Doktorsvörn í ferðamálafræði - Johannes Theodorus Welling
Aðalbygging
Hátíðarsalur
Streymi:https://livestream.com/hi/doktorsvornjohannestheodoruswelling
Doktorsefni: Johannes Theodorus Welling
Heiti ritgerðar: Jöklaferðamennska og aðlögun að loftslagsbreytingum á Íslandi (Glacier tourism and climate change adaptation in Iceland)
Andmælendur: Dr. Christopher Lemieux, dósent við Wilfrid Laurier University, Ontario, Kanada
Dr. Halvor Dannevig, forstöðumaður rannsókna við Vestlandsforsking, Western Norway Research Institute, Noregi
Leiðbeinendur: Dr. Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, og dr. Rannveig Ólafsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Einnig í doktorsnefnd: Dr. Bruno Abegg, prófessor við University of St. Gallen, Sviss
Doktorsvörn stýrir: Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands
Ágrip
Loftslagsbreytingar eru ein stærsta áskorun sem ferðaþjónusta heimsins stendur frammi fyrir í dag. Síðastliðinn áratug hafa rannsóknir innan ferðamálafræði á breyttum umhverfisaðstæðum vegna loftslagsbreytinga stuðlað að aukningu rannsókna á aðlögun að loftslagsbreytingum. Þrátt fyrir almenna viðurkenningu á þörfinni fyrir aðlögun að breyttum aðstæðum, og umfangsmiklar rannsóknir sem sýna fram á mögulega áhættu sem fylgir slíkum breytingum, virðast áhrif aukinnar þekkingar um aðlögun á starfsemi og stefnu í ferðaþjónustu enn vera tiltölulega lítil.
Með það að leiðarljósi að minnka bilið á milli rannsókna á aðlögun að loftslagsbreytingum og aðgerða ferðaþjónustunnar, leggur þessi doktorsritgerð áherslu á að auka skilning á aðlögun að breyttum umhverfisaðstæðum vegna loftslagsbreytinga í náttúrutengdri ferðaþjónustu, með því að greina aðlögunarferli og starfshætti ferðaþjónustuaðila sem stunda jöklaferðamennsku. Jöklaferðamennska er mjög skýrt dæmi um ferðaþjónustu sem þarf að aðlaga sig breyttu umhverfi vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Meginmarkmið þessarar ritgerðar eru að meta: hver er staða þekkingar á sambandi ferðamennsku, jökulumhverfis og loftslagsbreytinga; hvernig ferðaþjónustuaðilar sem stunda jöklaferðamennsku aðlagist núverandi og framtíðaráhrifum loftslagsbreytinga; og hvernig tengsl ferðaþjónustuaðila við vísindi geti stuðlað að framvirkri aðlögun.
Rannsóknirnar í þessari doktorsritgerð nota sambland af tveimur greiningaraðferðum. Annars vegar gerendanálgun til að rannsaka reynslu og viðhorf ferðaþjónustuaðila til loftslagsbreytinga sem og aðlögunarhegðun þeirra. Hins vegar aðferð sem byggir á þverfaglegri nálgun sem felur í sér gagnvirka þátttöku hagaðila í héraði og sérfræðinga til að ræða saman og mynda sameiginlegan þekkingargrunn, og til að sannreyna félagslegt mikilvægi rannsókna á aðlögun að loftslagsbreytingum. Til að samþætta þessar tvær aðferðir, þ.e. gerendanálgun og þverfaglega nálgun, var ákveðið að styðjast við tilviksrannsókn. Nokkrir áfangastaðir við sunnanverðan Vatnajökul voru valdir sem rannsóknarsvæði, þar sem söfnun gagna fór fram. Stuðst var við bæði megindlega aðferðafræði, svo sem spurningakannanir til ferðamanna, og eigindlega aðferðafræði, svo sem viðtöl, þátttökuathuganir og sviðsmyndagreiningu.
