Skip to main content

Doktorsvörn í almennri bókmenntafræði: Jonas Bokelmann

Doktorsvörn í almennri bókmenntafræði: Jonas Bokelmann - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
22. nóvember 2024 13:00 til 15:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasal

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 22. nóvember fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og Málvísinda- og bókmenntafræðideild Ludwig-Maximilians-Universität í München. Þá ver Jonas Bokelmann doktorsritgerð sína í almennri bókmenntafræði, Islandexil und Widerstand im nachgelassenen Spätwerk Albert Daudistels.

Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00. Athöfnin fer fram á þýsku. Einnig verður hægt að fylgjast með vörninni í streymi.

Andmælendur við vörnina verða Sabine Hake, prófessor við Háskólann í Texas, og Christoph Schaub, nýdoktor við Háskólann í Vechta.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Benedikts Hjartarsonar, prófessors í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, og Annegret Heitmann, prófessors í norrænum bókmenntum við Ludwig-Maximilians-Universität í München. Einnig voru í doktorsnefnd Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, og Sven Hanuschek, prófessor við Ludwig-Maximilians-Universität í München.

Gauti Kristmannsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Doktorsritgerðin fjallar um Íslandsútlegð Alberts Daudistel (1890–1955), rithöfundar sem gat sér nafn í byltingarsinnuðu og verkalýðstengdu bókmenntaumhverfi Berlínarborgar á þriðja og fjórða áratugnum en er að mestu gleymdur í dag. Þau sautján ár sem Daudistel dvaldi á Íslandi eftir að hafa flúið Þýskaland og fundið skammtímaathvarf í Tékkóslóvakíu og Danmörku hafa lítt verið rannsökuð hingað til og eru hér greind í fyrsta sinn. Fjallað er um lífskjör hans í Reykjavík á árunum 1938 til 1955, auk þess sem sjónum er beint að þeim bókmenntatextum sem hann skrifaði á þessu tímabili og fjalla um útlegð hans á Íslandi.

Með greiningu á þremur stuttum prósatextum frá fyrsta tímabili útlegðarinnar, sem og með túlkun óútgefnu skáldsögunnar Die Insel des fremden Königs, er tekist á við þá spurningu hvaða mynd Daudistel gerði sér af dvalarlandi sínu og eigin hlutverki þar sem útlagi. Einnig er spurt hvort og þá hvernig þessi ímynd breyttist á útlegðartíma hans og hvað lá þar að baki. Sögurnar eru lesnar sem bókmenntaverk sem urðu til við erfiðar þjóðfélagsaðstæður og tókust á við ólíkar og oft þversagnakenndar orðræður samtímans, auk þess sem hugað er að langvarandi og margbreytilegu umræðu um alþjóðasinnaðar bókmenntir.

Um höfundinn

Jonas Bokelmann lauk Magister-Artium-gráðu í almennri bókmenntafræði, norrænum bókmenntum og sagnfræði frá Ludwig-Maximilians-Universität (LMU) í München. Doktorsritgerð hans er lögð fram til sameiginlegrar gráðu frá LMU og Háskóla Íslands.

Jonas Bokelmann.

Doktorsvörn í almennri bókmenntafræði: Jonas Bokelmann