Skip to main content
1. nóvember 2023

Flundran fjölgar sér hratt í íslensku lífríki

Flundran fjölgar sér hratt í íslensku lífríki - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þótt fjöldi dýrategunda í hafinu geti synt eða borist miklar vegalengdir er útbreiðsla nýrra tegunda í hafinu að mestu leyti af manna völdum að því að talið er. Flestar tegundir eru taldar berast milli svæða með kjölvatni skipa sem er þá losað inni á svæðum fjarri þeim stöðum þar sem það var upprunalega tekið. Í kjölvatninu eru þá gjarnan hrogn, lirfur og smáseiði framandi tegunda sem ná svo að festa sig í sessi á nýjum slóðum. Talið er að þúsundir framandi tegunda fái ný heimkynni með þessum hætti á hverju einasta ári. Það þarf þó ekki að vera þannig með þá tegund sem hér er til umfjöllunar, evrópsku flundruna (Platichthys flesus), því hvort tveggja hrogn og smáseiði tegundarinnar eru sviflæg og geta hugsanlega borist langt með hafstraumum.

Viðkvæmt lífríki við Íslands stendur 

Lífríki sjávar við Ísland er afar viðkvæmt fyrir breytingum og ekki er vitað hvaða áhrif nýjar ágengar tegundir hafa á náttúrulegt jafnvægi. Grjótkrabbi er t.d. ein af þeim tegundum sem hefur tekið sér bólfestu við Íslandsstrendur á ótrúlega fáum árum og hefur honum fjölgað gríðarlega – tegund sem er amerísk að uppruna og var ekki til í íslensku vistkerfi fyrir fáeinum árum. Evrópska flundran hefur einnig náð ótrúlegum árangri í íslensku lífríki á undraskömmum tíma. Miðað við dreifingu flundrunnar er ljóst að hún er fyrir löngu farin að hrygna í íslensku vistkerfi. 

Theresa Henke er í hópi fjölmargra erlendra vísindamanna við HÍ. Þáttur þeirra í rannsóknum er mjög brýn varða á þeirri vegferð HÍ að verða alþjóðlega öflugur rannsóknaháskóli. Á sama tíma gera erlendir straumar Háskólann að fjölbreyttara samfélagi nemenda og starfsfólks. Þetta er allt í anda heildarstefnu skólans, HÍ26. 

Henke er líka í hópi ungra vísindamanna sem rannsaka nýjar tegundir í lífríki vatns hérlendis en hún beinir sjónum sínum að flundrunni í doktorsrannsókn sinni eftir að hafa rannsakað þennan sama flatfisk í meistaraverkefninu sínu. Þessi tegund er nú skilgreind sem hugsanlega ágeng því á röskum tveimur áratugum hefur hún dreift sér nánast umhverfis allt landið. Þótt flundran hafi fyrst sést við suðvesturströndina um síðustu aldamót er hún nú komin í ósa og ár á Hornströndum en sá sem hér lemur lyklana hefur ítrekað séð hana lengst uppi í ám í friðlandinu. 

Hagnýtir þekkingu almennings og virkjar hann í rannsókninni

Varðandi útlit þá líkist flundran einna helst sand- eða skarkola og er gjarnan frá 30-40 sentímetrum að lengd. Ef einhver lesandi er að huga að mögulegri nýtingu þá er flundra ágætur og vinsæll matfiskur. 

„Frá fyrstu athugun á Suðvesturlandi árið 1999 hefur flundran fest sig í sessi víðast hvar á Íslandi þar sem hún er algengust við árósa en gengur einnig í ár og vötn samhliða staðbundnum laxfiskategundum eins og Atlantshafslaxi, urriða og bleikju,“ segir Theresa Henke sem hefur stundað rannsóknir sínar frá Rannsóknasetri Háskóla Íslands í Bolungarvík. Þar hafa verið stundaðar markvissar rannsóknir á fjölbreyttu lífríki hafsins undir stjórn Guðbjargar Ástu Ólafsdóttur líffræðings og ekki síst á nytjastofnum Íslendinga sem eru uppistaðan í fiskveiðum, vinnslu og sölu sjávarfangs. Guðbjörg Ásta er einmitt aðalleiðbeinandi Henke í þessu verkefni. 

Eins og ráða má af framansögðu liggur áhugi Henke einna mest á meiði vísinda sem hafa það að meginmarkmiði að rannsaka innrás framandi tegunda í skilgreind vistkerfi. Hún hefur líka áhuga á að kanna hvernig unnt sé að koma upplýsingum og þekkingu á líffræðilegum innrásum af þessum toga til almennings og fengið hann til að takast á við þá miklu áskorun að kom stjórn á þessum vistfræðilegu breytingum. 

