Doktorsvörn í almennri bókmenntafræði: Vera Knútsdóttir
Veröld - Hús Vigdísar
Auðarsal
Föstudaginn 18. júní 2021 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Vera Knútsdóttir doktorsritgerð sína í almennri bókmenntafræði, Spectral Memories of Icelandic Culture: Memory, Identity and the Haunted Imagination in Contemporary Art and Literature. Vörnin fer fram í Auðarsal í Veröld og hefst kl. 10. Smelltu hér til að fylgjast með vörninni í streymi.
Andmælendur við vörnina verða dr. Claire Lynch, dósent við Brunel háskóla í London, og dr. Emilie Pine, prófessor við University College í Dublin.
Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Gunnþórunnar Guðmundsdóttur, prófessors við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Fionnuala Dillane, prófessor við University College í Dublin, og dr. Daisy Neijmann, aðjunkt við Háskóla Íslands. Torfi H. Tulinius, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.
Um rannsóknina
Í ritgerðinni rannsakar Vera vofulegar minningar í íslenskri menningu og skoðar flókið samspil minnis, sjálfsmyndar og reimleika í samtímabókmenntatextum og myndlistarverkum. Hún beitir hugtakinu „vofulegar“ til að skilgreina minningar sem af ólíkum ástæðum hafa gleymst, verið þaggaðar eða niðurbældar í sameiginlegri menningarvitund þjóðarinnar, en hafa opinberast aftur fyrir tilstilli samtímabókmennta og myndlistar. Vofufræði (e. spectrality theory) og verk franska heimspekingsins Jacques Derrida, Vofur Marx, eru upphafspunktur rannsóknarinnar með það að leiðarljósi að tengja vofuna við hugmyndir um minni og kenningar í menningarlegum minnisfræðum (e. cultural memory studies).
Um doktorsefnið
Vera Knútsdóttir lauk B.A.-prófi í almennri bókmenntafræði með frönsku sem aukagrein við Háskóla Íslands og meistaraprófi í bókmenntafræðum við Háskólann í Amsterdam. Hún býr í Kaupmannahöfn.
Vera Knútsdóttir