Skip to main content
26. október 2017

Fimm nýsköpunar- og þróunarverkefni tengd menntun fá styrki

Fimm verkefni sem snúa m.a. að nýsköpun í kennsluháttum hljóta styrk úr sjóði Steingríms Arasonar í ár. Styrkjum var úthlutað við hátíðlega athöfn í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í gær, miðvikudaginn 25. október, en þetta var í fyrsta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.

Styrkir voru veittir til sérfræðinga og nemenda í framhaldsnámi. Við mat á styrkumsóknum var sérstaklega horft til rannsókna sem fela í sér nýsköpun þekkingar og þróunarverkefna sem efla fræðilegt og faglegt framlag til menntunar- og kennslufræða samkvæmt stofnskrá sjóðsins. Samanlögð styrkfjárhæð er ein milljón króna.

Styrkþegar og verkefni þeirra eru:

Ásthildur Bjarney Snorradóttir, sérfræðingur á skrifstofu fræðslu- og frístundasviðs Hafnarfjarðar, og Bergrós Ólafsdóttir, sérfræðingur á skóla- og frístundasviði Akraneskaupstaðar, hljóta styrk til að þróa námskeið og handbók þar sem kynntar verða hagnýtar aðferðir við málörvun barna og undirbúning lestrarkennslu. Sérstaklega verður fjallað um börn sem eru í áhættuhópi fyrir lesblindu og þurfa stuðning til þess að ná tökum á lestri.

Í umsögn dómnefnar segir: „Verkefnið snýst um að efla málþroska og læsi, einkum hjá hópum sem eiga í erfiðleikum af ýmsum ástæðum. Verkefni gagnast stórum hópi barna í samfélaginu.“

Bjarnheiður Kristinsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið, hlýtur styrk til nýsköpunarverkefnis um notkun hljóðlausra myndbanda í stærðfræðikennslu á framhaldsskólastigi.  Verkefnið er hluti af doktorsrannsókn Bjarnheiðar þar sem væntingar kennara til notkunar slíkra myndbanda í kennslu verða kannaðar og reynsla þeirra af notkuninni.

Í umsögn dómnefndar segir: Spennandi verkefni sem felur í sér nýsköpun í kennsluháttum. Styrkurinn nýtist til að kynna verkefnið á alþjóðavettvangi og efla samstarf styrkþega við erlenda aðila. “

Eva Harðardóttir, doktorsnemi og aðjunkt við Menntavísindasvið, hlýtur styrk til verkefnis um þátttöku ungs flóttafólks á Íslandi í menntun og þróun borgaravitundar og reynslu af því starfi. Rannsóknin styðst við þjóðfræðilegar þátttökuaðferðir þar sem hlutdeild unga fólksins sjálfs í rannsóknarferlinu fær meira vægi en tíðkast hefur í menntavísindarannsóknum hérlendis.

Í umsögn dómnefndar segir: „Styrkurinn stuðlar að nýsköpun þekkingar á viðkvæmum og vaxandi þjóðfélagshópi sem lítið hefur verið rannsakaður hérlendis hingað til en nauðsynlegt er að þekkja betur.“

Hákon Sæberg, M.Ed. í grunnskólakennarafræði með sérhæfingu í kennsluaðferðum leiklistar, hlýtur styrk til þátttöku á ráðstefnunni International Drama in Education Research Institute sem haldin er á Nýja-Sjálandi þar sem hann hyggst kynna meistaraverkefni sitt.

Í umsögn dómnefnar segir: „Athyglisvert verkefni sem tengir leiklist á nýstárlegan hátt við almennt skólastarf. Mikilvægt er að geta sett verkefnið í samhengi á alþjóðavettvangi og efla tengsl við erlenda sérfræðinga.“

Ragný Þóra Guðjohnsen og Eygló Rúnarsdóttir, aðjunktar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hljóta styrk til þróunar á nýjungum í kennslu með því að nýta menningarstarf og samfélagslega umræðu til að auka skilning nemenda á fræðilegu efni í menntavísindum.

Í umsögn dómnefnar segir: „Áhugaverð og hagnýt rannsókn á háskólakennslu. Háskólanám verður sífellt stærri hluti af starfsmenntun þjóðarinnar og því mikilvægt að stuðla að fjölbreyttum kennsluháttum og skilvirkni námsins. “

Stjórn sjóðs Steingríms Arasonar skipa Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs sem er formaður, Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor og forseti Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar, og Baldur Sigurðsson, dósent og forseti Kennaradeildar.

Um sjóðinn

Sjóður Steingríms Arasonar hét áður Columbia-sjóður en hann var stofnaður með peningagjöf Steingríms Arasonar kennara árið 1939. Steingrímur (1879-1951) lauk kennaraprófi frá Flensborgarskóla árið 1908. Hann stundaði háskólanám í uppeldis- og menntunarfræði, fyrstur Íslendinga, við Teachers College í Columbia-háskóla í Bandaríkjunum (1915-1920). Hann starfaði við kennslu barna og unglinga í Eyjafirði og Reykjavík en aðalstarf hans var við Kennaraskólann þar sem hann kenndi í 20 ár. 

Myndir frá úthlutuninni.

Styrkþegar ásamt forseta Menntavísindasviðs og rektor Háskóla Íslands. Frá vinstri: Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasvið og formaður sjóðsins, Eygló Rúnarsdóttir, Ragný Þóra Guðjohnsen, Eva Harðardóttir, Hákon Sæberg, Ásthildur Bjarney Snorradóttir, Bergrós Ólafsdóttir,  og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Styrkþegar ásamt forseta Menntavísindasviðs og rektor Háskóla Íslands. Frá vinstri: Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasvið og formaður sjóðsins, Eygló Rúnarsdóttir, Ragný Þóra Guðjohnsen, Eva Harðardóttir, Hákon Sæberg, Ásthildur Bjarney Snorradóttir, Bergrós Ólafsdóttir, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.