Niðurstöður sýna takmarkaða en vaxandi rannsóknavirkni sem beinir sjónum að tengslum ferðamennsku, jökla, áhrifum loftslagsbreytinga og viðbrögðum við slíkum áhrifum. Jafnframt, að enn vanti töluvert af rannsóknum sem beini sjónum að reynslu, hegðun og óskum gerenda í jöklaferðamennsku, bæði almennt en sérstaklega þó í tengslum við loftslagsbreytingar. Niðurstöður sýna enn fremur að loftslagsbreytingar hafa þegar haft töluverð áhrif á jöklasvæðin við sunnanverðan Vatnajökul og að ferðaþjónustuaðilar hafa brugðist við þessum afleiðingum í formi ”bíða-og-sjá-til” afstöðu, ásamt samsvarandi afturvirkum aðgerðum. Á hinn bóginn sýna niðurstöðurnar einnig að ferðafólk sem heimsækir jökulsvæðin er innbyrðis breytilegt varðandi viðbrögð við framtíðar áhrifum loftslagsbreytinga. Enn fremur að aðlögunarferli gerenda í jöklaferðamennsku mótist af gagnvirku samspili gerendahæfni þeirra, varðandi þætti eins og áhættuskynjun, hugsjónir, hvata, og áhugasvið, við skipulagningu ferðaþjónustunnar og innviði á einstökum áfangastöðum, svo sem varðandi þau áhrif sem ferðamennskan hefur, viðhorf til hagþróunar og hvort til staðar séu skilvirkar stofnanir sem sinna loftslagsmálum. Síðast en ekki síst, leggja niðurstöður rannsóknanna áherslu á mikilvægi þróunar og beitingu þátttökusviðsmynda til að samtvinna viðhorf hagsmunaaðila í héraði og vísindamanna í skipulagsferli. Slíkar þátttökusviðsmyndir eru mikilvægt verkfæri til að styðja við skipulega aðlögun áfangastaða jöklaferðamennsku að breyttum umhverfisaðstæðum vegna loftslagsbreytinga, í gegnum gagnkvæma miðlun þekkingar, íhugunar um langtímabreytingar og þá óvissu sem þeim fylgir, og skoðunar á mögulegum framvirkum aðlögunaraðgerðum til að mæta slíkum breytingum.
Loftslagsbreytingar eru aðeins einn þeirra drifkrafta sem stýra þróun jöklaferðamennsku. Ekki er hægt að horfa á áhrif loftslagsbreytinga sem einangraða þætti; heldur verður að horfa heildrænt á alla áhrifaþætti til að skilja betur hin flóknu og gagnvirku tengsl á milli hinna samfélagslegu, hagrænu og umhverfislegu sviða. Með því að setja aðlögun að loftslagsbreytingum í forgrunn í núverandi áfangastaðaáætlunum og stýringaraðgerðum, eða með því að samþætta aðlögun að loftslagsbreytingum við ákveðin vísindasvið eins og áhætturannsóknir eða sjálfbærnirannsóknir, væri hægt að leiða fram mun betri nálgun en með því að horfa á aðlögun að loftslagsbreytingum sem einangrað fyrirbæri.
Um doktorsefnið
Johannes (Hans) Welling er fæddur í Hollandi árið 1970. Hann lauk MA-prófi í stjórnmálafélagsvísindum frá Háskólanum í Amsterdam árið 1995 og MSc-prófi í umhverfis- og auðlindastjórnun frá Free University í Amsterdam árið 2009. Frá árinu 2010 hefur Hans tekið þátt í nokkrum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem tengjast ferðaþjónustu á vegum Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði. Samhliða doktorsnáminu sinnti Hans einnig stundakennslu við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, sem hann gerir enn. Nýlega var hann ráðinn sem verkefnastjóri fyrir íslenskan hluta NPA verkefnis sem nefnist SCITOUR (Scientific Tourism). Hans býr með Ingibjörgu Kristinsdóttur og tveimur börnum þeirra í Reykjavík.
Johannes Theodorus Welling