Reglur um meistaranám við Háskóla Íslands í upplýsingatækni á heilbrigðissviði, nr. 1041/2003
með áorðnum breytingum
1. gr. Gildissvið
Reglur þessar gilda um meistaranám í upplýsingatækni á heilbrigðissviði, sem stundað er við Háskóla Íslands. Námið er þverfaglegt og skipulagt sameiginlega af þeim háskóladeildum sem aðild eiga að náminu. Reglur um námið eru því sérreglur, bæði gagnvart ákvæðum 68. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands og reglum einstakra deilda um framhaldsnám. Sameiginlegum reglum og reglum deilda verður þó beitt eftir því sem við á og þar sem þessar sérreglur hafa ekki að geyma ákvæði um einstök tilvik. Fyrirvarar deilda í reglum og kennsluskrá um fjárveitingar, fáanlegt kennaralið og slík atriði gilda gagnvart þeim nemendum sem skráðir eru í námið.
2. gr. Markmið
Meistaranám í upplýsingatækni á heilbrigðissviði er þverfaglegt nám sem miðar að því að veita hagnýta og fræðilega menntun til starfa á ýmsum sviðum er snerta upplýsingatækni innan heilbrigðisþjónustunnar eða hjá fyrirtækjum og stofnunum, sem tengjast heilbrigðisþjónustu eða veita henni þjónustu. Markmið námsins er að koma til móts við þarfir samfélagsins um rannsóknir, þjónustu og stefnumótun sem tengist skráningu, meðhöndlun og vinnslu gagna og upplýsinga á sviði heilbrigðismála og við eflingu þekkingar á sviði heilbrigðisvísinda.
3. gr. Um þverfaglegt nám
Þverfaglegt nám er skipulagt og stundað í umboði þeirra háskóladeilda sem aðild eiga að náminu. Þær deildir sem eiga fulltrúa í námsstjórn skv. 4. gr. teljast eiga aðild að náminu burtséð frá því hvort einhver skráður nemandi í deildinni stundar námið eða ekki.
Í aðild að náminu felst að deild verður bundin af reglum þessum og samningi um námið. Í samningi deilda skal koma fram hver deildanna hefur umsjón með náminu. Þegar stúdent hefur lokið námi fær umsjónardeildin helming brautskráningarframlags meistaranema, eins og það er á hverjum tíma, frá viðkomandi deild. Nánar skal kveðið á um það í samningi deildanna hvert hlutverk umsjónardeildar er. Skrifstofa námsins er í hjúkrunarfræðideild og annast sú deild umsýslu námsins, þ.e. upplýsingagjöf til nemenda, tilkynningar, frágang kennsluskrár og slík atriði.
Við inntöku í námið, skal eftir því sem við verður komið, höfð hliðsjón af reglum þeirrar deildar þar sem rannsóknarverkefni (ritgerð) viðkomandi nemanda er unnið eða meginhluti náms hans fer fram, enda skal nemandinn skráður í þá deild og brautskrást þaðan. Liggi ekki fyrir við hvaða deild rannsóknarverkefnið verði unnið skal nemandi fyrst um sinn skrá sig í umsjónardeildina, en nemanda er heimilt síðar að flytja skrásetningu sína til annarrar deildar sem aðild á að náminu, enda fallist sú deild á flutninginn, sbr. c-lið 6. gr.
4. gr. Stjórn námsins og rannsóknanámsnefnd
Rektor skipar sjö manna stjórn náms í upplýsingatækni á heilbrigðissviði til tveggja ára í senn. Leitað skal eftir tilnefningum í námsstjórn frá læknadeild, hjúkrunarfræðideild, verkfræðideild og félagsvísindadeild, en jafnframt er heimilt að taka við tilnefningum frá öðrum deildum. Með tilnefningu í námsstjórnina undirgengst deild þá skilmála sem gilda um námið. Stjórn skiptir með sér verkum.
Námsstjórn ber faglega ábyrgð á náminu í umboði þeirra deilda sem aðild eiga að því. Í þessu felst að námsstjórnin fer með öll sameiginleg málefni námsins, sér um að skipuleggja það og hafa umsjón með því.
