Skip to main content

Doktorsvörn í þróunarfræði - Guðrún Helga Diop Jóhannsdóttir

Doktorsvörn í þróunarfræði - Guðrún Helga Diop Jóhannsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
16. júní 2022 14:00 til 16:00
Hvar 

Þjóðminjasafnið, fyrirlestrarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fimmtudaginn 16. júní ver Guðrún Helga Diop Jóhannsdóttir doktorsverkefni sitt í þróunarfræði Mótun Heimsmarkmiða: Hnattræn stjórnun, þróunarvaldstækni og eignarhald í Senegal. Vörnin fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins kl. 14:00 og er öllum opin.

Leiðbeinandi verkefnisins er dr. Jónína Einarsdóttir prófessor í mannfræði við HÍ. Í doktorsnefnd sátu dr. Ómar Kristmundsson prófessor í stjórnmálafræði við HÍ og dr. Jon Harald Sande Lie rannsakandi við Norwegian Institute of International Affairs.

Andmælendur eru dr. Kristina Jönsson, dósent við stjórnmálafræðideild Lundarháskóla í Svíþjóð og dr. Stephen Brown prófessor í stjórnmálfaræð við Ottawa háskóla í Kanada.

Vörninni stýrir dr. Unnur Dís Skaptadóttir prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.

Um doktorsefnið
Guðrún Helga Diop Jóhannsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1978. Guðrún Helga hefur undanfarin 10 ár sinnt ráðgjafastörfum í þróunasamvinnu ásamt kennslu og rannsóknum við Háskóla Íslands og starfar í dag sem aðstoðarframkvæmdastjóri frjálsra félagasamtaka þar sem hún, meðal annars, leiðir þróunarstarf samtakanna í Afríku sunnan Sahara. Guðrún Helga er búsett í Grímsnesi ásamt eiginmanni sínum Yakhya Ragnari Ibrahimasyni Diop og börnum.
 

Ágrip
Sameinuðu þjóðirnar hófu og leiddu mótun á nýrri þróunarstefnu Sameinuðu þjóðanna eftir 2015 sem koma átti í stað Þúsaldarmarkmiðanna. Hið flókna og margþætta ferli sem leiddi til Heimsmarkmiðanna var sett á vegna kröfu um eignarhald í gegnum þátttöku og til að bregðast við gagnrýni á Þúsaldarmarkmiðin. Röð samráðsferla undir heitinu The World We Want 2015 var skipulögð, þar sem rödd viðeigandi hagsmunaaðila átti að heyrast. Í þessu fólst meðal annars að almennum borgurum, sérfræðingum og fræðimönnum í 88 löndum, þar á meðal Senegal, var boðið til samráðs um forgangsröðun í stefnumótun í sínu landi eftir árið 2015.

Doktorsrannsóknin skoðar og útskýrir mótun þróunarstefnu Sameinuðu þjóðanna eftir 2015 í gegnum alþjóðleg samráðsferli, með áherslu á Senegal. Valdatengsl gjafa og viðtakenda í Senegal eru skoðuð auk þess lærdóms sem draga má af Þúsaldarmarkmiðunum og hvaða áhrif markmiðin höfðu á mótun þróunarstefnu Sameinuðu þjóðanna eftir 2015.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að alþjóðlegt samráðsferli við mótun þróunarstefnu Sameinuðu þjóðanna eftir 2015 er afurð hnattrænnar stjórnunar í gegnum viðurkennt verklag í þróunarsamvinnu, þar sem Sameinuðu þjóðirnar stýra ferlinu í átt að æskilegri niðurstöðu. Ferlið sem sneri að verklagi fremur en innihaldi, var réttlætt með viðurkenndu verklagi í þróunarsamvinnu. Annars vegar, byggt á þróunarsamvinnu og fyrstu meginreglu Parísaryfirlýsingarinnar, að eignarhald á samráðsferlinu skipti sköpum við mótun þróunarstefnu Sameinuðu þjóðanna eftir 2015 til að tryggja skilvirkni við að innleiða útkomuna. Hins vegar, þá átti að læra af reynslunni og ekki endurtaka mistök Þúsaldarmarkmiðanna. Sameinuðu þjóðirnar veittu haldgóða leiðsögn á meðan á samráðsferlinu stóð sem studdist við ráðandi orðræðu um tengsl eignarhalds og þátttöku, með rætur í viðurkenndu verklagi í þróunarsamvinnu. Hugtakið þróunarvaldstækni, stjórntæki í þróunarsamvinnu, undirstrikar beitingu óbeins valds á meðan á samráðsferlinu í Senegal stóð.

Rannsóknin dregur í efa þá röksemdafærslu að alþjóðlegt stefnumörkunarferli sem leitt er af Sameinuðu þjóðunum muni í gegnum þátttöku leiða til eignarhalds á ferlinu. Rannsóknin kallar á endurbætur á alþjóðlegri stefnumörkun með því að læra af fyrri reynslu og dregur í efa ágæti tilhneigingar alþjóðakerfisins að finna sífellt upp nýjar stefnur, nýtt upphaf. Ritgerðin leggur áherslu á framkvæmd í stað þess að móta stöðugt nýjar stefnur, sem oft leiða til fyrirfram þekktrar niðurstöðu. Frekari rannsókna er þörf á hugtökunum eignarhald og þátttaka og hvernig þau, í gegnum Parísaryfirlýsinguna, uppfylla hlutverk sitt um viðurkennt verklag í þróunarsamvinnu.
 

Fimmtudaginn 16. júní ver Guðrún Helga Diop Jóhannsdóttir doktorsverkefni sitt í þróunarfræði Mótun Heimsmarkmiða: Hnattræn stjórnun, þróunarvaldstækni og eignarhald í Senegal. Vörnin fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins kl. 14:00 og er öllum opin.

Doktorsvörn í þróunarfræði - Guðrún Helga Diop Jóhannsdóttir