Skip to main content

Doktorsvörn í sálfræði - Inga María Ólafsdóttir

Doktorsvörn í sálfræði - Inga María Ólafsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
30. nóvember 2020 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Mánudaginn 30. nóvember ver Inga María Ólafsdóttir doktorsritgerð sína í sálfræði við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Þroski sjónrænnar athygli og tengsl við stýrifærni. The development of visual attention and its connection with executive functions.

Vörninni verður streymt: 

https://livestream.com/hi/doktorsvorningamariaolafsdottir

Andmælendur eru dr. Beatriz Gil-Gómez de Liaño, prófessor við Universidad Autónoma de Madrid, og dr. Kamilla Rún Jóhannsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík.

Umsjónarkennari, leiðbeinandi og doktorsnefnd voru dr. Árni Kristjánsson, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands, og dr. Steinunn Gestsdóttir, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands. 

Urður Njarðvík, prófessor og forseti Sálfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.

Fjöldatakmörkun: Einungis 10 manns geta verið í salnum á meðan doktorsvörninni stendur.

Ágrip af rannsókn

Hefð hefur myndast fyrir því að rannsaka sjónræna athygli með sjónleitarverkefnum þar sem aðeins eitt markáreiti er til staðar í hverri umferð. Þannig finna þátttakendur áreitið, svara, leit er lokið og umferðin klárast. Þesslags rannsóknir hafa verið afar gagnlegar og aukið vitneskju okkar um sjónræna athygli gríðarlega, en þær eru að öllum líkindum ekki ákjósanlegar til að kanna hvernig sjónræn athygli verkar yfir lengri tíma. Það er því vandkvæðum bundið að öll líkön og kenningar um virkni sjónrænnar athygli eru komin frá rannsóknum sem nota aðeins eitt markáreiti, þar sem þær veita aðeins augnabliksglefsur af virkni athyglinnar á hverri stundu. Söfnunarrannsóknir eru góður valkostur við hefðbundin sjónleitarverkefni, þar sem þær gera okkur kleift að rannsaka hvernig þátttakendur leita að mörgum markáreitum innan um truflara. Með söfnunarverkefnum getum við rannsakað sjónræna athygli yfir lengri tíma með gagnvirku verkefni og fengið þannig upplýsingar um það hvernig athyglin færist yfir leitarskjáinn, auk þess að geta rannsakað val á markáreitum, bæði með tilliti til staðsetningar og gerðar þeirra. Í þremur rannsóknum hefur verið skoðaður þroski sjónrænnar athygli með söfnunarverkefnum, hjá börnum frá fjögurra ára og allt að fullorðinsaldri. Jafnframt hefur frammistöðu í söfnun verið borin saman við þroska ýmissa undirflokka stýrifærni. Söfnunarverkefnið er lagt fyrir á spjaldtölvu og markáreiti geta skilgreind út frá einum þætti, svo sem lit, eða samsetningu tveggja þátta, svo sem litar og lögunar. Í greinum I og II er sýnt fram á að söfnunarhæfni tekur miklum framförum á milli fjögurra og tólf ára aldurs, ekki aðeins í erfiðu samsöfnunarverkefni þar sem markáreiti eru skilgreind út frá samsetningu litar og lögunar, heldur einnig í einföldu þáttasöfnunarverkefni. Þessar niðurstöður eru í ósamræmi við rannsóknir sem notast við aðeins eitt markáreiti í hverri umferð, þar sem enginn munur finnst á þáttaleit hjá mjög ungum börnum og fullorðnum. Grein I sýnir einnig fram á að bæði þátta- og samsöfnunarhæfni tengjast frammistöðu á stýrifærniverkefnum, en tengslin á milli þessara ferla eru ekki þau sömu hjá börnum og fullorðnum. Í grein II er svo sýnt fram á að aldursmunur í söfnunarframmistöðu orsakast af stórum hluta vegna þroska stýrifærni. Í grein III er skoðað skipulag söfnunar, það er hvort ferill söfnunarinnar sé skipulegur yfir leitarskjáinn. Skipulag söfnunar fer vaxandi alveg upp til fullorðinsára, auk þess sem mælingar á skipulagi hafa tengsl við aðrar hliðar söfnunarhæfni. Það bendir til þess að þroski sjónrænnar athygli sé að einhverju leyti háður skipulagshæfni. Niðurstöður þessara rannsókna gefa dýpri innsýn í þroska sjónrænnar athygli en hægt væri að öðlast með rannsóknum sem aðeins nota eitt markáreiti í hverri umferð. Þannig undirstrika þær þörfina til að rannsaka sjónræna athygli út frá fleiri en einu sjónarhorni, svo hægt sé að skilja til fullnustu virkni hennar og þroskaferil.

Abstract

Visual attention has traditionally been studied with single-target search tasks where observers look for a single target and make a response, then the search is over and the trial ends. These studies have furthered our knowledge of visual attention tremendously, but they might not be ideal to describe visual orienting over time. It is therefore problematic that most all models of visual attention are derived from studies using a single target, only gaining a snapshot of attentional processing in each trial. Foraging research is an alternative to single-target search, where observers search for multiple targets among distractors. Foraging enables us to study attention over extended time periods with dynamic tasks, thus gaining insights into visual orienting over time, as well as target selection, both in terms of target location and characteristics. In a series of three studies, I investigated the development of visual attention with a foraging task, from children aged four years up until adulthood, and compared performance on various measures of foraging to executive functioning abilities. The foraging task is administered on a touch screen device and targets can be defined by either a single feature, such as color, or a conjunction of two features, such as color and shape. In papers I and II, I found that foraging abilities improve drastically between ages four and 12, not only in the more difficult conjunction foraging condition but also in feature foraging. Those results contradict findings from studies using only a single target per trial, where no difference is found between feature search of very young children and adults. Paper I reveals that both feature and conjunction foraging are connected with executive functions, but that these relations differ between children and adults. Paper II further reveals that age differences in foraging are largely mediated by the development of executive functions. In paper III, I look at the development of foraging organization, or the systematicity of the foraging path through each trial. I found that foraging organization continues to improve throughout childhood and adolescence, and that the organizational measures are connected with other aspects of foraging abilities, indicating that visual attentional development might be somewhat dependent upon organizational abilities. Taken together, these papers provide new insights into the development of visual attention, that would have been impossible to gain with studies using only a single target per trial. In doing so they highlight the need to study visual attention from various perspectives, so that we can gain a fuller understanding of its processes and their development.

Um doktorsefnið

Inga María Ólafsdóttir er fædd í Reykjavík þann 30. september 1986. Hún lauk stúdentsprófi af málabraut Menntaskólans við Hamrahlíð árið 2006, BS-prófi í sálfræði frá sálfræðideild 2012 og cand.psych.-prófi í klínískri sálfræði frá sálfræðideild árið 2015. Frá 2015 hefur hún lagt stund á doktorsnám við Háskóla Íslands ásamt því að sinna stundakennslu í ýmsum námskeiðum sálfræðideildar. Faðir Ingu Maríu er Ólafur Unnar Kristjánsson og móðir hennar er Sesselja Björnsdóttir. Inga María er gift Ásgeiri Viðari Árnasyni og eiga þau dæturnar Freyju Rún 8 ára og Írisi Kötlu 4 ára.

Inga María Ólafsdóttir ver doktorsritgerð sína í sálfræði við Sálfræðideild Háskóla Íslands mánudaginn 30. nóvember 2020

Doktorsvörn í sálfræði - Inga María Ólafsdóttir