Doktorsvörn í jarðeðlisfræði - Bergur Einarsson
Aðalbygging
Hátíðarsalur
Doktorsefni: Bergur Einarsson
Heiti ritgerðar: Vatnafræði íslenskra jökla: Jökulhlaup og ísflæði (e. Subglacial hydrology of the Icelandic ice caps: Outburst floods and ice dynamics)
Andmælendur: Dr. Ian Hewitt, dósent við Stærðfræðistofnun Oxford háskóla.
Dr. Halldór Pálsson, prófessor í vélaverkfræði við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.
Leiðbeinandi: Dr. Tómas Jóhannesson, fagstjóri á sviði jöklafræði á Veðurstofu Íslands.
Einnig í doktorsnefnd: Dr. Helgi Björnsson, rannsóknarprófessor emeritus við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.
Dr. Gwenn E. Flowers, prófessor við Jarðvísindadeild Simon Fraser háskóla, og gestaprófessor við Háskóla Íslands.
Doktorsvörn stýrir: Dr. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði og deildarforseti Jarðvísindadeildar.
Ágrip af rannsókn: Meginviðfangsefni ritgerðarinnar eru rannsóknir á rennsli vatns í og undir jöklum og áhrifum þess á botnskrið, bæði við venjulegar aðstæður og aftakaaðstæður í jökulhlaupum. Ritgerðin byggist á mælingum á hreyfingu jökla og gögnum um rennsli jökulhlaupa og jökuláa. Einnig er notast við líkanreiknað afrennsli frá norðanverðum Hofsjökli og vestanverðum Vatnajökli. Unnir eru líkanreikningar á ísflæði í íshellu yfir lónum við jökulbotn sem tæmast í jökulhlaupum. Mælingarnar og túlkun gagnanna frá jökulhlaupunum sýna: (1) hvernig þrýstibylgja gengur niður hlaupfarveginn undir jöklinum í hraðrísandi jökulhlaupum og myndar rými fyrir flóðvatnið með því að lyfta jöklinum, (2) aukna hreyfingu jökulsins meðan á jökulhlaupum stendur vegna minnkaðs viðnáms við botn, (3) vatnssöfnun undir jöklinum í hægrísandi jökulhlaupum og (4) lyftingu jökulsins í bæði hæg- og hraðrísandi jökulhlaupum vegna vatnsþrýstings við botn sem er hærri en fargþrýstingur jökulsins. Seinustu tvær niðurstöðurnar stangast á við hefðbundnar kenningar um hægrísandi jökulhlaup. Mælingar á hreyfingu Sátujökuls og Skaftárjökuls fyrir tímabil milli hlaupa sýna aukið ísskrið vegna áhrifa vatns á viðnám við jökulbotn. Þessar niðurstöður eru mikilvægar því aukinn skilningur á vatnskerfi við botn jökla og áhrifum þess á ísskrið er mikilvægur fyrir spár um breytingar á jöklum og hækkun á sjávarborði heimshafanna af þeirra völdum. Góð þekking á jökulhlaupum er líka mikilvæg því þau geta skapað hættu.
Doktorsverkefnið var unnið á Veðurstofu Íslands sem hluti af samnorræna öndvegissetrinu SVALI, ‘Stability and Variations of Arctic Land Ice’ sem var fjármagnað af norrænu ráðherranefndinni.
Um doktorsefnið: Bergur Einarsson (f. 1981) lauk BS-gráðu í jarðeðlisfræði frá Háskóla Íslands árið 2004 og MS-gráðu í sömu grein, frá sama skóla árið 2009. Bergur starfaði hjá Vatnamælingum Orkustofnunar að loknu BS námi og meðan á MS námi stóð. Bergur hefur starfað á Veðurstofu Íslands frá sameiningu Vatnamælinga og Veðurstofunnar árið 2009.
Bergur Einarsson