Doktorsvörn í mannfræði - Sigríður Baldursdóttir
Aðalbygging
Hátíðarsalur
Doktorsefni: Sigríður Baldursdóttir
Heiti ritgerðar: Alma Ata yfirlýsingin: Samfélagsleg heilsugæsla í Gíneu-Bissá (e. The Alma Ata Declaration: Implementation of Community Health Care in Guinea-Bissau)
Andmælendur: Dr. Helle Samuelsen, prófessor í mannfræði við Kaupmannahafnarháskóla og dr. Karin Källander, dósent í lýðheilsufræðum við Karolinska Institutet.
Leiðbeinandi: Dr. Jónína Einarsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.
Aðrir í doktorsnefnd: Dr. Gísli Pálsson, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands og dr. Morten Sodemann, læknir og prófessor í smitsjúkdómum við Syddansk Universitet, Danmörk
Doktorsvörninni stýrir: Guðbjörg Vilhjálmsdóttir prófessor í náms- starfsráðgjöf og deildarforseti Félags- og mannvísindadeildar
Ágrip af rannsókn:
Rannsóknin snýr að framkvæmd samfélagslegrar heilbrigðisþjónustu á formi heilsuselja í Gínea-Bissá í anda Alma Ata yfirlýsingarinnar frá 1978, með áherslu á Oio hérað. Skoðaðar eru áskoranir við framkvæmd og samspil fjölþjóðlegrar stjórnunar, stefnumótunar og samfélagsþátttöku í heilsugæslu yfir þrjátíu ára tímabil. Notast er við eigindlegar rannsóknaraðferðir.
Á áttunda áratug síðustu aldar voru heilsusel byggð víða í Gínea-Bissá með aðstoð þróunarstofnana í afskekktum þorpum og mönnuð með heilsuliðum og yfirsetukonum sem voru sjálfboðaliðar. Rannsóknin sýnir að þorpsbúar kunnu að meta þjónustu heilsuselja. Á fyrsta áratug 21. aldar hnignaði þjónusta þeirra verulega af margvíslegum ástæðum. Í kjölfar alþjóðlegs ákalls um eflingu heilsugæslu til að ná þúsaldarmarkmiðunum var áhersla enn á ný lögð á samfélagslega heilsugæslu. Í Gínea-Bissá var ný stefna mótuð 2010-2011 sem leggur áherslu á fagleg vinnubrögð launaðra heilsuliða á meðan starf yfirsetukvenna var lagt niður. Heilbrigðisráðuneytið átti að stýra framkvæmd hinnar nýju stefnu en vegna uppreisnar hersins árið 2012 ákváðu alþjóðlegar þróunarstofnanir að veita stuðning sinn í gegnum frjáls félagasamtök sem fengu forystuhlutverk við innleiðingu hinnar nýju stefnu í landinu.
Niðurstöðurnar sýna að stefnumótun í heilsugæslu og framkvæmd hennar í dreifbýli í Gíneu-Bissá er flókin. Auk innlendra aðstæðna hafa skyndilegar breytingar á alþjóðlegri forgangsröðun í heilbrigðismálum haft mikil áhrif á heilbrigðisþjónustu í landinu. Landið er háð þróunaraðstoð og í viðleitni þróunarstofnana til að ná þúsaldarmarkmiðunum var ekki nægilegt tillit tekið til ríkjandi aðstæðna í landinu. Það leiddi til ágreinings og óánægju meðal þorpsbúa sem voru ekki hafðir með í ráðum. Þessi rannsókn sýnir að þrátt fyrir sjálfboðaliðavinnu og þátttöku þorpsbúa er samfélagsleg heilsugæsla í anda Alma Ata yfirlýsingarinnar hvorki ódýr né auðveld í framkvæmd. Til þess að hún verði sjálfbær þarf að vera til staðar alþjóðleg samstaða, fjármagn, langtíma þátttaka og þrautseigja þróunaraðila og stjórnvalda.
Sigríður fæddist í Gautaborg árið 1980. Hún lauk BA prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og MA prófi í mannfræði frá Háskóla Stokkhólms árið 2007. Síðustu tíu árin hefur hún unnið við rannsóknir og kennslu við Háskóla Íslands og víðar. Sigríður býr í Stokkhólmi með sambýlismanni sínum Abblay Sanneh og eiga þau eina dóttur, Eddu Kaddy Sanneh. Sigríður veitir frekari upplýsingar um doktorsrannsókn sína í síma +46 722 777 953, eða gegnum netfangið sib30@hi.is.