Grunnskólakennsla yngri barna, MT.
Grunnskólakennsla yngri barna
MT gráða – 120 einingar
Námsleiðin er sniðin að nemendum sem hafa lokið B.Ed. í grunnskólakennarafræði eða grunnskólakennslu yngri barna. Í náminu er fengist við fjölbreytt viðfangsefni kennarastarfsins, hlutverk umsjónarkennara, samstarf heimila og skóla, teymisvinnu og þróunarstarf.
MT nám felur það í sér að nemandi getur tekið kennslufræðitengd námskeið í stað þess að skrifa 30 eininga rannsóknarritgerð.
Skipulag náms
- Haust
- Menntunarfræði yngri barna
- Kennsla í margbreytilegum nemendahópiB
- Nám og kennsla: Að mæta sérþörfumB
- Vor
- Menntun til sjálfbærni – hæfni í heimi breytinga
- Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðumB
- Inngangur að megindlegum rannsóknaraðferðumB
- Skólastarf og rannsóknirB
Menntunarfræði yngri barna (KME109F)
Á námskeiðinu verður fjallað um sýn á börn, rannsóknir á námi þeirra og þá hugmyndafræði sem þær byggja á og athyglinni beint að ýmsum áherslum og álitamálum á sviðinu. Kynntar verða innlendar og erlendar rannsóknir og kenningar á eftirfarandi sviðum:
- Sýn á börn og nám í nútíma samfélagi: Fjallað verður um grundvallarhugmyndir um nám barna og hvernig þeim eru skapaðar námsaðstæður í skólum þar sem þátttaka, valdefling, lýðræði og vellíðan eru í brennidepli.
- Félagslegur raunveruleiki barna og áhrif hans á virka þátttöku þeirra í skólastarfi, m.a. jafnrétti í víðum skilningi, foreldrasamskipti, tækni í lífi barna.
- Þróun náms, skipulag námsumhverfis og fjölbreyttar leiðir til að meta nám ungra barna sem snerta meðal annars námssvið í leik- og grunnskóla.
Vinnulag:
Mætingarskylda er í tveimur staðlotum. Vikulegar kennslustundir eru yfir önnina þar sem nemendur geta valið mismunandi tíma dagsins í kennslustofu eða á neti (kennt er á þriðjudögum.).
Kennsla verður í formi fyrirlestra, umræðna og verkefna sem nemendur kynna og ræða. Nemendur athuga hvernig nýta má kenningar og niðurstöður rannsókna í skólastarfi. Þeir velja sér afmarkað svið til að dýpka þekkingu sína á með því að kynna sér niðurstöður rannsókna og starf á vettvangi. Dæmi um viðfangsefni eru: Mat í skólastarfi, margbreytilegur barnahópur (svo sem menningarlæsi, kynjagervi, fjölmenning) ákveðið námssvið, leik og námssamfélag barna, foreldrasamstarf, læsi, samfella í námi barna og skapandi starf.
Kennsla í margbreytilegum nemendahópi (KME115F, MAL102F)
Markmið námskeiðsins er að starfandi kennarar og kennaranemar eflist í að nýta eigin auðlindir í vinnu með margbreytilegum nemendahópum. Byggt er á kennslufræði menntunar fyrir alla (inclusive pedagogy) og kennslufræði nýsköpunarmenntar þar sem lögð er áhersla á heildstæða og skapandi nálgun við undirbúning og skipulag kennslu og að nýta auðlindir nemenda.
Viðfangsefni
Námskeiðið byggir á hugmyndafræði menntunar fyrir alla og nýsköpunar- og frumkvöðlamenntunar. Fjallað verður um mismunandi vinnubrögð og kynntir kennsluhættir og kennsluaðferðir sem hafa reynst vel í fjölbreyttum nemendahópum. Áhersla er á kennsluhætti og kennsluaðferðir nýsköpunarmenntar, samvirks náms, altæka hönnun náms, fjölmenningarlega kennslu og listrænar og skapandi aðferðir. Fjallað verður um samstarf við foreldra og aðrar starfsstéttir er starfa við eða tengjast skólastarfi. Þátttakendur skilgreina og þróa eigin starfskenningu.
Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem blandað nám, bæði fjarnám og staðnám. Kennslan fer fram bæði í staðlotum og staðtímum milli staðlota og á netinu. Námskeiðinu er skipt upp í fjórar námslotur (tímabil) sem eru skipulagðar út frá ákveðnum þemum. Þau tengjast öll kennslu í margbreytilegum nemendahópi og eru: hugmyndafræði menntunar fyrir alla og nýsköpunarmenntar, fagmennska og forysta í kennslu margbreytilegra nemendahópa, kennsluhættir í margbreytilegum nemendahópum og samstarf í skóla fyrir alla. Hver námslota stendur yfir í þrjár til fjórar vikur. Kennsla og nám verður í formi fyrirlestra, umræðna í tímum og á Canvas, stuttra verkefna í tímum og á Canvas og verkefna með formlegum skilum. Námskeiðið byggir á sjálfstæðri vinnu, ábyrgð og þátttöku nemenda.
Gert er ráð fyrir 80% þátttöku í virkni á námskeiðinu (þátttaka og skil verkefna).
Nám og kennsla: Að mæta sérþörfum (KME115F, MAL102F)
Meginviðfangsefni námskeiðsins eru kennsluhættir og námsaðstæður sem miða að því að efla árangur fjölbreyttra nemendahópa, huga að styrkleikum þeirra og veikleikum í skóla án aðgreiningar með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Fjallað er um algengustu sérþarfir nemenda og sérstök áhersla lögð á árangursríkar (gagnreyndar) leiðir til að mæta margbreytilegum þörfum nemenda og efla þá í námi, meðal annars til að draga úr vanda varðandi lestrarnám, hegðun, líðan, einbeitingu, ofvirkni og einhverfu. Samhliða er rætt um mikilvægi þess að hafa hæfileika og styrkleika nemenda ávallt í forgrunni og aðgreina erfiðleika frá eiginleikum einstaklinga. Einnig er fjallað um fjölmenningarkennslu og kennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku. Kynntar eru helstu aðferðir við bekkjarstjórnun og einstaklingsmiðuð úrræði til að bæta hegðun, félagsfærni, líðan og námsárangur fjölbreytts hóps nemenda. Fjallað er um þverfaglegt samstarf, teymisvinnu og samvinnu við foreldra barna með sérþarfir. Umfjöllunarefni námskeiðsins grundvallast á hugmyndafræði skóla án aðgreiningar og rannsóknum á því sem vel hefur gefist við að mæta fjölbreytilegum nemendahópi, með það að markmiði að veita öllum nemendum jafngild tækifæri í námi.
Menntun til sjálfbærni – hæfni í heimi breytinga (FAG201F)
Fjallað verður um hugtakið sjálfbær þróun og meginhugmyndir alþjóðlegra sáttmála um sjálfbærni. Tekin verða dæmi af ýmsum vandamálum er tengjast umhverfi og náttúru, s.s. loftslagsmálum, tegundafækkun, jarðvegseyðingu og mengun. Lögð verður áhersla á að greina vandamál úr umhverfi nemenda með áherslu á að finna mögulegar lausnir. Fjallað verður um hlutverk kennara í að vinna með ágreiningsmál og hvernig þeir geta kennt börnum að greina vanda, meta upplýsingar og setja fram hugsanlegar lausnir. Þátttakendur lesi og noti rannsóknir á sjálfbærnimenntun. Einnig munu þátttakendur skoða eigin viðhorf til sjálfbærrar þróunar, gildi sín og meta eigin hegðun.
Skyldumæting er í staðlotur samkvæmt kennslualmanaki Menntavísindasviðs.
Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðum (MVS212F, MVS213F, KME211F)
Fjallað verður um ólíkar rannsóknarstefnur og tengsl þeirra við uppbyggingu og útfærslu rannsókna. Einnig um siðfræði vísinda með áherslu á hagnýt atriði og um gæðahugtök, s.s. réttmæti, trúverðugleika og ólíka sýn á þessi hugtök. Í námskeiðinu beinist athyglin að eigindlegum aðferðum. Kynnt verða algeng rannsóknarsnið eigindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemar fá nokkra þjálfun í að beita algengum aðferðum rannsókna m.a. vettvangsathugunum, viðtölum og heimildaathugunum. Þá vinna nemar með öflun, skráningu, flokkun, greiningu og túlkun gagna, og með framsetningu þeirra og gera heildstæða rannsóknaræfingu.
