Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 2. maí 2024

5/2024

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2024, fimmtudaginn 2. maí var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Arnar Þór Másson, Brynhildur K. Ásgeirsdóttir, Davíð Þorláksson, Hólmfríður Garðarsdóttir (á fjarfundi), Katrín Atladóttir (á fjarfundi), Ólafur Pétur Pálsson, Silja Bára Ómarsdóttir, Vilborg Einarsdóttir (á fjarfundi) og Þorvaldur Ingvarsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson. Katrín Björk Kristjánsdóttir boðaði forföll.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt, undirrituð rafrænt og birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og óskaði Brynhildur eftir því að leggja fram bókun og var það samþykkt. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og kvaðst Brynhildur ekki taka þátt í afgreiðslu liðar 7a. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn kom Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2025-2029.
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Fram kom að afgreiðslu málsins er ekki lokið á Alþingi. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

b.    Drög að ársreikningi Háskóla Íslands 2023.
Fyrir fundinum lágu drög að ársreikningi Háskóla Íslands fyrir árið 2023. Jenný Bára gerði grein fyrir málinu og Ólafur Pétur Pálsson, formaður endurskoðunarnefndar, reifaði afstöðu nefndarinnar. Fram kom að endurskoðunarnefnd gerir ekki athugasemdir við framlögð drög að ársreikningi. Málið var rætt.
– Samþykkt að fela rektor að ganga frá og undirrita ársreikning Háskóla Íslands fyrir árið 2023 fyrir hönd Háskóla Íslands.

Jenný Bára vék af fundi.

c.    Vatnstjón í janúar 2021. Staða mála.
Inn á fundinn komu Stefán Andrew Svensson, lögmaður, Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og Magnús Jökull Sigurjónsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors. Stefán gerði grein fyrir niðurstöðu yfirmatsmanna á afleiðingum og ábyrgð á vatnstjóni sem varð í byggingum Háskóla Íslands 2021. Þá reifaði Stefán drög að stefnu Háskóla Íslands gegn ábyrgðaraðilum tjónsins. Málið var rætt og svöruðu Stefán og Kristinn spurningum.

Stefán, Kristinn og Magnús viku af fundi.

3.    Niðurstöður háskólaþings 17. apríl sl.
Rektor reifaði niðurstöður 33. háskólaþings sem haldið var 17. apríl sl. Á þinginu voru m.a. kjörnir þrír fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráð og varamenn þeirra fyrir tímabilið 1.7.2024-30.6.2026. Aðalfulltrúar verða Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild á Félagsvísindasviði, Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, og Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor við Mála- og menningardeild á Hugvísindasviði. Ragný Þóra Guðjohnsen, lektor við Deild menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði, verður varamaður Silju Báru, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, prófessor við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði, verður varamaður Ólafs Péturs og Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor við Lagadeild á Félagsvísindasviði, verður varamaður Hólmfríðar.

4.    Um útreikning á tímafjölda að baki námskeiða og mögulega samræmingu, sbr. fund ráðsins 1. febrúar sl. Staða mála.
Ólafur Pétur gerði grein fyrir stöðu vinnu starfshóps um útreikning á tímafjölda að baki námskeiða og mögulega samræmingu, sbr. fund ráðsins 1. febrúar sl. Ráðgert er að starfshópurinn skili tillögu að niðurstöðu á fundi háskólaráðs í júní nk. Málið var rætt og svaraði Ólafur Pétur spurningum.

Davíð vék af fundi.

Kaffihlé.

5.    Fýsileiki aukins samstarfs eða sameiningar Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum. Staða mála, sbr. fund ráðsins 1. febrúar sl.
Inn á fundinn komu Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og Sæunn Stefánsdóttir, þróunarstjóri. Gerði rektor ásamt gestum fundarins grein fyrir stöðu mála og næstu skrefum varðandi viðræður fulltrúa Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum um mögulega háskólasamstæðu, eftir atvikum með þátttöku fleiri háskóla og rannsóknastofnana. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma að unnið verði áfram að málinu á grunni fyrirliggjandi hugmynda um háskólasamstæðu undir merkjum Háskóla Íslands.

Ingibjörg, Halldór og Sæunn viku af fundi.

