Minkurinn greiddi æðarfuglinum mikið högg
„Það ættu náttúrulega allir sem vilja eða eru að hugleiða að flytja ágengar tegundir til Íslands að lesa þessa grein og sjá með eigin augum hvílík reginmistök það voru að flytja minkinn hingað. Það var hrikalegt að hlusta ekki á viðvaranir þess tíma frá yfirdýralækni, Finni Guðmundssyni fuglafræðingi og mörgum fleirum.“
Þetta segir Jón Einar Jónsson, vísindamaður og forstöðumaður rannsóknaseturs HÍ á Snæfellsnesi. Hér er hann að vísa til vísindagreinar sem hann skrifaði nýverið ásamt samstarfsfólki sínu um breytingar í lífríki á Breiðafjarðareyjum eftir að minkurinn gerði sig þar heimakominn.
Horft er sérstaklega til afkomu hjá æðarfugli (Somateria mollissima) sem hefur verið mikilvægur bændum við Breiðafjörð öldum saman. Grein Jóns Einars og félaga var birt í hinu virta tímariti Ecology Letters.
Rannsóknin byggist á gögnum sem ná meira en heila öld aftur í tímann. Gagnasett sem ná yfir áratugi eru þýðingarmikil þegar rannsakaðar eru breytingar á lífríki, t.d. við að meta áhrif af loftslagsbreytingum, en í þessu tilviki hjálpa þau við að greina áhrif rándýra á æðarvarp.
„Við lásum mörg gömul blaðaviðtöl við bændurna hérna sem lýstu afleiðingunum frá fyrstu hendi. Við komumst líka í dagbækur auk þess sem fólk rifjaði upp sögur og ártöl og fleira sem lýsti því hvernig þessar breytingar riðu yfir. Það er algerlega einstakt að byggja svona rannsókn á þessum efniviði,“ segir Jón Einar.
Sum vörpin þurrkuðust hreinlega út
Í greininni sjást breytingar í æðarvarpinu í Brokey á Breiðafirði, einu þekktasta æðarvarpi landsins undanfarin 122 ár. Þar má sjá þau skaðlegu áhrif sem urðu með komu minksins, bæði hvað hreiðrunum fækkaði mikið og hvernig minkurinn breytti dreifingu þeirra fugla sem eftir voru.
„Við höfum annað æðarvarp til hliðsjónar í Purkey, sem er einungis fjóra kílómetra norðvestur af Brokey, þar sem staðhættir eru öðruvísi. Þar sjáum við hvað það er mikilvægt að fuglarnir eigi sér athvarf frá rándýrum. Rándýrin eiga erfitt með að komast að vissum eyjum eins og til syðstu eyjanna í Purkey vegna fjarlægðar frá landi og öðrum eyjum og sjávarfallastrauma.“
Jón Einar segir að rannsóknin sýni líka breytingar á löngum tíma en vissar eyjar séu sterkar með þétt varp í kannski áratug eða tvo en þurrkist svo hreinlega út.
„Þetta getur stafað af svo mörgu sem við höfðum ekki gögn um, t.d. samspili við varp máva, sem bæði tófa og minkur geta þurrkað út. Þegar mávurinn hverfur er vörnin gegn t.d. hrafni og erni horfin en æðarfuglinn verpir stundum nálægt varpi máva þótt þeir séu líka afræningjar og taki bæði egg og unga. Menn hér við Breiðafjörð hafa séð þessa hluti og sagt manni frá.“
Jón Einar segir að tófan þrengi að í stóru eyjunum meðan hún sé til staðar og þá sé klassísk aðlögun æðarfuglanna að verpa í smærri eyjunum yst eða fjærst landi.
„En minkurinn eyðileggur það því hann er strand- og hafrænn í háttalagi, syndur sem selur.“
Miðað við þetta virðist fátt um varnir gegn minknum og þess sjást merki í miklum breytingum í varpi æðarfuglsins.
Þótt blikinn sitji gjarnan við varpið í fyrstu þá sinnir hann ekki ungunum neitt og yfirgefa flestir varpið fyrr en síðar og safnast þá saman í stórum breiðum nærri fjörunni og fella fjaðrirnar. Þótt blikarnir láti sér lynda hver við annan á sumrin og haustin þá er það nú alls ekki þannig í aðdraganda varpsins þegar hver og einn ver eigin kollu fyrir ágangi annarra blika. Þá er gjarnan mikill vængjasláttur í sjávarborðinu með talsverðum gusugangi þegar blikana greinir á um hvaða kolla tilheyri hverjum. MYND/Daníel Bergmann
Einn algengasti fuglinn í náttúru Íslands
Æðarfugl er einn sá útbreiddasti í fánu Íslands og sá fugl sem er langsýnilegastur við strendur landsins. Hann er enda langalgengasta öndin hérlendis og líklega er heildarfjöldi fugla tæplega ein milljón að hausti þegar ungar eru stálpaðir og fylgja eldri fuglunum.
