Doktorsvörn í hnattrænum fræðum - Jill Peterson
Aðalbygging
Hátíðasalur
Miðvikudaginn 17. maí ver Jill M. Peterson doktorsritgerð sína í hnattrænum fræðum við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið Mat á skertu aðgengi að fjölskylduáætlun með getnaðarvörnum og afleiðingar þess. Hóprannsókn með blönduðum aðferðum í Malaví (Assessing family planning service denial and its outcomes: a mixed method cohort study in Malawi). Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 14:00 og er öllum opin.
Leiðbeinandi er dr. Geir Gunnlaugsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands. Auk Geirs sátu í doktorsnefnd dr. John Stanback, lektor og sérfræðingur við Háskólann í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum og dr. Þóra Steingrímsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.
Andmælendur eru dr. Katherine Tumlinson, lektor við Háskólann í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Helga Gottfreðsdóttir, prófessor og námsbrautarstjóri í ljósmóðurfræðum við Háskóla Íslands.
Ólafur Rastrick, prófessor og deildarforseti Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar stýrir athöfninni.
Athöfnin verður í beinu streymi hér.
Um doktorsefnið
Auk þess að stunda doktorsnám í hnattrænum fræðum við Háskóla Íslands er Jill rannsóknarfélagi við alþjóðleg félagasamtök sem kallast FHI 360. Hún hefur tæplega 20 ára reynslu af rannsóknum, mati á námsáætlunum og eftirliti og mati (M&E) á fjölbreyttum viðfangsefnum, þar á meðal fjölskylduskipulag og HIV-þjónustu. Jill hefur búið og starfað um alla Afríku sunnan Sahara síðan 2010, þar á meðal í Rúanda, Senegal og Malaví. Hún er með meistaragráðu í opinberri stefnumótun frá háskólanum í Minnesota.
Ágrip
Í doktorsritgerð sinni fjallar Jill um fjölskylduáætlanir í Malaví með sérstakri áherslu á skert aðgengi að getnaðarvörnum, s.k. "turnaway". Það gerist þegar kona kemur á heilbrigðisstofnun með ósk um getnaðarvörn en fær enga þjónustu. Rannsóknin var framkvæmd með blönduðum aðferðum á 30 heilbrigðisstofnunum í þremur héruðum þar sem fjölskylduáætlanir eru í boði. Skoðaði Jill hversu oft og hvers vegna konur snéru heim án getnaðarvarna frá sjónarhóli þeirra sem sækja þjónustuna og veita hana.
Konurnar gáfu upp 12 mismunandi ástæður fyrir því hvers vegna þær fengu ekki þá úrlausn sem þær óskuðu eftir. Þrjár algengustu ástæðurnar voru að sú getnaðarvörn sem þær óskuðu eftir var ekki í boði á heilbrigðisstofnuninni (34%), heilbrigðisstarfsmaður sem gat veitt þjónustuna var ekki á staðnum (17%) og þeim snúið til baka og sagt að mæta á tilteknum degi sem væri frátekinn fyrir fjölskylduáætlanir (15%). Konur í rannsókninni greindu frá streitunni sem það olli þeim að hafa ekki aðgang að getnaðarvörnum og til hvaða ráða þær gripu í slíkum tilvikum, svo sem að sofa ekki hjá eiginmönnum sínum þar til þær væru byrjaðar á getnaðarvörnum. Til að koma í veg fyrir skert aðgengi að getnaðarvörnum–jafnvel útrýma því og tryggja jafnræði í þjónustunni–þarf öfluga heilsugæslu. Það fæli meðal annars í sér betri mönnun og þjálfun heilbrigðisstarfsmanna í viðmóti og hegðun við þá sem sækja þjónustu þeirra, öruggt aðgengi að þeirri getnaðarvörn sem óskað er eftir og tryggja að nægar birgðir þeirrra séu ávallt til staðar á heilbrigðisstofnunum. Einnig þarf að fræða almenning um getnaðarvarnir og hvernig þær virka.
Miðvikudaginn 17. maí ver Jill M. Peterson doktorsritgerð sína í hnattrænum fræðum við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands.