umhverfi þar sem auðlindir eru takmarkaðar. Samhliða því þarf að lágmarka tilfærslur á borð við frestanir og endurröðun. Markmiðið er að þróa stærðfræðileg líkön sem leysa verkefnið á hagnýtan en nákvæman hátt og taka tillit til óvissu af ýmsum toga sem leiðir til fyrrnefndra tilfærslna. Líkönin verða þróuð með þarfir almennra skurðlækninga á Landspítalanum í huga og verða niðurstöður þeirra bornar saman við raungögn. Helstu niðurstöður sýna fram á að með því að nota líkindaskorður í stærðfræðilegum líkönum megi á nákvæman hátt lágmarka frestanir með skömmum fyrirvara sem skapast af óvissu í skurðtímum og legulengd. Með notkun slíkra skorða eykst hins vegar reikniþungi verkefnanna með aukinni stærð. Því var þróuð aðferð sem kallast mynsturröðun, en með henni má koma í veg fyrir reiknifræðilegar áskoranir með því að tilgreina hagnýtar reglur. Frekari niðurstöður sýna fram á að með því að skilja 20% af heildarskurðtíma eftir auðan í hverri viku má lágmarka endurröðun, sem skapast af ófyrirsjáanlegum komum sjúklinga með háan forgang, en þó þannig að nýting auðlinda sé hámörkuð.

Um doktorsefnið:
Ásgeir Örn er fæddur árið 1990. Hann lauk B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2014 og M.Sc. gráðu í sömu grein árið 2017. Ásgeir hóf doktorsnám í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands sama ár. Samhliða doktorsnáminu hefur hann kennt nokkur námskeið við iðnaðarverkfræðideild háskólans en starfar nú sem sérfræðingur í áhættustýringu.

Doktorsefnið Ásgeir Örn Sigurpálsson

Doktorsvörn í iðnaðarverkfræði - Ásgeir Örn Sigurpálsson