Skip to main content
29. mars 2023

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra HÍ haldinn á Egilsstöðum

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra HÍ haldinn á Egilsstöðum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands var haldinn 17. mars sl. í Valaskjálf á Egilsstöðum. Rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, setti fundinn sem var afar vel sóttur.

Á dagskrá voru sex fróðleg erindi um viðfangsefni rannsóknasetranna og rannsóknir sem eru unnar við þau og varða bæði náttúru og samfélag í nútíð og fortíð.

Unnur Birna Karlsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Austurlandi, fjallaði um fjölbreytt tækifæri til vísindarannsókna á Austurlandi í erindi sem hún nefndi Austurland – efniviður rannsókna.

Rannveig Þórhallsdóttir starfar við setrið á Austurlandi og flutti erindi um doktorsrannsókn sína í fornleifafræði en vettvangsvinna fer að hluta fram í Seyðisfirði. Erindi Rannveigar nefndist Árþúsund við Atlantshaf. Rannsókn á forn-DNA úr mannvistarlögum í fornleifafræðilegu samhengi.

Umfjöllunarefni Jóns Jónssonar þjóðfræðings við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum voru nær nútímanum en fortíðin kom einnig við sögu í skemmtilegu erindi hans Táknmyndir á villigötum: Ímynd svæða og sjálfsmynd íbúa.

Náttúruvísindum voru einnig gerð góð skil. María Helga Guðmundsdóttir sem starfar við Rannsóknasetur HÍ á Breiðdalsvík sagði frá vinnu sinni við að koma skipulagi á Borkjarnasafni Íslands og gera það aðgengilegt vísindamönnum, en safnið er á Breiðdalsvík og umsýsla þess samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Erindi Maríu nefndist Borkjarnasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands: Uppbygging vísindasafns á Breiðdalsvík.

Theresa Henke, doktorsnemi við Rannsóknasetur HÍ á Vestfjörðum, sagði frá rannsóknum sínum í erindinu Involving stakeholders in the research on non-native European flounder (Platichthys flesus) in Iceland en niðurstöðurnar liggja á mörkum samfélagsfræði, náttúrufræði og auðlindastjórnunar.

Loks flutti Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Suðurlandi, erindið Áskoranir og tækifæri við vernd mófugla á mannöld en meðhöfundar voru Aldís Erna Pálsdóttir, nýdoktor við setrið og Lilja Jóhannesdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands. Í fyrirlestrinum var m.a. sagt frá nýrri vefsíðu – moi.hi.is – þar sem finna má ýmsan fróðleik um mófugla og nálgast ábendingar um mófuglavernd sem byggja á vísindalegum grunni.

Í lok fundarins voru pallborðsumræður með þátttöku Björns Ingimarssonar, bæjarstjóra Múlaþings, Jónu Árnýjar Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Austurbrúar, Kristínar Ágústsdóttur, forstöðumanns Náttúrustofu Austurlands og Guðmundar Hálfdanarsonar, formanns ráðsgefandi nefndar Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.

Fundarstjóri var Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands. Fundinum var streymt og má nálgast upptöku af honum hér.

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra HÍ haldinn á Egilsstöðum
Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra HÍ haldinn á Egilsstöðum
Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra HÍ haldinn á Egilsstöðum
Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra HÍ haldinn á Egilsstöðum
Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra HÍ haldinn á Egilsstöðum
Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra HÍ haldinn á Egilsstöðum