Doktorsvörn í læknavísindum - Sæmundur Rögnvaldsson
Aðalbygging
Hátíðasalur
Mánudaginn 10. október ver Sæmundur Rögnvaldsson doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Klínísk þýðing góðkynja einstofna mótefnahækkunar: Aðferðafræðilegar lausnir til að rannsaka einkennalaust forstig. Monoclonal gammopathy of what significance? Overcoming the methodological limitations of studying an asymptomatic precursor disorder.
Andmælendur eru dr. Angela Dispenzieri, prófessor við Mayo Clinic í Bandaríkjunum, og dr. Lárus Steinþór Guðmundsson, dósent við Lyfjafræðideild HÍ.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor við Læknadeild. Auk hans sátu í doktorsnefnd Elías Ólafsson, prófessor, Gyða Björnsdóttir, rannsakandi, Ola Landgren, prófessor og Thor Aspelund, prófessor.
Þórarinn Guðjónsson, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.
Vörninni verður streymt:
https://livestream.com/hi/doktorsvornsaemundurrognvaldsson
Ágrip
Góðkynja einstofna mótefnahækkun (e. monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS) er einkennalaust forstig mergæxlis og skyldra krabbameina sem einnig hefur verið tengt við fjölda sjúkdóma. Markmið verkefnisins var að leita nýrra leiða til að leysa aðferðafræðileg vandamál og öðlast betri skilning á klínísku mikilvægi MGUS. Fyrri hluti verkefnisins byggir á rannsóknum á lýðgrunduðu þýði einstaklinga með MGUS í Svíþjóð þar sem tengsl MGUS við úttaugamein og beinbrot voru könnuð. Seinni hluti verkefnisins byggir á stórri skimunarrannsókn á MGUS á Íslandi (Iceland screens, treats, or prevents multiple myeloma, iStopMM) sem ætlað er að kanna gagnsemi og mögulegan skaða af kerfisbundinni skimun og greiningu MGUS. Hönnun og framkvæmd rannsóknarinnar er lýst og þýði hennar svo notað til að kanna tengsl MGUS og COVID-19. Niðurstöður úr fyrri hluta verkefnisins sýna að MGUS hefur líklega tengingu við úttaugamein sem geta, ásamt öðrum þáttum, leitt til beinbrota. Niðurstöður úr seinni hluta verkefnisins sýna að u.þ.b. helmingur Íslendinga yfir 40 ára aldri hafi skráð sig í iStopMM og með því að nota þetta einstaka skimaða þýði sást að MGUS hafði engin tengsl við nýgengi eða alvarleika COVID-19. Þetta voru óvæntar niðurstöður sem benda til að skimað þýði, líkt og í iStopMM, sé besta leiðin til að kanna sannarleg tengsl MGUS við sjúkdóma. Slíkar rannsóknir eru nauðsynlegar til að skýra raunverulegt klínískt mikilvægi MGUS og með því betrumbæta eftirfylgd einstaklinga með MGUS og þannig vonandi horfur þeirra.
Abstract
Monoclonal gammopathy of undetermined significance (MGUS) is an asymptomatic precursor of multiple myeloma and related disorders which has also been associated with multiple other diseases. The aim of this thesis was to utilize alternative methods to overcome methodological issues and gain a better understanding of the clinical significance of MGUS. In the first section of the thesis, the relationship between MGUS and peripheral neuropathy and bone fractures is studied in population-based registers from Sweden. The second section of the thesis is built on the Iceland screens, treats, or prevents multiple myeloma study (iStopMM), large screening study on MGUS being performed in Iceland. The study rationale, design, and aims are discussed in detail and the assembled screened MGUS cohort used to assess the significance of MGUS in COVID-19. Results from the first section show that MGUS is associated with peripheral neuropathy that can, along with other factors, lead to bone fractures in MGUS. Results from the second section show that more than half of the Icelandic population over 40 years old has participated in iStopMM and by using the unique cohort from the study, MGUS was not shown to be associated with increased incidence or severity of COVID-19. These results are unexpected and highlight the need to study MGUS disease associations in screened cohorts. Such studies will further clarify the clinical significance of MGUS, hopefully leading to better care and outcomes for individuals with MGUS.
Um doktorsefnið
Sæmundur Rögnvaldsson fæddist árið 1991 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut Menntaskólans við Hamrahlíð árið 2011 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2018. Sæmundur hóf doktorsnám sumarið 2016 og hefur síðan starfað að doktorsverkefni sínu og uppsetningu og framkvæmd rannsóknarinnar „Blóðskimun til bjargar“. Samhliða doktorsnáminu lauk Sæmundur kandídatsári og hóf sérnám í almennum lyflækningum auk þess að starfa sem verkefnastjóri fyrir verkefnið „Graduate Program in Medical Science“ (GPMS) við Læknadeild. Sæmundur hefur verið virkur í alþjóðlegu samstarfi og situr í rannsóknarhópi um faraldsfræðilegar rannsóknir á mergæxli, á vegum Nordic Myeloma Study Group. Rannsóknaráhugi Sæmundar er einkum innan faraldsfræði og nýtingar stórra gagnasafna til að skilja krabbamein og forstig þeirra. Foreldrar Sæmundar eru Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson og Birna Helgadóttir. Sambýliskona hans er Iðunn Kristínardóttir og eiga þau saman eina dóttur, Kristínu Birnu Sæmundsdóttur.
Sæmunur Rögnvaldsson ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands mánudaginn 10. október.