Rannsóknanámsnefnd starfar í umboði námsstjórnar og er þverfaglega skipuð þremur fulltrúum til tveggja ára í senn. Hlutverk hennar er m.a. að samþykkja umsóknir, samþykkja námsáætlun og breytingar á henni, skipa menn í meistaranámsnefndir og tilnefna prófdómara fyrir meistarapróf.
5. gr. Umsóknarfrestur
Umsóknarfrestur er til 15. mars fyrir innritun á haustmisseri en til 15. september fyrir innritun á vormisseri. Stjórn námsins getur veitt undanþágu frá þessum tímasetningum.
6. gr. Meðferð umsókna
Umsóknum, merktum „Upplýsingatækni á heilbrigðissviði“, skal skilað til skrifstofu hjúkrunarfræðideildar. Rannsóknanámsnefnd fjallar um umsóknina og ber að líta til gæða umsóknar og inntökuskilyrða. Nefndin afgreiðir umsóknina og tilnefnir umsjónarkennara. Umsókn skal fylgja námsáætlun, þ. á m. listi yfir fyrirhuguð námskeið. Breytingar á námsáætlun eru háðar samþykki rannsóknanámsnefndar.
Ferli umsókna um meistaranám í upplýsingatækni á heilbrigðissviði er eftirfarandi:
- Stúdent sækir um inngöngu í meistaranám á sérstöku eyðublaði sem fæst á deildaskrifstofum Háskóla Íslands. Umsókninni er skilað til skrifstofu hjúkrunarfræðideildar, sem skráir hana og sendir til stjórnar námsins.
- Greint skal frá því hvort umsækjandi hyggst sækja um fjárstuðning í tengslum við námið (t.d. til Rannsóknanámssjóðs, fyrirtækja eða stofnana). Liggi fyrir drög að umsókn til sjóða skulu þau fylgja umsókn um meistaranám. Sé rannsóknarverkefni unnið utan deilda Háskóla Íslands, skal fylgja með yfirlýsing fyrirtækis eða stofnunar sem verkefnið er unnið hjá. Þessi yfirlýsing skal staðfesta þátttöku fyrirtækis eða stofnunarinnar í verkefninu.
- Rannsóknanámsnefnd sendir umsókn til viðkomandi deildar með beiðni um að nemandinn hljóti skrásetningu til námsins við deildina. Deild ber að verða við slíkri beiðni nema mjög veigamikil rök eða sérreglur deildar (sbr. 1. gr.) hamli skrásetningu. Að fenginni staðfestingu á skrásetningu afgreiðir deildin umsóknina og sendir tilkynningu þar að lútandi til nemendaskrár.
- Afgreiðslu umsóknar skal að jafnaði vera lokið og henni svarað skriflega innan sex vikna frá móttöku. Umsókn er synjað ef hún uppfyllir ekki gæðakröfur.
- Nemandi, sem rannsóknanámsnefnd hefur samþykkt í meistaranám, skal snúa sér til nemendaskrár og ganga frá skráningu sinni í námið og greiðslu skrásetningargjalds. Skráning vegna náms á haustmisseri skal fara fram í síðasta lagi [22. maí,]1 en 30. október fyrir nám á vormisseri.
7. gr. Inntökuskilyrði
Til að innritast í meistaranám í upplýsingatækni á heilbrigðissviði þarf stúdent að hafa lokið B.S.- eða B.A.-prófi frá Háskóla Íslands eða öðru háskólanámi sem metið er jafngilt fyrsta háskólaprófi. Miðað er við að nemandi, sem hefur lokið prófi frá Háskóla Íslands, hafi að lágmarki 6,5 í aðaleinkunn úr grunnnámi eða samsvarandi námi. Rannsóknanámsnefnd metur próf frá öðrum skólum en Háskóla Íslands. Heimilt er að víkja frá reglum um lágmarkseinkunn hafi umsækjandi t.d. sýnt fram á námshæfni og/eða hæfni í sjálfstæðum rannsóknum.