Fyrirlestrar, umræður og verkefni. Skyldumæting er í staðlotum.
Inngangur að megindlegum rannsóknaraðferðum (MVS212F, MVS213F, KME211F)
Markmiðið er að nemendur
- hafi innsýn í megindlega aðferðafræði á sviði rannsókna í uppeldis- og menntunarfræði
- þekki helstu rannsóknaraðferðir og hugtök sem þeim tengjast
- geti beitt algengum rannsóknaraðferðum og þannig aflað gagna, unnið úr þeim og túlkað á agaðan og viðurkenndan hátt
- séu færir um að rýna í rannsóknir og nýta sér niðurstöður þeirra
- hafi tileinkað sér rannsakandi hugarfar og gagnrýna hugsun
Kynnt verða algeng rannsóknarsnið megindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemendur nota tölvuforrit til að reikna algenga tölfræðistuðla og halda utan um og vinna úr gögnum. Sérstök áhersla verður lögð á þjálfun í túlkun matsniðurstaðna sem líklegt er að verði á vegi þeirra hópa sem taka námskeiðið.
Fyrirlestrar á vef, umræður og verkefni. Námskeiðið er kennt vikulega en fyrirlestrar verða eingöngu á vef. Verkefnatímar verða ekki teknir upp. Ekki er mætingarskylda í námskeiðið en nemendur eru hvattir til að mæta í kennslustundir.
Nemendur verða að hafa Jamovi (sjá nýjustu útgáfu á https://www.jamovi.org) uppsetta á fartölvum sem þeir mæta með í kennslustundir.
Lesefni: Kaflar 1-11 í Navarro DJ and Foxcroft DR (2019). Learning statistics with jamovi: a tutorial for psychology students and other beginners. (Version 0.70). DOI: 10.24384/hgc3-7p15. Rafræn ókeypis kennslubók sem hala má niður á síðunni https://www.learnstatswithjamovi.com.
Skólastarf og rannsóknir (MVS212F, MVS213F, KME211F)
Fjallað verður um innlendar og erlendar rannsóknir um nám og kennslu og greint hvernig þær geta stutt við þróun kennsluhátta og skipulag námsumhverfis. Rýnt verður í ólíkar rannsóknarstefnur og tengsl þeirra við rannsóknaraðferðir.
Matstæki sem skólum bjóðast, meðal annars á vegum Menntamálastofnunar, verða kynnt og rædd á námskeiðinu. Þar má nefna HLJÓM-2 fyrir leikskóla, Lesskimun fyrir fyrsta bekk, önnur lesskimunarpróf, mælaborðið Lesfimi og Matsferil sem er nýtt tæki í þróun hjá stofnuninni.
Einnig verða skoðaðar alþjóðlegar kannanir svo sem PISA fyrir 10. bekkinga og TALIS sem er könnun meðal kennara.
Námskeiðið á að vera hagnýtt og nýtast kennurum í daglegu starfi.
Vinnulag
Haldnir verða fyrirlestrar, málstofur og umræðutímar. Nemendur taka þátt í athugunum og æfa sig í að lesa og túlka niðurstöður rannsókna sem styðja þá í kennarastarfi.
Fyrir hverja er þetta námskeið?
Námskeiðið er einkum ætlað nemendum í leik- og grunnskólakennaranámi sem valið hafa MT-námsleiðir.
Nám og kennsla - fagmennska í starfi (KME301F)
Meginviðfangsefni námskeiðsins er fagmennska í starfi kennara og hlutverk, ábyrgð og skyldur umsjónarkennara sem og fagreinakennara. Sérstök áhersla er lögð á að styðja kennaranema í að móta heildstæða starfskenningu, efla fagvitund, skerpa sýn á kennarastarfið og skilning á þeim skuldbindingum sem starfið felur í sér. Á námskeiðinu er áhersla lögð á tengsl kennslu og náms og það hlutverk kennarans að byggja upp öflugt og skapandi námsumhverfi. Fjallað verður um siðfræði kennarastarfsins, manngildissjónarmið og ábyrgð kennara, gagnvart velferð barna og foreldrasamstarfi. Meðal viðfangsefna verða sjálfsrýni og sjálfsmat, ígrundun eigin kennslu og í samræðu við nema úr öðrum faggreinum. Auk þess er lögð áhersla á samskiptafærni, m.a. í samskiptum við foreldra, viðtalstækni, teymiskennslu og teymisvinnu og mismunandi leiðir til bekkjarstjórnunar.
