Skip to main content

Doktorsvörn í upplýsingafræði-Ragna Kemp Haraldsdóttir

Doktorsvörn í upplýsingafræði-Ragna Kemp Haraldsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
29. maí 2019 14:00 til 17:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Doktorefni: Ragna Kemp Haraldsdóttir

Heiti ritgerðar: Skráning, aðgengi og notkun einstaklingsbundinnar þekkingar starfsfólks, (e. Registration, Access and Use of the Personal Knowledge of Employees).

Andmælendur: Fiorella Foscarini, dósent við Háskólann í Toronto, og Julie McLeod, prófessor við Northumbria-háskóla.

Leiðbeinandi: Jóhanna Gunnlaugsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands.

Einnig í doktorsnefnd: Ebba Þóra Hvannberg, prófessor við Háskóla Íslands, og Peter Holdt Christensen, dósent við Copenhagen Business School.

Doktorsvörn stýrir: Stefán Hrafn Jónsson, prófessor og deildarforseti Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar.

Ágrip

Rannsóknin er þverfræðileg og byggist á kenningum í upplýsinga- og skjalastjórn, þekkingarstjórnun og upplýsingatækni. Markmið rannsóknarinnar var að öðlast skilning á því hvort, og þá hvernig, stjórnendur leituðust við að styðja við skráningu einstaklingsbundinnar þekkingar starfsfólks (e. personal knowledge registration) sem er leið til þess að halda utan um þekkingu starfsfólks og felur í sér leitarbæra skráningu menntunar, þjálfunar og reynslu þess starfsfólks sem starfar hjá tiltekinni skipulagsheild á hverjum tíma. 

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að starfsfólk telji skráningu einstaklingabundinnar þekkingar áhrifamikið og hagnýtt verkfæri til verðmætasköpunar. Hins vegar hafði takmarkaður stuðningur stjórnenda og skortur á ábyrgð og skýrum tilgangi með skráningu þekkingar neikvæð áhrif á gagnsemi og notkun skráðra upplýsinga. Aðgengi starfsfólks að skráðri þekkingu var yfirleitt takmarkaður við eigin þekkingu og fól ekki í sér aðgang að þekkingu samstarfsfólks enda þótt tæknilegir og félagslegir þættir væru til staðar til þess að veita frekari aðgang. Lagalegar kröfur og regluverk, sem tengdust jafnlaunastaðli og lögum um persónuvernd, reyndust hafa íþyngjandi áhrif á þarfir skipulagsheilda fyrir skráningu þekkingar. Niðurstöður rannsóknarinnar beina einnig athygli að hlutverki skjalastjóra sem töldu mikilvægt að skráning einstaklingsbundinnar þekkingar ætti sér stað. Þar töldu þeir sig hafa mikilvægu hlutverki að gegna. Þrátt fyrir að hafa sérhæft sig í skráningu, aðgangsöryggi, vistun og miðlun upplýsinga reyndist aðkoma skjalastjóra takmörkuð þegar kom að þessum þáttum varðandi einstaklingsbundna þekkingu starfsfólks.

Um doktorsefnið

Ragna Kemp Haraldsdóttir er fædd á Akureyri árið 1973. Ragna lauk  BA-prófi í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1997 og meistaragráðu í upplýsingatækni, samskiptum og stjórnun (Cand.IT) frá Árósarháskóla árið 2005. Í rannsóknum og kennslu leggur Ragna áherslu á upplýsingastjórnun í skipulagsheildum. Þar þræðir hún saman mannleg samskipti og upplýsingatækni með áherslu á miðlun og stjórnun upplýsinga.  Ragna hefur starfað sem ráðgjafi og haldið fyrirlestra og námskeið á sviði upplýsingastjórnunar. Hún er aðjúnkt í upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Auk þess sinnir hún  verkefnum á starfsmannasviði og vinnur með stýrihópum um innleiðingu upplýsinga- og skjalakerfis fyrir Háskóla Íslands og innleiðingu og framkvæmd jafnlaunakerfis samkvæmt kröfum jafnlaunastaðals. 

Ragna Kemp Haraldsdóttir er gift Magnúsi Bjarklind garðyrkjutækni. Börn þeirra eru Atli Magnússon og Ólöf Halla Bjarklind Magnúsdóttir. 

Miðvikudaginn 29. maí nk. ver Ragna Kemp Haraldsdóttir, aðjúnkt í upplýsingafræði, doktorsritgerð sína í upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Skráning, aðgengi og notkun einstaklingsbundinnar þekkingar starfsfólks, (e. Registration, Access and Use of the Personal Knowledge of Employees). Athöfnin fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands og hefst kl.14.

Doktorsvörn