Skip to main content

Doktorsvörn í almennri bókmenntafræði: Atli Antonsson

Doktorsvörn í almennri bókmenntafræði: Atli Antonsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
24. júní 2024 13:00 til 15:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Mánudaginn 24. júní fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Atli Antonsson doktorsritgerð sína í almennri bókmenntafræði, Kvika þjóðarinnar. Þættir úr menningarsögu íslenskra eldgosa frá átjándu öld til okkar daga.

Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

Andmælendur við vörnina verða Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, og Simon Halink, sérfræðingur í menningarsögu við Fryske Academy í Hollandi.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Guðna Elíssonar, prófessors í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, og Sumarliði R. Ísleifsson, dósent í hagnýtri menningarmiðlun  við Háskóla Íslands.

Gauti Kristmannsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Í doktorsritgerðinni var reynt að svara eftirfarandi rannsóknarspurningu: Hvernig hefur nábýli Íslendinga við eldfjöll mótað sjálfsmynd þeirra og hugmyndir um þjóðerni og sögu síðustu 250 árin? Markmið Atla var að finna svar við rannsóknarspurningunni með því að greina frásagnir af eldgosum frá 18. öld til nútímans. Leitað var svara í lýsingum og frásögnum af eldgosum og eldfjöllum sem finna má í skáldsögum, ljóðum, sjálfsævisögum og svokölluðum eldritum frá þessu tímabili. Afrakstur rannsóknarinnar voru fjórar greinar sem hafa komið út í ritrýndum fræðitímaritum og einn kafli að auki. Í þeim er rannsóknarspurningunni svarað úr ólíkum áttum og meðal annars fjallað um guðfræði og fagurfræði eldgosa, eldfjöll í ættjarðarljóðum þjóðskálda, viðtökusögu eldklerksins Jóns Steingrímssonar, eldgos í skáldsögum og eldrit á mannöld.

Um doktorsefnið

Atli Antonsson er með BA-próf í almennri bókmenntafræði með heimspeki sem aukagrein frá Háskóla Íslands og MA-próf í evrópskum bókmenntum frá Humboldt háskóla í Berlín.

Atli Antonsson.

Doktorsvörn í almennri bókmenntafræði: Atli Antonsson