Vinnulag byggir á fyrirlestrum, umræðum, málstofum, sjálfstæðri vinnu og samvinnuverkefnum. Námsþættir námskeiðsins eru í beinum tengslum við vettvangsnám. Ýmis álitamál verða skoðuð og rædd með vísun til dæma úr skólastarfi. Kennaranemar lesa valdar greinar og rannsóknir sem tengjast námsþáttunum, bæði efni sem kennarar velja og efni sem nemar viða að sér. Þeir vinna námsþáttaverkefni og halda rannsóknardagbók a.m.k. einu sinni í viku meðan á vettvangsnámi stendur. Kennaranemar vinna að jafnaði saman í teymi á vettvangi í samstarfi við æfingakennara og kennara námskeiðsins. Þeir fara með ákveðin verkefni til að skoða og vinna með, auk þess sem þeir skipuleggja samþætt, lýðræðislegt verkefni um málfefni líðandi stundar. Einnig safna þeir gögnum af vettvangi sem nýtt eru í tengslum við vinnu að námsþáttum námskeiðsins. Áhersla er lögð á að skrifin tengist kenningum um nám og kennslu, faggrein, siðfræði og starfskenningu kennaranema. Vettvangsnámshlutinn er einnig hluti af námsvinnunni í bóknámshluta námskeiðsins, þ.e. einstakir námsþættir og vettvangsnámið eiga að mynda eina samofna heild.
Vettvangsnámið dreifist yfir allt skólaárið, allt frá því þegar skólar hefja störf í ágúst þar til skóla lýkur að vori. Mætingaskylda er á námskeiðinu á mánudögum eftir hádegi á Menntavísindasviði eða í rauntíma á neti fyrir þá sem búa að landsbyggðinni utan við Selfoss eða Akranes.
Kennaranemar velja sjálfir hvort þeir fara í launað starfsnám eða ólaunað vettvangsnám:
Launað starfsnám (leiðbeinendur í kennslu). Kennaranemar sem hyggja á launað starfsnám leita sér sjálfir að stöðu og sækja um. Þeir stunda vettvangsnámið í eigin bekk/námshópum sem þeir eru að kenna.
Í launuðu starfsnámi er hálft starf fullgilt vettvangsnám og kennaranemar sinna bæði störfum umsjónarkennara og kennslu í faggrein/sérhæfingu sinni. Miðað er við að allir kenni að lágmarki 4 kennslustundir á viku í faggrein sinni. Vettvangsnámið er hluti af starfi og fylgir því skólaárinu í grunnskóla viðkomandi.
Ólaunað vettvangsnám. Kennaranemar sem hyggja á ólaunað vettvangsnám geta lagt til hvar þeir vilji stunda sitt vettvangsnám. Í könnun sem send verður út í maí geta þeir óskað eftir borgarhluta/ landsvæði eða skóla.
Á vettvangi skila þeir að jafnaði fjögurra til sex klukkustunda viðveru á dag, 2 – 3 daga í viku, þ.e. 12 klukkustundum á viku. Þar af er miðað við að þeir kenni 8 kennslustundir og þarf kennsla í faggrein að vera minnst 4 kennslustundir á viku. Einnig þarf nemi að hafa tækifæri til að kynnast hlutverki umsjónarkennara.
Vettvangsnámstímabilið í ólaunuðu vettvangsnámi fylgir háskólaárinu.
Nám og kennsla - vettvangsnám á yngsta stigi grunnskóla (GKY401F)
Meginviðfangsefni námskeiðsins er vettvangsnám á yngsta stigi grunnskóla. Lögð er áhersla á að nemar prófi sig í kennslu og fái tækifæri til að ræða, meta ígrunda og þróa kennslu sína. Þeir þróa kennsluáætlun byggða á aðalnámskrá grunnskóla og skólanámskrá. Þeir greina atvik úr kennslu sinni og draga lærdóm af þeim. Þeir skoða fjölbreyttar kennsluaðferðir og beita þeim í kennslu á vettvangi.
