Skip to main content

Doktorsvörn í líffræði - Ingeborg Klarenberg

Doktorsvörn í líffræði - Ingeborg Klarenberg - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
1. október 2021 14:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Streymi

Doktorsefni: Ingeborg Klarenberg

Heiti ritgerðar: Bakteríusamfélög og niturbinding í mosum og fléttum á tímum loftslagsbreytinga (Bacterial communities of lichens and mosses and nitrogen fixation in a warming climate)

Andmælendur:
Dr. James Bradley, lektor við Queen Mary University of London
Dr. Pauline Vannier, sérfræðingur hjá Matís

Leiðbeinandi: Dr. Oddur Vilhelmsson, prófessor og forseti Viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri

Umsjónarkennari: Dr. Ólafur S. Andrésson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Starri Heiðmarsson, fléttufræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
Dr. Margrét Auður Sigurbjörnsdóttir, dósent við Viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri
Dr. Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Doktorsvörn stýrir: Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands

Ágrip

Meðal afleiðinga hlýnunar loftslags á norðurslóðum má nefna hörfun jökla og ýmsar gróðurbreytingar. Mosar og fléttur leggja mikið af mörkum til vistkerfislegra ferla í hinu kalda umhverfi norðurslóða, þar á meðal bindingu köfnunarefnis með aðstoð þeirra örvera sem í þeim þrífast. Eitt af meginmarkmiðum þeirra rannsókna sem greint er frá í ritsmíð þessari er að leiða fram að hve miklu leyti loftslagshlýnun á áratuga skala hefur áhrif á örverusamfélög í fléttunni Cetraria islandica (fjallagrös) og í gamburmosanum Racomitrium lanuginosum (hraungambri). Þessar tegundir eru meðal algengustu fléttu- og mosategunda í mörgum íslenskum vistgerðum. Í Grein I er sýnt fram á að langtímahlýnun hefur áhrif á samsetningu örverulífríkisins í fjallagrösum og að þau áhrif eru að hluta tengd breytingum á aðlægum gróðri. Hið sama reyndist eiga við um örverusamfélög hraungambra, nema hvað hlýnunin reyndist ekki hafa marktæk áhrif á niturbindingu, og kom fram að sú niðurstaða gæti skýrst af breyttri tegundasamsetningu niturbindandi baktería (Grein II). Annað meginmarkmið rannsóknanna var að meta að hve miklu leyti örverusamfélög í tveimur gamburmosategundum og í jarðveginum sem þær vaxa á taka breytingum með gróðurframvindu og hvort þær breytingar tengjast ástandi mosans og starfsemi á borð við niturbindingu. Örverusamfélögin voru þannig kortlögð með tilliti til aldurs jökulgarða Fláajökuls, og einnig við rakainnihald mosans. Bakteríusamfélög í jarðveginum tóku skýrum breytingum með aldri jökulgarðanna, og stóðu einnig í samhengi við C:N hlutfall mosans sem á honum óx. Niturbinding stóð ekki í marktæku samhengi við aldur jökulgarðanna, en var hins vegar skýrt fylgin samsetningu örverulífríkisins.

Um doktorsefnið

Ingeborg Klarenberg fæddist í München í Þýskalandi árið 1988 en fluttist til Hollands við níu ára aldur. Hún lauk námi í jarðvísindum til BS-gráðu við Utrecht-háskóla árið 2012, og til MS-gráðu í umhverfisvísindum frá sama háskóla árið 2015. Árið 2016 hóf hún nám til doktorsgráðu við Háskóla Íslands í samvinnu við Háskólann á Akureyri og innan MicroArctic samstarfsnetsins, sem styrkt er af Marie Skłodowska-Curie sjóði Evrópusambandsins.

Ingeborg Klarenberg

Doktorsvörn í líffræði - Ingeborg Klarenberg