Háskóladagurinn 2023
Háskólatorg, Aðalbygging, Askja og Gróska
Háskóli Íslands býður landsmönnum öllum í heimsókn á Háskóladaginn laugardaginn 4. mars milli klukkan 12 og 15.
Allir geta kynnt sér fjölbreytt námsframboð Háskóla Íslands en á fjórða hundrað námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi eru í boði við skólann. Komið og kynnið ykkur spennandi nám sem opnar leiðina út í atvinnulífið. Einnig fer fram kynning á margþættri og öflugri starfsemi og þjónustu Háskólans.
Á staðnum verða vísindamenn, kennarar og nemendur úr öllum deildum Háskólans sem svara spurningum um allt milli himins og jarðar – eða því sem næst.
Ekki missa af því þegar Háskólinn opnar dyr sínar upp á gátt.
Allar námsleiðir kynntar á háskólasvæðinu Hér má sjá hvar allar námsleiðir eru kynntar á Háskóladaginn
Námskynningar á vegum einstakra fræðasviða Háskóla Íslands verða á eftirtöldum stöðum:
- Félagsvísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
- Heilbrigðisvísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
- Hugvísindasvið: Aðalbygging, 2 hæð
- Menntavísindasvið: Gróska
- Verkfræði- og náttúruvísindasvið: Askja en hugbúnaðarverkfræði og tölvunarfræði í Grósku
Þá eru Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri með námskynningu í Grósku, en þar verður einnig kynnt nýsköpun í HÍ.
Á 2. hæð á Háskólatorgi eru einnig fulltrúar frá Nemendaráðgjöf, Alþjóðasviði og Nemendaskrá. Á staðnum verða fulltrúar frá stúdentaráði og fulltrúar Félagsstofnunar stúdenta sem veita upplýsingar um Stúdentagarða, Leikskóla stúdenta og aðra þjónustu fyrir stúdenta.
Háskólinn á Bifröst, Háskólinn í Reykjavík og Listaháskóli Íslands kynna jafnframt námsframboð sitt á 1. hæð Háskólatorgs.
Háskólinn í Reykjavík verður líka með námskynningu í eigin húsakynnum við Öskjuhlíð og Listaháskóli Íslands kynnir allar sínar námsleiðir í eigin húsakynnum á Laugarnesvegi.
Boðið er upp á ókeypis strætóferðir á milli skóla.
Frekari upplýsingar um Háskóladaginn eru á vef Háskóladagsins
Á Háskóladaginn býður Háskóli Íslands landsmönnum öllum í heimsókn. Komdu til okkar laugardaginn 4. mars milli klukkan 12 og 15.