Nemendur eru á vettvangi allt misserið á báðum námskeiðum (KME301F Nám og kennsla - fagmennska í starfi og GKY401F Nám og kennsla - vettvangsnám á yngsta stigi grunnskóla) og mæta reglulega í kennslustundir í háskólanum. Byggt er á fyrirlestrum, umræðum, sjálfstæðri vinnu og samvinnuverkefnum. Námsþættir námskeiðsins eru í beinum tengslum við vettvangsnámið. Ýmis álitamál verða skoðuð og rædd með vísun til dæma úr skólastarfi. Kennaranemar lesa valdar greinar og rannsóknir sem tengjast námsþáttunum, bæði efni sem kennarar velja og efni sem nemar viða að sér.
Vinnulag
Vettvangsnámið dreifist yfir allt skólaárið, allt frá því þegar skólar hefja störf í ágúst þar til skóla lýkur að vori. Mætingaskylda er á námskeiðinu á mánudögum eftir hádegi á Menntavísindasviði eða í rauntíma á neti fyrir þá sem búa á landsbyggðinni utan við Selfoss eða Akranes.
- Heilsársnámskeið
- Mentor í SprettiV
- Haust
- Kennslufræði íslensku sem annars málsB
- Fjöltyngi og læsiB
- Vor
- Kenningar um nám: Hagnýting og rannsóknirB
- Fjölbreyttir kennsluhættir - nemendamiðað námBE
- Lýðræði, mannréttindi og borgaravitund barna og ungmennaB
- Íslenskt mál og menntun fjöltyngdra nemendaB
Mentor í Spretti (GKY001M)
Í námskeiðinu felast verkefni nemenda í að vera mentor fyrir þátttakendur á framhalds- og háskólastigi í verkefninu „Sprettur”. Mentorar sinna því mikilvæga starfi að styðja og hvetja ungmenni í námi og félagslífi. Hlutverk mentora er að skapa uppbyggjandi samband við þátttakendur, vera jákvæð fyrirmynd og taka þátt í sameiginlegum viðburðum skipulögðum í Spretti. Mentorhlutverkið snýst um tengslamyndun og samveru sem felur í sér skuldbindingu gagnvart ungmennunum sem mentor styður.
Sprettur er verkefni sem styður við nemendur með innflytjenda- eða flóttamannabakgrunn sem koma úr fjölskyldum þar sem fáir eða engir hafa háskólamenntun. Nemendur í námskeiðinu eru mentorar þátttakenda og eru þeir tengdir saman með hliðsjón af sameiginlegu áhugasviði. Hver mentor ber ábyrgð á að styðja tvo þátttakendur. Mentorar skipuleggja samveru og verja þremur klukkustundum á mánuði (frá ágúst fram í maí) með þátttakendum í Spretti, þremur klukkustundum í mánuði í heimavinnuhópi og mæta í fimm málstofur sem dreifast yfir skólaárið. Nemendur skila dagbókarfærslum á Canvas í nóvember og mars. Dagbókarfærslur byggjast á lesefni og hugleiðingum nemenda um mentorstarfið. Námskeiðið er kennt á íslensku og ensku.
Nemendur sækja um þátttöku á námskeiðinu. Sjá rafrænt umsóknareyðublað. Umsækjendur fara í viðtal og eru 15-30 nemendur valdir til þátttöku.
Frekari upplýsingar um verkefnið „Sprettur” má nálgast hér: www.hi.is/sprettur
Kennslufræði íslensku sem annars máls (ÍET102F)
Um námskeiðið
Námskeiði þessu er ætlað að efla þekkingu og skilning þátttakenda á íslenskunámi barna og nemenda með erlendan bakgrunn. Fjallað verður um kennslufræði og kenningar í kennslu íslensku sem annars máls. Öll viðfangsefni hafa það meginmarkmið að auka færni þátttakenda til að beita markvissum og faglegum kennsluaðferðum í kennslu íslensku sem annars máls og stuðning við íslensku í faggreinakennslu, en einnig að hvetja til gagnrýnnar hugsunar við beitingu kennsluaðferða. Til viðbótar verður fjallað um fjölmenningarleg hæfni, samstarf við fjölskyldur, móðurmál og fjöltyngi í skólum, og tungumálanám á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Námskeiðinu er enn fremur ætlað að hvetja til stöðugrar þekkingarleitar þannig að þátttakendur taki mið af nýjustu rannsóknum og kenningum hér á landi sem erlendis.
