Doktorsvörn í jarðeðlisfræði - Siqi Li
Aðalbygging
Hátíðarsalur
Doktorsefni: Siqi Li
Heiti ritgerðar: Jarðskorpuhreyfingar vegna seigfjaðrandi efnishegðunar jarðar og þáttur þeirra á tímabili eftir eldsumbrot, 2015-2021, í eldstöðvakerfi Bárðarbungu. (Ground deformation caused by viscoelastic relaxation and its role in the 2015-2021 post-eruptive period at the Bárðarbunga volcanic system, Iceland)
Andmælendur:
Dr. Fred F. Pollitz, jarðeðlisfræðingur við Jarðvísindastofnun Bandaríkjanna
Dr. Yang Liao, fræðimaður við Woods Hole Oceanographic Institution í Bandaríkjunum
Leiðbeinandi: Dr. Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun háskólans
Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Halldór Geirsson, dósent við Jarðvísindadeild HÍ.
Dr. Andrew Hooper, prófessor við Háskólann í Leeds á Englandi
Doktorsvörn stýrir: Dr. Guðfinna Th Aðalgeirsdóttir, prófessor og varadeildarforseti Jarðvísindadeildar HÍ
Ágrip
Jarðskorpuhreyfingar á eldfjöllum eftir eldgos geta orsakast af mörgum ferlum, m.a. áframhaldandi kvikuhreyfingum, eða verið svörun jarðar við fyrri atburðum og kvikuhreyfingum í eldgosi, með taftíma. Slík síðbúin svörun jarðskorpunnar með taftíma getur orsakast af seigfjaðrandi efnishegðun jarðar. Jarðskorpuhreyfingar eftir eldgos geta varað árum saman og erfitt getur reynst að varpa skýru ljósi á ferlin sem stjórna slíkum hreyfingum. Í þessu doktorsverkefni eru jarðskorpuhreyfingar í eldstöðvakerfi Bárðarbungu eftir meiriháttar eldsumbrot metnar með GNSS (Global Navigation Satellite System) og InSAR (Interferometric analysis of Synthetic Aperture Radar satellite images) mælingum á jarðskorpuhreyfingum.
Eldstöðvakerfið er valið sem rannsóknasvæði vegna mikillar tilfærslu kviku í eldgosinu 2014-2015, sem stóð í sex mánuði. Leiðrétt meðal-hraðasvið sýnir lárétta færslu í átt frá Bárðarbunguöskjunni og kvikuganginum á árunum eftir gos. Svæði næst öskjunni og ganginum rísa.
Líkanreikningar sýna að við Bárðarbunguöskjuna getur seigfjaðrandi svörun og/eða kvikuinnflæði útskýrt mæliniðurstöður, en erfitt er að greina á milli þessara ferla eingöngu með því að nota meðalhraða. Jarðskorpuhreyfingar á tímabilinu eftir eldgos og kvikuinnskot í nágrenni við kvikuganginn voru notaðar til að skorða sambærilegt líkan fyrir það svæði. Til að meta frekar mismuninn á þessum ferlum voru kannaðar spennubreytingar samfara þeim, sem og hvernig færslur á yfirborði jarðar breytast með tíma.
Um doktorsefnið
Siqi Li fæddist í Renqiu í Kína árið 1992. Hún lauk BS-gráðu frá háskólanum í Chengdu í verkfræði og rannsóknaaðferðum. Hún færði sig svo til Evrópu og árið 2016 lauk hún meistaragráðu í jarðvísindum frá Háskólanum í Edinborg. Hún fluttist til Íslands árið 2017 og byrjaði doktorsnám og hóf rannsóknir á jarðskorpuhreyfingum í eldstöðvakerfi Bárðarbungu. Siqi hefur mikinn áhuga á íslenskri náttúru og eldfjöllum og nýtur þess að kanna Ísland og vera í gönguferðum, sérstaklega þegar veðrið er gott.
Siqi Li