8. gr. Einingafjöldi og tímalengd náms
Nám í upplýsingatækni á heilbrigðissviði er 60 einingar. Miðað er við að í eðlilegri námsframvindu sé lengd námsins tvö ár (fjögur misseri). Hámarksnámstími er 4 ár.
Við brautskráningu skal stúdent sýna fram á að hann hafi verið skráður og greitt skráningargjald allan námstímann, eða samkvæmt nánari reglum sem Háskólinn kann að setja.
9. gr. Námsleiðir, framvinda og samsetning náms
Námið felur í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og þátttöku í námskeiðum á framhaldsnámsstigi. Þungamiðja námsins er eigið rannsóknar- eða þróunarverkefni innan upplýsingatækni á heilbrigðissviði og ritgerð sem byggist á því. Stærð verkefnisins er ákveðin í námsáætlun og skal vera minnst 15 einingar en mest 45 einingar. Aðrar einingar fást með þátttöku í námskeiðum, málstofum, lesnámskeiðum eða hagnýtri þjálfun.
Námskeið í þverfaglegum skyldukjarna eru 20 einingar: tvö námskeið á sviði upplýsingatækni, eitt í tölfræði, eitt í aðferðafræði og þátttaka í málstofum innan deilda Háskóla Íslands eða annarra háskóla, sem nemur tveimur einingum. Hvatt er til þess að nemendur sæki námskeið til fleiri en einnar deildar eða háskóla.
Námsleiðir eru fjórar:
- Söfnun og úrvinnsla rafrænna heilsufarsgagna.
- Nýting upplýsingatækni við ákvarðanir á heilbrigðissviði.
- Gagnasöfn á heilbrigðissviði.
- Öryggi í umsýslu heilsufarsgagna.
Námsleiðum er nánar lýst í kennsluskrá.
Við lok fyrsta misseris skal nemandi hafa valið sér leiðbeinanda með aðstoð umsjónarkennara. Þá skal einnig liggja fyrir lýsing á rannsóknar- eða þróunarverkefni og áætlun um verkefnið, sem rannsóknanámsnefnd þarf að samþykkja.
Nemandi í meistaranámi má að hámarki taka 6 einingar í lesnámskeiðum undir leiðsögn leiðbeinanda. Lesnámskeið skal vera á rannsóknasviði sem tengist rannsóknarverkefni stúdents, en er ekki hluti af aðalverkefni. Námið felst í lestri tímaritsgreina og annarra heimilda sem valdar eru í samráði við kennara og umræðum um þær við kennara. Lesnámskeiði lýkur með ritgerð eða munnlegu prófi.
10. gr. Námskeið í grunnnámi sem hluti af framhaldsnámi
Námskeið í framhaldsnámi skulu að jafnaði vera sérstök framhaldsnámskeið við Háskóla Íslands eða aðrar viðurkenndar stofnanir. Í vissum tilvikum getur nemendum í meistaranámi verið heimilt að taka námskeið til 6 eininga í grunnnámi sem hluta af framhaldsnámi, enda séu þau nauðsynleg undirstaða verkefnisins. Miðað er við að lágmarkseinkunn úr námskeiðum í grunnnámi sé 6,0.
11. gr. Umsjónarkennari og leiðbeinandi
Sérhver meistaranemi skal frá upphafi náms hafa umsjónarkennara úr hópi fastra kennara Háskóla Íslands í viðkomandi deild sbr. 3. gr., sem hann ráðfærir sig við um skipulag námsins, val námskeiða og leiðbeinanda, ef við á, og annað sem tengist náminu. Umsjónarkennari, ásamt nemanda, leggur fram námsáætlun sem stjórn námsins samþykkir. Leiðbeinandi leiðbeinir nemanda í rannsóknarverkefni. Umsjónarkennari og leiðbeinandi eru að jafnaði sami maðurinn. Nemanda er heimilt að hafa utanaðkomandi leiðbeinanda sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru í þessum reglum. Séu umsjónarkennari og leiðbeinandi ekki sami maðurinn hefur umsjónarkennari umsjón með náminu og er ábyrgur fyrir því að það sé í samræmi við kröfur viðkomandi deildar, en leiðbeinandi sér um að leiðbeina nemanda í rannsóknarverkefni.