Fjöltyngi og læsi (KME116F)
Námskeiðinu er ætlað að efla skilning og faglega þekkingu nemenda á þeim áhrifum sem fjöltyngi getur haft á þróun læsis. Fjallað verður um lestrarnám fjöltyngdra barna, sem tekur mið af ritkerfum tungumála þeirra, árangursríkar kennsluaðferðir í íslensku sem öðru máli fyrir nemendur á ólíkum aldri sem eru nýflutt til Íslands, en einnig með börnum sem eru fædd hér eða komu ung til landsins og þurfa gæðastuðning til námsárangurs. Fjallað verður um nýtt námsefni Íslenskur námsorðaforði og stigvaxandi fjölbreytni íslenskrar tungu: Námsefni og kennsluhættir með fjöltyngdum grunnskólanemendum, sem hlaut Vísinda- og nýsköpunarverðlaun HÍ í flokknum Samfélag vorið 2023. Námsefnið er styrkt Rannsóknasjóði HÍ, Markáætlun um tungu og tækni og Íslenskusjóðnum. Höfundar textanna, meistaranemar í ritlist, kynna þróun textagerðarinnar, þar sem orð af Lista yfir íslenskan námsorðaforða er komið fyrir og byggt á nýjum viðmiðum um íslenskt tungumál, frá einföldu til hins flóknara.
Þá eru nemendur hvattir til að beita gagnrýninni hugsun, að byggja á eigin reynslu og að nýta sér inntak námskeiðsins á sínu sérsviði. Námskeiðinu er enn fremur ætlað að vera stökkpallur fyrir stöðuga þekkingarleit, byggða á nýjum hágæðarannsóknum hér á landi og erlendis, sem leiðir til sífelldrar endurskoðunar og framfara í kennsluháttum með fjöltyngdum börnum.
Vinnulag: Kennsla fer fram bæði í tímum og á vef námskeiðsins. Fyrirlestrar eru settir eru á vef námskeiðsins og nemendur taka þátt í umræðum í rauntíma og á vef.
Kenningar um nám: Hagnýting og rannsóknir (MVS009F)
Markmið
Markmið námskeiðsins er þríþætt. Í fyrsta lagi, að nemendur fái innsýn í valdar námskenningar, einkum þær sem hafa haft áhrif á uppeldis- og skólastarf á okkar tímum. Í öðru lagi, að nemendur öðlist skilning á hvernig nýta megi kenningarnar í framkvæmd við uppeldi, kennslu og skipulagningu náms fyrir fólk á öllum aldri. Í þriðja lagi, að nemendur þekki til rannsókna á áhrifum mismunandi kennslunálgana og hverjar þeirra teljast gagnreyndar til að ná tilteknum námsmarkmiðum.
Inntak / viðfangsefni
- Fjallað verður um nokkrar af meginkenningum um nám svo sem atferlishyggju (behaviourism), hugfræðilega nálgun (cognitive psychology) og félags- menningarkenningar (socio-cultural theories)
- Áhersla er lögð á helstu hugtök sem beitt er í ofangreindum kenningum og að þær geta byggt á ólíkum skilgreiningum á námi
- Nemendur lesa rannsóknargreinar þar sem þessum kenningum er beitt í uppeldis- og skólastarfi og þjálfast í að skilja notkun hugtaka og kenninga í rannsóknum á vettvangi
- Fjallað verður um hvað gerir aðferðir gagnreyndar (evidence-based) og hvernig er hægt velja viðeigandi og áhrifaríkar aðferðir til að stuðla að námi fjölbreytts hóps á ólíkum sviðum.
- Nemendur gera áætlun um námsferli á vettvangi uppeldis- og skólastarfs þar sem þeir beita viðeigandi kenningum að eigin vali og dýpka þar með þekkingu sína í einhverri af þeim kenningum sem fengist er við í námskeiðinu. Áhersla er lögð á tengsl áætlunar við rannsóknir og kenningar í verkefninu og að sama tíma sé hugað að hagnýtingu og útfærslu.
Fjölbreyttir kennsluhættir - nemendamiðað nám (KME205F)
Markmið
Meginmarkmið þessa námskeiðs er að þátttakendur efli þekkingu sína á fjölbreyttum kennsluháttum og hæfni sína í að fjalla um þá með fræðilega viðurkenndum hætti.
