Skip to main content

Doktorsvörn í efnafræði - Jóhanna Margrét Grétarsdóttir

Doktorsvörn í efnafræði - Jóhanna Margrét Grétarsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
14. desember 2018 14:00 til 17:00
Hvar 

Askja

Stofa 132

Nánar 
Fer fram á ensku
Allir velkomnir

Doktorsefni: Jóhanna Margrét Grétarsdóttir

Heiti ritgerðar: Efnasmíðar nýrra mólybdenum-brennisteins komplexa: Hvötunarvirkni á umbreytingu sýaníðs í þíósýanat og in vitro líffræðilegar rannsóknir (e. Syntheses of new molybdenum-sulfur complexes: Catalytic transformation of cyanide to thiocyanate, and in vitro biological studies.)

Andmælendur:
Dr. Celine J. Marmion, prófessor við efnafræðideild Royal College of Surgeons, Dublin, Írlandi og dr. Kostas Demadis, prófessor við efnafræðideild Háskólans á Krít.

Leiðbeinandi: Dr. Sigríður G. Suman, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Már Másson, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.
Dr. Ingvar H. Árnason, prófessor emeritus við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Doktorsvörn stýrir: Dr. Birgir Hrafnkelsson, prófessor og varadeildarforseti Raunvísindadeildar Háskóla Íslands.

Ágrip

Blásýra er hraðvirkt og banvænt eitur sem hefur lengi verið þekkt. Tilvist blásýru í reykeitrunum hefur vakið athygli lækna og björgunarfólks nýverið, og afleiðingar eiturverkana hennar verið kannaðar. Nýjir alfa-amínó mólybdenum-brennisteins komplexar voru smíðaðir sem möguleg efni til að þróa neyðarmeðferð gegn blásýrueitrun. Komplexarnir voru greindir með segulómun, innrauðum titringsrófum og rafeindarófum, og mólmassi þeirra ákvarðaður með massarófum og frumefnagreiningu. Hringstraumsspennurit voru skráð auk kristalbygginga tveggja efna. Kalíum sölt af þreonín, serín, meþíonín, og leusín voru einangruð í fyrsta skipti sem hvarfefni fyrir efnasmíðar komplexanna. Söltin voru greind með segulómun og frumefnagreiningu.
Flöskuháls í lyfjaþróun hvataðra lyfjameðferða með efnum byggðum á málmkomplexum felst oft í vatnsleysni og eiturverknunum auk annarra lífeðlisfræðilegra eiginleika. Komplexarnir hvata hvarf blásýru og þíósúlfats til að mynda þíósýanat og súlfít in vitro. Hvötunin er hraðvirk og allt að 60% af blásýrunni er umbreytt á 20 mínútum. Komplexarnir sýna jafnframt háa vatnsleysni og litlar eiturverkanir samanborið við þekkt lyf. Frumutilraunir á hegðun komplexanna in vitro sýna að komplexarnir fara inn í frumur og þaðan inn í frumuhluta eins og kjarna og hvatbera.
Niðurstöður lofa góðu og sýna að komplexarnir eru góðir kandídatar fyrir frekari þróun á neyðarmeðferð gegn blásýrueitrun.

Um doktorsefnið

Jóhanna lauk BS gráðu í efnafræði frá Háskóla Íslands árið 2013. Sama ár hóf hún framhaldsnám í efnafræði við Háskóla Íslands. Samhliða doktorsnáminu hefur hún sinnt stundakennslu við sömu stofnun.

Facebook viðburður

Jóhanna Margrét Grétarsdóttir

Doktorsvörn í efnafræði - Jóhanna Margrét Grétarsdóttir