Henke fer þess vegna nokkuð nýja leið í þessari rannsókn því hún hagnýtir hreint og beint þekkingu almennings á viðfangsefninu og dregur fram það sama hjá hagsmunahópum. Hluti af rannsókninni snýst t.d. um viðtöl við veiðimenn sem hafa oft komist í návígi við flundru við ólíkar aðstæður. 

„Þegar ég var að vinna meistararitgerðina mína, sem var líka um flundruna, þá hitti ég fullt af fólki, sérstaklega veiðimenn, sem sýndu þessu viðfagnsefni ekki bara mikinn áhuga heldur höfðu einnig talsverða þekkingu á þessu efni. Þessi samskipti við fólk veittu mér innblástur við að halda áfram þessum rannsóknum í doktorsverkefninu og þá til þess að bæta skilning okkar á tegund sem á ekki uppruna sinn í hafinu hér.“

Með þessu má fullyrða að Henke sé einmitt að rækja skyldur Háskólans við íslenskt samfélag samkvæmt stefnu hans HÍ26 þar sem sérstaklega er tiltekið að HÍ leiði upplýsta umræðu og verði aflvaki í jákvæðri þróun. Í verkefni Henke er almenningur nefnilega hreinlega hvattur til að hafa áhrif á ferli sem tengjast innrás framandi tegunda í vistkerfi vatns hér. 

„Nýlegar alþjóðlega úttektir undirstrika alþjóðlega ógn líffræðilegra innrása og mikilvægi þess að rannsaka þær og ná stjórn á þeim. Þessi rannsókn tengist einnig nokkrum markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun en þó sérstaklega markmiðum 14 og 15, þar sem líffræðilegar innrásir eru ógn við líffræðilegan fjölbreytileika bæði í vatni og á landi,“ segir Theresa.

Lítt rannsökuð tegund í íslensku lífríki

Henke segir að þegar hún beindi fyrst sjónum sínum að flundrunni hafi strax blasað við henni hversu takmarkaðar rannsóknir hafi farið fram á tegund sem þó beri þess merki að dreifa sér með miklum hraða í íslensku lífríki.

Flundran er botnfiskur og heldur sig til frá fjöruborði og niður á um hundrað metra dýpi en hún gengur líka upp í ár og vötn eins og áður sagði. Varla er hægt að segja að flundrunni sé fagnað af mikilli ákefð í ám og vötnum því rannsóknir sýna að hún taki þar bæði laxa- og silungsseiði auk hornsíla. Í sjó er fæðan fjölbreytt en þar étur flundran skeldýr, marflær, sandmaðk, trönusíli og fiskihræ. Þetta þarf þó að rannsaka miklu betur enda er hér um mjög nýlegan landnema að ræða, ef kalla má landnema dýr sem hefst við í lífríki vatns og þrífst í sjó, ísöltu vatni og fersku. 

Hvernig ná framandi tegundir bólfestu í nýju lífríki?

Þegar Henke er spurð um niðurstöður úr doktorsrannsókninni sinni svarar hún því til að með henni sé  ætlunin að fá fram nýja þekkingu á flundru en einnig að leita svara við spurningum varðandi það hvernig nýjar tegundir nái bólfestu í hafinu umhverfis landið. Hún segir að rannsóknin hafi vissulega skilað nokkrum áhugaverðum niðurstöðum hvað þetta varðar undanfarin fjögur ár. Hún segir að hluti af rannsókninni miðist við að þróa, meta og skilja miðlun um tegundina milli hagsmunaðila. 

„Við höfum safnað upplýsingum um líklegan uppruna flundru og búsvæði sem hún nýtir hérlendis. Með hjálp veiðimanna öðluðumst við líka skilning á samfélagslegum áhrifum þessarar tegundar.“

Theresa

Mikilvægt að miðla nýrri þekkingu til almennings

Aðspurð um áhrif rannsókna segir Henke að sú sem hún nú stundi og aðrar svipaðar séu mikilvægar til að öðlast skilning á því umhverfi sem við búum í og hvernig við getum tekist á við vandamál og áskoranir sem upp koma. 

„En mér finnst ekki síður mikilvægt að gera þessa þekkingu aðgengilega almenningi. Nýlegar alþjóðlega úttektir undirstrika alþjóðlega ógn líffræðilegra innrása og mikilvægi þess að rannsaka þær og ná stjórn á þeim. Þessi rannsókn tengist einnig nokkrum markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun en þó sérstaklega markmiðum 14 og 15, þar sem líffræðilegar innrásir eru ógn við líffræðilegan fjölbreytileika bæði í vatni og á landi.“

Henke segist vonast til að rannsóknin verði til þess að vekja athygli á líffræðilegum innrásum á Íslandi. „En ég vonast líka til að leggja mitt af mörkum til að rjúfa hindranir milli rannsókna og samfélags með því að miðla rannsóknum mínum á virkan hátt til samfélagsins og virkja almenning til þátttöku í þeim.“ 

Therea Henke með flundru