Skip to main content
30. júní 2024

Halda til sumarnáms í Stanford

Halda til sumarnáms í Stanford - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fjórir nemendur Háskóla Íslands verða í sumar við nám í Stanford-háskóla í Kaliforníu í svonefndu Stanford Summer International Honors Program (SSIHP). Sumarnámið stendur yfir í átta vikur og gerir nemendum kleift að kynnast einstöku háskóla- og vísindasamfélagi en þau eiga auk þess möguleika á að fá námið metið inn í námsferil sinn við HÍ. 

Nemendurnir fjórir sem halda til Stanford eru þau Aðalheiður Lind Björnsdóttir, nemi í sálfræði, Benedikt Tómas Guðmundsson, nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði, Óðinn Andrason, nemi í vélaverkfræði, og Sonja Oliversdóttir, nemi í hagfræði. Þess má geta að Óðinn fetar í fótspor þriggja eldri systra sem allar hafa stundað sumarnám við Stanford-háskóla. 

Sumarnámið er afar fjölbreytt og verður m.a. boðið upp á fyrirlestra um nýsköpun og frumkvöðlafræði og farið í skipulagða ferð í Kísildalinn sem er í næsta nágrenni við háskólann. 

Sjö nemendur fóru utan til sumarnáms við Stanford í fyrra, Agatha Elín Steinþórsdóttir, nemi í lífefna- og sameindalíffræði, Ásgerður Erla Haraldsdóttir, nemi í sálfræði, Daðey Ásta Hálfdánsdóttir, nemi í efnaverkfræði, Iðunn Andradóttir, nemi í læknisfræði, Kristján Dagur Egilsson, nemi í hagnýtri stærðfræði, Ómar Ingi Halldórsson, nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði, og Urður Andradóttir, nemi í læknisfræði. Daðey segi dvölina þar hafa verið það eftirminnilegasta úr háskólagöngu sinni. 

Daðey Ásta Hálfdánsdóttir, sem brautskráðist með BS-gráðu í efnaverkfræði nú í júní, tók þátt í sumarnáminu við Stanford síðasta sumar. Hún segir dvölina í Stanford hafa verið það eftirminnilegasta úr háskólagöngu sinni. „Stanford er einn virtasti skóli Bandaríkjanna og kampusinn býður upp á frábæra aðstöðu og akademískt umhverfi þar sem allir hafa mikla ástríðu fyrir náminu. Það sem stóð upp úr var að kynnast fólki hvaðanæva úr heiminu og jafnvel stöðum sem ég hafði ekki heyrt um áður! Ég mun alla tíð búa að þessari reynslu og þeim minningum og vinum sem ég eignaðist þetta sumar.“

Stanford og Háskóli Íslands undirrituðu samning um sumarnámið árið 2010 og síðan þá hefur stór hópur nemenda nýtt sér þetta einstaka tækifæri til að stunda nám við einn fremsta háskóla heims.

Benedikt Tómas Guðmundsson, Aðalheiður Lind Björnsdóttir og Sonja Oliversdóttir eru her ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rector hÍ, og Magnúsi Gunnlaugi Þórarinssyni, verkefnisstjóra á Alþjóðasviði HÍ. Á myndina vantar Óðin Andrason.