Hlutu verðlaun ESCL fyrir Great Immortality
Greinasafnið Great Immortality: Studies on European Cultural Sainthood í ritstjórn Jóns Karls Helgasonar, prófessors við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Marijan Dović, sérfræðings við Stofnun slóvenskra bókmennta og bókmenntafræða, vann nýverið til verðlauna samtaka evrópskra samanburðarbókmenntafræðinga. Bókin, sem kom út hjá Brill árið 2019, hefur að geyma sautján fræðigreinar um menningarlega þjóðardýrlinga Evrópu.
Á liðnu ári ákváðu European Society for Comparative Literature (ESCL) að efna til nýrra verðlauna þar sem lögð er áhersla á samvinnuverkefni evrópskra bókmenntafræðinga við rannsóknir og útgáfu. Nú í sumar var tilkynnt að fjórar bækur hefðu verið tilnefndar af sérstakri dómnefnd en það voru, auk bókar þeirra Jóns Karls og Marijans, greinasöfnin Literary Second Cities (Palgrave 2017), Prismatic Translation (MHRA, 2019) og Reconfiguring Human, Nonhuman and Posthuman in Literature and Culture (Routledge, 2020).
Í liðinni viku var svo upplýst að Great Immortality hlyti verðlaunin en fram kom við það tækifæri að öll tilnefndu verkin ættu sameiginlegt að geyma heildstæða umfjöllun fræðimanna frá ýmsum þjóðlöndum um þverfagleg viðfangsefni. Í Great Immortality væru bókmenntarannsóknir fléttaðar með áhugaverðum hætti saman við minnisfræði, auk þess sem sérstaklega var tekið til þess hve víðfeðm umfjöllunin væri en hún nær frá Úkraínu í austri, Katalóníu í suðri, Íslands í norðri og Hollands í vestri.
Greinarnar í Great Immortality fjalla flestar um fjölbreytilegt framhaldslíf þjóðskálda nítjándu aldar í menningarlegu minni Evrópuþjóða en þarna má einnig finna umfjöllun um miðaldahöfunda á borð við Dante og Snorra Sturluson og yfirstandandi tilraunir Spánverja til að gera katalónska arkitektinn Gaudi að opinberum dýrlingi kaþólsku kirkjunnar. Bókin er óbeint framhald af fræðiritinu National Poets, Cultural Saints sem þeir Jón Karl og Marijan sendu frá sér á árinu 2017. Báðar bækurnar eru hluti af ritröðinni National Cultivation of Culture (12. og 18. bindi) sem hollenski fræðimaðurinn Joep Leerssen ritstýrir en hann er meðal þeirra tuttugu höfunda sem eiga grein í Great Immortality.
Þeir Marijan Dović og Jón Karl Helgason, ásamt Sveini Yngva Egilssyni prófessor í íslenskum bókmenntum og Marko Juvan, forstöðumanni ZRC SAZU, hófu að vinna saman fyrir rúmum áratug að samanburðarrannsóknum á Jónasi Hallgrímssyni og slóvenska þjóðskáldinu France Prešeren og þróa í því samhengi hugtakið menningarlegur þjóðardýrlingur (e. cultural saint).
Meðal annarra beinna og óbeinna afurða af samstarfi þeirra fjórmenninga má nefna þemahefti af slóvenska tímaritinu Primerjalna književnost (34/1) frá árinu 2011, sem hefur að geyma greinar eftir þá alla, bók Jón Karls Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga frá 2013, greinasafnið Kulturni svetniki in kanonizacija sem Marijan ritstýrði 2016, rannsóknarverkefnið The Space of Slovenian Literary Culture sem Marko bar hitann og þungann af, bók Marijans Prešeren po Prešernu: kanonizacija nacionalnega pesnika in kulturnega svetnika frá 2017 og bók Sveins Yngva Ísland í Eyjahafinu frá 2019.
Sjá frétt á vef Samtaka evrópskra samanburðarbókmenntafræðinga