Viðfangsefni
Á námskeiðinu verður fjallað um kennsluaðferðahugtakið og dæmi kynnt um fræðilega flokkun kennsluaðferða. Rannsóknum á kennsluaðferðum verða gerð sérstök skil, einkum innlendum rannsóknum. Þá verður fjallað um kennsluhætti og kennsluaðferðir sem tengjast hugmyndum um nemendamiðað og lýðræðislegt skólastarf (m.a. opinn skóla, sveigjanlega kennsluhætti, samvinnunám, samkennslu, lausnaleitarnám, heildstæð viðfangsefni, þemanám, samkomulagsnám og sjálfstæð, skapandi viðfangsefni). Efni námskeiðsins verður tengt þróun fjölbreyttra kennsluhátta hér á landi, og erlendis, og áhersla lögð á að þátttakendur ígrundi eigin reynslu af kennslu. Þátttakendum gefst tækifæri til að kynna sér einstaka kennsluhætti og kennsluaðferðir til nokkurrar hlítar og fjalla um það með fræðilegum hætti.
Vinnulag
Byggt er á fyrirlestrum, kynningum, málstofum, umræðum, sjálfstæðri vinnu, hópverkefnum, lestri og upplýsingaleit. Lögð er áhersla á að þátttakendur ígrundi eigið starf og greini, túlki og meti reynslu sína og tengi hana við fræði og rannsóknir. Þáttakendur ræða lesefni námskeiðsins og tengja það kennslustundum og eigin reynslu með aðstoð lestrardagbókar og annarra verkefna. Auk þess vinna nemendur lokaverkefni sem er hópverkefni.
Lýðræði, mannréttindi og borgaravitund barna og ungmenna (UME002F)
Í námskeiðinu er fjallað um þætti sem undirbyggja og styðja við menntun til hnattrænnar borgaravitundar (e. global citizenship education). Rætt er um mikilvægi þess að borgarar skynji að þeir hafi tiltekinn rétt í samfélaginu en jafnframt ábyrgð og skyldur. Áhersla er lögð á fræðilega og stefnumótandi umræðu um hugtök á borð við hnattvæðingu, borgaravitund, borgaralega þátttöku, lýðræði, mannréttindi, menntun og sjálfbærni. Fjallað verður um ólíkar nálganir og skilgreiningar á hnattrænni borgaravitund þar sem áhersla er lögð á gagnrýna nálgun og unnið með dæmi af alþjóðlegum og innlendum vettvangi menntunar svo sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og grunnþætti menntunar. Þá verður kastljósinu einnig beint að stöðu barna og ungmenna og hvernig við lærum og kennum í anda hnattrænnar borgaravitundar.
Íslenskt mál og menntun fjöltyngdra nemenda (ÍET206F)
Fjallað verður um íslensku sem annað mál og menntun fjöltyngdra grunnskólanemenda. Rætt verður um máltöku og máluppeldi og hver sé munurinn á því að öðlast færni í móðurmáli og öðru máli. Sérstök áhersla verður lögð á það sem kennarar þurfa almennt að kunna um íslenskt mál til að geta sinnt vel annars máls nemendum svo að þau nái framförum í þeirri námsgrein sem til umfjöllunar er.
Farið verður í uppbyggingu íslenska málkerfisins, framburð, orðmyndun, beygingar, setningagerð, merkingu orða og orðasambanda, lagskiptingu orðaforðans og ýmislegt sem viðkemur málnotkun, og fjallað um hvað getur helst vafist fyrir fjöltyngdum grunnskólanemendum sem eru að tileinka sér málið. Rætt verður um persónubundinn mun málhafa þegar þeir tileinka sér íslensku sem annað mál, með sérstaka áherslu á hvert móðurmál þeirra er til að geta greint hvar helst sé að vænta erfiðleika við tileinkun íslensku og til að geta brugðist við því.
Í framhaldi af þessu verður unnið með kennslu mismunandi faggreina og hvernig skipuleggja megi hana þannig að hún taki mið af mismunandi getu fjöltyngdra nemenda í íslensku. Meðal annars verður tekið fyrir hvernig hægt er að semja og einfalda texta svo að laga megi þá að getu fjöltyngdra nemenda í íslensku.
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
1. hæð, Stakkahlíð – Enni
s. 525 5950 mvs@hi.is
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Fylgstu með Menntavísindasviði
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.