Skip to main content

Doktorsvörn í jarðeðlisfræði - Daniel Juncu

Doktorsvörn í jarðeðlisfræði - Daniel Juncu - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
12. janúar 2018 14:00 til 17:00
Hvar 

Askja

N-132

Nánar 
Doktorsvörnin fer fram á ensku
Allir velkomnir

Doktorsefni: Daniel Juncu.

Heiti ritgerðar: Jarðskorpuhreyfingar á jarðhitasvæðum: Rannsóknir á Hengilssvæðinu með gervitunglamælingum.

Andmælendur:

Dr. Sigurjón Jónsson, prófessor í jarðeðlisfræði við KAUST háskóla, Saudi Arabíu

Dr. Ólafur G. Flóvenz, forstjóri Íslenskar Orkurannsóknir, ÍSOR

Leiðbeinandi: Dr. Þóra Árnadóttir, vísindamaður á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Aðrir í doktorsnefnd: Dr. Halldór Geirsson, lektor við Jarðvísindadeild HÍ, Dr. Andrew Hooper, prófessor í jarðeðlisfræði við háskólann í Leeds og Dr. Björn Lund, dósent í jarðskjálftafræði við háskólann í Uppsala.

Doktorsvörn stýrir: Magnús Tumi Guðmundsson, deildarforseti Jarðvísindadeildar.

Ágrip af rannsókn: Doktorsverkefnið fjallar um jarðskorpuhreyfingar og líkangerð á Hengilssvæðinu, sér í lagi á vinnslusvæðum fyrir virkjanirnar tvær: Hellisheiði og Nesjavelli. Landmælingar með gervitunglum (GPS og radarmælingar) á tímabilinu 2012-2015, sýna hreyfingar á stóru svæði vegna landreks og sig í austurhluta Hengilssvæðisins. Eftir að leiðrétt hefur verið fyrir landreki þá sýnir líkangerð að staðbundið sig á vinnslusvæðum við Hellisheiði og Nesjavelli sé í samræmi við mælingar á þrýstingslækkun í jarðhitageymunum. Í öðrum kafla ritgerðarinnar er greint frá landrisi sem mælist við Húsmúla á tímabilinu 2011-2012. Landrisið hófst á sama tíma og niðurdæling á jarðhitavökva og aukinnar smáskjálftavirkni varð vart í september 2011. Líkangerð á landmælingunum bendir til að hreyfingarnar (landris og þensla) og jarðskjálftavirknina megi skýra með auknum poruþrýsingi í berginu þar sem jarðhitavökvanum er dælt niður. Þriðji kafli ritgerðarinnar kannar tengsl jarðskorpuhreyfinga við magn jarðhitavökva sem dælt er upp úr jarðhitasvæðum. Oftast er gert ráð fyrir að mat á rúmmálsbreytingum með líkangerð á jarðskopuhreyfingum samsvari magni af jarðhitavökva sem tekið er úr kerfinu og mismun megi skýra með flæði vökva inn í kerfið. Við bárum saman mælingar á þremur háhitasvæðum þar sem munurinn á rúmmáli, sem metið er út frá jarðskorpuhreyfingum, og rúmmál/massi vökvans, sem tekinn er upp, getur verið allt að tífaldur. Við teljum að þennan mun megi skýra með ástandi jarðhitavökvans á hverju svæði þ.e. hve stórt hlutfall er vökvi og hve mikið er gufa. Svæði sem sýna litla aflögun fyrir hverja massaeiningu jarðhitavökva sem tekinn er úr kerfinu eru líklega með bæði vökva og gufu (tveggja-fasa kerfi), en þar sem jarðskorpuhreyfingar eru meiri séu svæðin með jarðhitavökva í eins-fasa kerfi.

Um doktorsefnið: Daniel Juncu er fæddur í borginni Mülheim an der Ruhr í Þýskalandi árið 1987. Hann lauk BS prófi í jarðvísindum frá RWTH Aachen í Þýskalandi árið 2010 og mastersnámi í jarðvísindumi frá ETH Zurich í Sviss, árið 2012. Daniel hóf nám í jarðeðlisfræði við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands haustið 2013. Auk doktorsnámsins hefur Daniel tekið nokkur námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Áhugamál hans eru ferðalög og skíðaíþróttir.

Facebook viðburður

Daniel Juncu

Doktorsvörn í jarðeðlisfræði - Daniel Juncu