Doktorsvörn í landfræði - Scott John Riddell
Askja
N-132
Doktorsefni: Scott John Riddell
Heiti ritgerðar: Af munkum og mýrum: Saga gróðurs og landnýtingar við klaustur og á jörðum þeirra á Íslandi á miðöldum.
Leiðbeinandi: Egill Erlendsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.
Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Guðrún Gísladóttir, prófessor, Háskóli Íslands.
Dr. Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor, Háskóli Íslands.
Dr. Sigrún Dögg Eddudóttir, Uppsala Universitet, Svíþjóð.
Andmælendur: Dr. Eileen Tisdall, University of Stirling, Skotlandi og Dr. Orri Vésteinsson, prófessor, Háskóli Íslands.
Doktorsvörn stýrir: Snæbjörn Pálsson, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands.
Ágrip
Rannsókn þessi beinir sjónum að áhrifum klausturhalds á Helgafelli og Þingeyrum á gróðurbreytingar og landnotkun á miðöldum. Þá eru til rannsóknar tvær jarðir, Ásbjarnarnes og Helgadalur, sem urðu leigujarðir klaustra. Gróðurbreytingar eru metnar í samhengi við landnám á Íslandi, evrópska klausturhefð, svarta dauða, siðaskipti, auk loftslags á miðöldum. Frjógreining er hornsteinn aðferðafræðinnar. Auk þess eru notaðar greiningar á jarðvegi sem mælikvarðar á jarðvegsrof. Gögnin eru lögð inn í tímaraðir sem eru byggðar á gjóskulagatímatali, og aldursgreiningum með geislakoli (14C) og Plútoni (Pu). Gjóskulög bjóða upp nákvæman samanburð upplýsinga frá frjógreiningu og úr sögulegum gögnum. Upphaf klausturhalds birtist í gróðurbreytingum og landnotkun og aukinni kvikfjárrækt. Á Þingeyrum birtist minnkað umfang reksturs klaustursins á tíma svarta dauða en slíkt greinist ekki á Helgafelli. Þetta samræmist sögulegum upplýsingum um afdrif klaustranna á tíma plágunnar. Engin ummerki um breytt gróðurfar eða landnotkun fundust á leigujörðunum sem rekja má til áhrifa klaustranna. Heyframleiðsla virðist hafa verið helsta form landnotkunar. Á Ásbjarnarnesi birtast vísbendingar um varfærna nýtingu kjarr/skóglendis á miðöldum, hugsanlega vegna áhrifa Þingeyraklausturs. Engar vísbendingar fundust á jörðunum fjórum um breytt eðli eða umfang landnotkunar við siðaskipti. Auk upplýsinga um landnotkun og breytingar tengdar klausturhaldi hefur rannsóknin lagt til gögn sem bjóða upp á samanburð á milli staðanna fjögurra m.t.t. loftslags- og umhverfisbreytinga í kring um tíma landnáms og áður en klausturhald hófst. Í frjógögnum frá Helgafelli eru einnig að finna vísbendingar um innfluttar plöntutegundir sem tengjast lækningum og matargerð. Þær vísbendingar birtast fyrst áður en klaustrið var sett á fót þar.
Um doktorsefnið
Árið 2007 flutti Scott Riddell (BSc. & MSc.) til Íslands frá Skotlandi þar sem hann starfaði áður við verkefni tengd náttúruvernd. Hann lauk MA prófi í fornleifafræði frá Háskóla Íslands áður en hann hóf doktorsnám í landfræði. Rannsóknir Scott hafa til þessa snúist um að greina með frjógreiningu sögu gróðurbreytinga og landnotkunar á Íslandi frá landnámi. Í þeirri vinnu hefur hann lagt sérstaka áherslu á að tengja niðurstöður frá frjógreiningu við upplýsingar frá fornleifa- og sagnfræði, sér lagi með tilliti til klausturhalds á Íslandi á miðöldum. Meðfram doktorsnámi hefur Scott kennt náttúrulandfræði við Háskóla Íslands, tekið þátt í fornleifauppgröftum og unnið við landvörslu á Þingvöllum.
Scott John Riddell