6.    Sala eigna Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 1. júní sl.
Rektor og Þórður gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi áformaða sölu tveggja eigna Háskóla Íslands sem heimild hefur fengist fyrir í fjárlögum. Ráðgert er að söluandvirðið nýtist í þágu rannsókna og kennslu við Háskólann.

7.    Önnur mál.

7.1.    Bókun fulltrúa stúdenta um málefni Palestínu.
Brynhildur K. Ásgeirsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun:

„Fulltrúar stúdenta vilja vekja athygli á vel sóttum viðburðum sem Háskólafólk fyrir Palestínu hefur staðið fyrir: lautarferð fyrir Palestínu sem haldin var í gær, þann 1. maí og tjaldmótmæli viku fyrr. Fulltrúar stúdenta vísa í yfirlýsingu Stúdentaráðs sem ekki hefur verið lögð fyrir háskólaráð, þar sem þess er krafist að Háskólinn bregðist við stríðsglæpum Ísraelsríkis með sama hætti og hann gerði gegn Rússlandi árið 2022. Þá var stofnaður starfshópur um viðbrögð háskólans, opinberlega lýst yfir samstöðu með nemendum, starfsfólki og öllum íbúum Úkraínu og allt samstarf sett á ís.

Fulltrúar stúdenta óska eftir að kröfur sem skólinn hefur fengið afhentar frá Stúdentaráði annars vegar og stúdentafylkingu Háskólafólks fyrir Palestínu hins vegar, verði kynntar fyrir háskólaráði.

Fulltrúar stúdenta spyrja hvort Háskólinn ætli að bregðast við kröfunum, hvort Háskólinn ætli að fylgja eigin fordæmi og slíta samstarfi við Ísraelska háskóla og stofnanir, og hvenær Háskólinn hyggist taka afstöðu í málinu?

Fyrir hönd fulltrúa stúdenta,
Brynhildur Kristín Ásgeirsdóttir“

Rektor brást við og lagði áherslu á að stríðsátökin fyrir botni Miðjarðarhafs séu harmleikur sem mikilvægt er að ljúki sem allra fyrst. Hins vegar væri ekki rétt að Háskóli Íslands sem stofnun taki afstöðu til málsins. Á hinn bóginn sé nemendum og starfsfólki frjálst að tjá skoðun sína. Rektor nefndi að hann hafi ítrekað þessi sjónarmið í samtölum við fulltrúa Stúdentaráðs og hafi fundað sérstaklega með þeim sem héldu viðburðinn 1. maí. Samanburðurinn við innrás Rússlands í Úkraínu, sem vísað er til í bókun fulltrúa nemenda, á að mati rektors ekki við þar sem ólíku er saman að jafna. Í því tilviki studdu rektorar rússneskra háskóla innrásina og af þeirri ástæðu stóðu Samtök evrópskra háskóla (EUA) saman að því að hætta tímabundið samstarfi við rússneska háskóla. Háskóli Íslands er ekki með neina samstarfssamninga við ísraelska háskóla, en einstökum fræðimönnum er frjálst að vinna með kollegum sínum hvar í heimi sem er samkvæmt þeirra eigin mati.

8.    Bókfærð mál.
a.    Frá Menntavísindasviði: Tillaga að breytingu á reglum um doktorsnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands nr. 440/2018.

– Samþykkt. Brynhildur tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

b.    Frá Hugvísindasviði: Tillaga að breytingu á 113. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 er varðar inntökupróf í íslensku sem annað mál.
– Samþykkt.

9. Mál til fróðleiks.
a.    Inngangur rektors á háskólaþingi 17. apríl sl.
b.    Upplýsingafundur rektors 24. apríl 2024.
c.    Ársreikningur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. fyrir árið 2023.
d.    Oculis skráð í íslensku kauphöllinni.
e.    Aðalfundur Sprota – eignarhaldsfélags Háskóla Íslands ehf. þriðjudaginn 21. maí nk.
f.    Kjörinn í bandarísku lista- og vísindaakademíuna.
g.    Úthlutun úr Kennslumálasjóði 2024.
h.    Fréttabréf Háskólavina 30. apríl 2024.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.35.