12. gr. Kröfur til umsjónarkennara og leiðbeinenda
Umsjónarkennari skal ávallt vera fastráðinn kennari (lektor, dósent eða prófessor) í viðkomandi deild eða sérfræðingur sem hefur fengið viðeigandi hæfnismat. Ef leiðbeinandi meistaranema er ekki fastur kennari er nauðsynlegt að hann hafi sjálfur lokið meistaraprófi á fræðasviðinu. Í slíkum tilvikum skal leiðbeinandi leggja fram ritverkalista auk ferilsskrár (curriculum vitae) og metur rannsóknanámsnefnd hæfni hans. Gæta þarf þess að verkefni nemandans sé á sérsviði leiðbeinandans. Leiðbeinendur meistaranema, hvort sem þeir eru fastir kennarar við Háskólann eða ekki, skulu vera viðurkenndir sérfræðingar á viðkomandi sviði.
13. gr. Meistaranámsnefndir
Rannsóknanámsnefnd skipar þrjá sérfróða menn af mismunandi fræðasviðum í meistaranámsnefnd. Einn þeirra er leiðbeinandinn. Að minnsta kosti einn nefndarmanna skal tilheyra þeirri deild, sem viðkomandi nemandi mun brautskrást frá. Hlutverk meistaranámsnefndar er að fylgjast með að framgangur námsins sé í samræmi við námsáætlun og tryggja fagleg gæði rannsóknavinnunnar í samræmi við reglur. Meistaranámsnefnd heldur reglulega fundi með nemandanum og skilar árlegri skýrslu um framvindu námsins til rannsóknanámsnefndar.
14. gr. Prófdómarar
Rannsóknanámsnefnd tilnefnir tvo prófdómara sem prófa meistaranema og leggja mat á lokaverkefni meistaranema ásamt meistaraprófsnefnd. Prófdómarar skulu ekki vera tengdir rannsóknarverkefninu.
15. gr. Námsmat og meistarapróf
Um leið og ritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram til mats meistaraprófsnefndar staðfest námsferilsyfirlit nemanda. Um einkunnir gilda ákvæði samkvæmt reglum fyrir Háskóla Íslands.
Í meistaraprófi flytur nemandi fyrirlestur um lokaverkefnið (20-40 mín.) og hafa prófd ómarar síðan samtals u.þ.b. klukkustund til að prófa nemandann. Prófdómarar ásamt umsjónarkennara og prófstjóra, sem skipaður er af rannsóknanámsnefnd, meta frammistöðu nemanda og gefa honum einkunn (0-10).
16. gr. Skil og frágangur meistararitgerða
Meistaraprófsritgerð skal leggja fram fullbúna í fimm eintökum fyrir meistaraprófsnefnd og prófdómara minnst þremur vikum fyrir áætlaðan prófdag. Við frágang lokaverkefna og meðferð heimilda skal nemandi fylgja reglum þeirrar deildar sem hann brautskráist frá. Koma skal skýrt fram að verkefnið sé unnið innan upplýsingatækni á heilbrigðissviði við þá deild sem nemandinn brautskráist frá. Geta skal þeirra sjóða Háskólans sem styrkt hafa verkefnið, ef það á við.
Ritgerð skal vera á íslensku eða ensku, en útdráttur á báðum tungumálum skal fylgja hverri meistaraprófsritgerð.
17. gr. Tengsl við aðra háskóla
Hluta meistaranáms má taka við aðra háskóla eða viðurkenndar rannsókna- eða vísindastofnanir.
18. gr. Lærdómstitill
Meistarapróf samkvæmt þessum reglum veitir rétt til lærdómstitilsins Master of Health Informatics (MHI).
19. gr. Gildistaka o.fl.
Reglur þessar sem samþykktar hafa verið af viðkomandi háskóladeildum og hlotið staðfestingu háskólaráðs, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands og 68. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands, öðlast þegar gildi.
Auk birtingar í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 41/1999, skal birta reglur þessar í kafla þverfaglegs náms í kennsluskrá og á heimasíðu umsjónardeildar.
Háskóla Íslands, 27. nóvember 2003