Skip to main content
2. júlí 2024

Námið gaf mér mjög góðan grunn og þekkingu á sviðinu sem ég starfa á núna

Námið gaf mér mjög góðan grunn og þekkingu á sviðinu sem ég starfa á núna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ég heiti Sóley Mist Albertsdóttir og ég lærði viðskiptafræði með markaðsfræði sem kjörsvið. Í dag starfa ég í markaðsdeildinni hjá Artasan.

Hvenær fékkstu vinnuna? 

Ég fékk vinnuna sirka viku eftir að ég tók seinasta lokaprófið mitt í háskólanum eða um miðjan maí. Þetta var að öllum líkindum auglýst staða en ég frétti af henni í gegnum tengilið.

Hvernig finnst þér námið hafa hjálpað þér í starfi?

Mér finnst námið hafa gefið mér mjög góðan grunn og þekkingu á sviðinu sem ég starfa á núna en áfangarnir voru margir og fjölbreyttir og komu margir inn á gagnlegt efni.

Ég fór líka í starfsnám hjá CCP í gegnum námið sem hefur gagnast mér mjög vel en þar fékk ég góða tilfinningu fyrir hvernig námið nýttist mér í raunheiminum og það gaf mér líka mjög dýrmæta reynslu sem ég næ að nýta í núverandi starfi.

Hvað var skemmtilegast í náminu?

Mér finnst virkilega gaman að læra um eitthvað nýtt og  eitt af því skemmtilegasta var þegar ég lærði um hluti sem ég hafði aldrei heyrt um áður. Mér fannst markaðsfræði áfangarnir sem ég tók sérstaklega skemmtilegir. Þeir komu alltaf inn á eitthvað sem greip áhuga minn það mikið að ég hugsa um það enn í dag.

Tókstu virkan þátt í félagslífinu?

Ég var mjög virk í félagslífi skólans fyrsta árið mitt. Ég mætti á nánast allar vísindaferðir og viðburði og það var ekkert smá gaman og maður hitti fullt af skemmtilegu fólki. En ég er samt mikill introvert þannig ég byrjaði að bakka smá út úr skipulögðu félagslífi skólans og var meira að sinna eigin áhugamálum.

Kynntistu mikið af fólki á meðan þú varst í náminu?

Já ég kynntist alveg mörgum í náminu, bæði í gegnum félagslífið og í gegnum hópaverkefnin sem eru í flestum áföngum.

Fórstu í námið beint eftir menntaskóla? 

Nei, ég fór í fjarnám í lögfræði hjá HA strax eftir menntaskóla en fann fljótt að það var ekki fyrir mig svo ég tók mér smá pásu til að vinna. Þá komst ég að því að ég hef mikinn áhuga á markaðsfræði og ákvað því að skella mér í þetta nám.

Fórstu í skiptinám?

Nei, en mér fannst það vera mjög heillandi og íhugaði það oftar en einu sinni.

Hyggur þú á framhaldsnám í framtíðinni?

Framtíðin er frekar óskrifuð hjá mér í augnablikinu. Ég held að ég taki næstu árin til þess að vinna og safna reynslu og hef ekki ákveðið neitt lengra en það.