Skip to main content

Doktorsvörn í efnafræði - Arnar Hafliðason

Doktorsvörn í efnafræði - Arnar Hafliðason - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
7. desember 2018 14:00 til 16:00
Hvar 

Askja

Stofa 132

Nánar 
Allir velkomnir

Doktorsefni: Arnar Hafliðason

Heiti ritgerðar: Rofferli við fjölljóseindaörvun og orkueiginleikar halogenhaldandi sameinda út frá massa- og myndgreiningu

Andmælendur:
Dr. Timothy Wright, prófessor í eðlisefnafræði og kennilegri efnafræði við háskólann í Nottingham. Bretandi
Dr. Ragnar Jóhannsson sviðstjóri hjá Hafrannsóknastofnun Íslands.

Leiðbeinandi: Ágúst Kvaran, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Gísli Hólmar Jóhannesson, eðlisefnafræðingur og kennari við Háskólabrú Keilis.
Dr. Ragnar Björnsson, eðlisefnafræðingur og hópstjóri hjá Max Planck Institute for Chemical Energy Conversion, Mulheim í Þýskalandi.
Dr. Kristján Matthíasson, aðjúnkt við Raunvísindadeild Háskóla Íslands og kennari við Tækniskólann.

Doktorsvörn stýrir: Dr. Oddur Ingólfsson, prófessor og deildarforseti Raunvísindadeildar Háskóla Íslands.

Ágrip

Rannsóknirnar fólust einkum í að kanna áhrif fjölljóseindaörvunar á rofferli HBr, DC l og brómometan sameinda með massagreiningu (MR-MPI aðferð) og myndgreiningu (VMI). Túlkun mæligagna fólst í greiningu á fjölljóseindarófum ((2+n)REMPI róf) sem og á hraða- (KERs) og hornháðum dreifimynstrum jóna sem myndast. Athuganir á HBr sýndu truflanir vegna víxlverkana á milli þrístigs- og einstigs-orkuástanda sameindarinnar, sem birtust í formi hliðrunar (LS áhrif) og styrkbreytinga (LI áhrif) litrófslína í MR-REMPI litrófum sem og í formi óreglulegra mynstra í VMI myndum. Samkvæmt DCl mæligögnum fundust fimm ný Rydberg orkuástönd og átta ný titringsástönd jón-para forms sameindarinnar. Sterk víxlverkunaráhrif greindust milli einstigs Rydberg ástanda og jón-para ástandsins sem birtist í formi LS og LI áhrifa og sem samsætuhliðranir. Framkvæmdur var samanburður við sambærileg gögn frá HCl. Óreglulegt mynstur REMPI litrófa fyrir sameindabrotin CH og CD sem mynduðust við fjölljóseindarof bromoforms báru vitni um hraðvirka rofnun fjögurra Rydberg ástanda. LS og LI áhrif sem og breikkun litrófslína báru þessu vitni. Orka viðkomandi ástanda var auðkennd. Fjölmörg Rydberg ástönd CH3Br sameindarinnar voru orkuörvuð á tveggja ljóseinda bylgjutölusviðinu 66 000 – 80 000 cm-1. Rofferli voru könnuð með aðferðum eins- og tvílita fjölljóseindaörvana. Einnar-, tveggja og þriggja ljóseinda örvanir sameindarinnar leiddu allar til myndunar sameindabrotanna CH3 og Br í grunn-rafeindaástöndum. Meginrofferli sameindarinnar var hins vegar myndun CH3 Rydberg ástanda ásamt bróm frumeindum í kjölfar þriggja ljóseinda örvunarinnar. Vísbendingar um víxlverkun milli Rydberg ástanda og jón-para ástanda fundust.

Um doktorsefnið

Arnar Hafliðason útskrifaðist af náttúrufræðibraut frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1998. Árið 2008 útskrifaðist hann með B.Sc. gráðu í efnafræði frá Háskóla Íslands. Arnar fór á vinnumarkaðinn í nokkur ár, þar sem hann stafaði hjá Roche NimbleGen til ársins 2013.

Árið 2013 hóf hann doktorsnám í efnafræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Foreldrar Arnars eru þau, Arndís Sigurðardóttir og Hafliði Guðmundsson heitinn (1941-2011). Arnar á einn bróður, Sigurð Hafliðason, og 4 ára dóttur, sem heitir Elísa N. Arnarsdóttir.

Viðburður á Facebook

Arnar Hafliðason

Doktorsvörn í efnafræði - Arnar Hafliðason