Doktorsvörn í safnafræði - AlmaDís Kristinsdóttir
Hátíðasal Háskóla Íslands
Doktorsefni: AlmaDís Kristinsdóttir
Heiti ritgerðar: Toward Sustainable Museum Education Practices: A Critical and Reflective Inquiry into the Professional Conduct of Museum Educators in Iceland eða Horft til framtíðar í fræðslumálum safna: Greining á faglegri nálgun í íslensku safnfræðslustarfi.
Andmælendur eru dr. Lynn D. Dierking, prófessor við Oregon State University í Bandaríkjunum og dr. Margrét Elísabet Ólafsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri.
Leiðbeinandi er dr. Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Aðrir í doktorsnefnd eru dr. Helene Illeris, prófessor við University of Agder í Noregi og dr. Guðrún Geirsdóttir, dósent við Háskóla Íslands.
Doktorsvörn stýrir dr. Valdimar Tr. Hafstein, prófessor við Háskóla Íslands.
Um doktorsefnið
AlmaDís er fædd á Siglufirði 5. ágúst 1969. Hún lauk BFA prófi í hönnun frá Massachusetts College of Art í Boston árið 1995, prófi í kennslufræðum til kennsluréttinda og M.Ed. prófi í menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri árið 2007. AlmaDís lauk diplóma í safnafræði frá Háskóla Íslands árið 2010 og hefur sinnt kennslu í deild Félags-, mann- og þjóðfræði samhliða doktorsnámi. AlmaDís á að baki langan feril sem starfsmaður sjö ólíkra safna og hefur starfað sem verkefnastjóri safnfræðslu við Borgarsögusafn Reykjavíkur frá árinu 2016. AlmaDís vann m.a. við fræðsludeild Listasafns Reykjavíkur um árabil auk þess sem hún var forstöðumaður Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla í Norska húsinu, Stykkishólmi á árunum 2012–2014.
AlmaDís er í sambúð með Hlyni Angantýssyni, viðskiptafræðingi og samtals eiga þau sex börn og tvö barnabörn.
AlmaDís veitir frekari upplýsingar um doktorsverkefni sitt í síma 664 7370 eða gegnum netfangið almadis@reykjavik.is
Efniságrip
Rannsókn ÖlmuDísar er gagnrýnin athugun og fræðileg greining á safnfræðslustarfi í framkvæmd. Fjörutíu viðtöl voru tekin við 28 safnastarfsmenn með mikla reynslu af fræðslumálum safna. Gögnum var einnig safnað gegnum vettvangsathuganir og rýnt var í margvísleg skjöl til að fá sem skýrasta mynd af starfinu.
Söfn[1] eru öflugar menningarstofnanir sem hafa þýðingarmiklu og valdeflandi menntunarhlutverki að gegna með framlagi sínu til sjálfbærari samfélaga og símenntunar. Þetta framlag felst einkum í samstarfi safna við formlega skólakerfið og ólíka hópa safngesta. Hlutverk safnkennara felst í því að greiða almenningi leið að fræðslumöguleikum safna og auka þannig gildi þeirra. Þrátt fyrir að fræðslumál safna hafi verið hluti af rannsóknum í safnafræði um áratugaskeið er menntunarhlutverkið enn takmörkunum háð.
Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru kynntar í fjórum vísindagreinum sem liggja til grundvallar doktorsverkefninu. Í fyrstu greininni er litið yfir fræðasviðið á 35 ára tímabili og rýnt í þær aðstæður og eiginleika sem þurfa að vera til staðar svo að safnfræðsla skili kennslufræðilegum árangri. Þrjú tilvik eru skoðuð sérstaklega og skrifað um hvert þeirra til að greina faglega nálgun í íslensku safnfræðslustarfi.
1) Samstarfsverkefni sýningastjóra og fræðslufulltrúa á sýningunni Sjónarhorn í Safnahúsinu (hluti af Þjóðminjasafni Íslands) var kannað sem tilvik til að rannsaka hvernig kennslufræðileg líkön eru nýtt til að uppfylla menntunarhlutverk safna.
2) Þróun fræðsludeildar Listasafns Reykjavíkur á árunum 1991–2018 var skoðað til að komast að því hvaða áhrif skipulagsheild safns hefur á menntunarhlutverk þess.
3) Fræðsluverkefnið Biophilia, sköpunarverk Bjarkar Guðmundsdóttur, var rannsakað til að kanna framtíðarmöguleika og hömlur við faglega framkvæmd safnfræðslu.
Rannsóknin leiðir í ljós að safnfræðsla sem fag, krefst fræðilegra kennslulíkana og styðjandi skipulagsheilda innan safna sem stuðla jafnframt að valdeflingu safnkennara til að ná fram breytingum til lengri tíma. Ef söfn ætla sér að ná langvarandi árangri sem fræðslustofnanir verða þau að gefa safnfræðslu aukið vægi og rými innan skipulagsheilda sinna stofnanna og auka markvisst skuldbindingar sínar gagnvart menntunarhlutverkinu.
AlmaDís kynnir til sögunnar hagnýtt líkan, byggt á niðurstöðum rannsóknarinnar, sem er er til þess fallið að auka meðvitund um öfluga fræðslumöguleika til langs tíma. Líkanið varpar ljósi á flækjustig innan safna varðandi valdatengsl og misræmi í starfsemi þeirra. Fræðslumöguleikar safna aukast ef brugðist er við áskorunum í stað þess að þau standi í stað sem menningarlega ríkar en kennslufræðilega fátækar stofnanir.
[1] Hér er átt við söfn í merkingunni museum á ensku, ekki bókasöfn eða skjalasöfn.
Doktorsefni: AlmaDís Kristinsdóttir