Jón Einar segir að æðarkollurnar verpi ýmist við flæðarmálið eða uppi á hólum og hæðum í eyjunum og hið síðarnefnda sé besta vörnin gegn minknum, sem sé einmitt mikið í flæðarmálinu.
Kvenfuglinn, kollan, er brúnn og fellur vel inn í umhverfið á varptímanum á meðan karlfuglinn, blikinn, er hvítur og svartur og mjög áberandi. Kollan liggur ein á eggjum og ræður þar felubúingurinn miklu.
Þótt blikinn sitji gjarnan við varpið í fyrstu þá sinnir hann ekki ungunum neitt og yfirgefa flestir varpið fyrr en síðar og safnast þá saman í stórum breiðum nærri fjörunni og fella fjaðrirnar. Þótt blikarnir láti sér lynda hver við annan á sumrin og haustin þá er það nú alls ekki þannig í aðdraganda varpsins þegar hver og einn ver eigin kollu fyrir ágangi annarra blika. Þá er gjarnan mikill vængjasláttur í sjávarborðinu með talsverðum gusugangi þegar blikana greinir á um hvaða kolla tilheyri hverjum.
Afræningjar fylgja engum lögum um friðun
Æðarfuglinn hefur verið friðaður í bráðum tvö hundruð ár. Ástæðan felst í öllum þeim nytjum sem maðurinn hefur af fuglinum því æðardúnn hefur verið nýttur hérlendis og víðar öldum saman.
„Breiðfirðingar hirða dúninn en leggja ekki í flögg eða aðrar varnir enda er varpið á Breiðafirði dreift um eyjarnar en ekki hnappdreift á afmörkuð svæði eins og í mörgum landvörpum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Sömu sögu er að segja af æðarvarpinu á Rifi á Snæfellsnesi,“ segir Jón Einar.
Æðarfuglinn er eiginlega eini fuglinn sem er villtur og hefur samt gagn af sambýli við manninn sem slær gjarnan um hann skjaldborg til að vernda hann fyrir afræningjum. Þeir eru helstir refur og minkur auk hrafns, skúms, kjóa og ýmissa máv- og ránfugla. Haförninn var lengi talinn mikill afrængi og líklega hefur hann fengið að kenna á félagi sem var sérstaklega stofnað til að eyða óvinum æðarfuglsins en það var gjarnan kallað „Vargafélagið.“ Sem betur fer fyrir íslenskt lífríki var haferninum ekki útrýmt en hann hefur verið að sækja í sig veðrið síðustu hundrað árin, en reyndar afar hægt. Örninn var reyndar hársbreidd frá útrýmingu af völdum manna við upphaf síðustu aldar og réð þar miklu að þótt hann hafi verið friðaður snemma á síðustu öld þá var eitrað fyrir tófu og örninn sótti ekki síður í hræin en refurinn. Leiða má líkum að því að miklu fleiri fuglategundir hafi orðið fyrir barðinu á eitrinu eins og ýmsir mávfuglar og hrafninn.
Örninn var ekki friðaður hérlendis fyrr en árið 1914 þegar í mikið óefni stefndi. Þótt æðardúntekja hafi byrjað hér á sautjándu öld þá var æðarfuglinn ekki friðaður fyrr en árið 1847, fyrstur íslenskra fugla.
Jón Einar segir að æðarfugli hafi fækkað alls staðar á útbreiðslusvæði sínu á þessari öld. Þetta eigi við um Norðurlöndin, Skotland og Norður-Ameríku. „Við sjáum það í Brokeyjargögnunum að í svalara veðurfari frá 1900 til 1930 var blómatími varpsins í Brokey á 20. öld. Þetta er sennilega vegna þess að sjávardýrin sem hann lifir á dafna síður þegar hitastig sjávar hækkar.“
Aðrir höfundar vísindagreinarinnar með Jóni Einari eru Árni Ásgeirsson, Florian Ruland, Fiona Rickowski og Jonathan Jeske. Árni er samstarfsmaður Jóns Einars á Snæfellsnesi en hin þrjú síðastnefndu starfa við Freie Universität í Berlín í Þýskalandi.
Gögnin sem stuðst var í rannsókninni var safnað af heimafólki í Brokey og Purkey og voru aðgengileg fyrir tilstilli Páls Hjaltalín, Bergs Hjaltalín og Ástu Ásmundsdóttur í Brokey og Jóns Helga Jónssonar í Purkey. Þá var stuðst við viðtöl og blaðagreinar, sem og dagbækur og samtöl til að gera tímalínur í tengslum við tófu og mink í Brokey og Purkey. Að sögn Jóns Einars var einnig stuðst við eldri rannsóknir Þorvaldar Björnssonar og Páls Hersteinssonar en sá síðarnefndi var prófessor við Háskóla Íslands.