Fimm nýsköpunar- og þróunarverkefni tengd menntun fá styrki
Fimm verkefni sem snúa m.a. að nýsköpun í kennsluháttum hljóta styrk úr sjóði Steingríms Arasonar í ár. Styrkjum var úthlutað við hátíðlega athöfn í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í gær, miðvikudaginn 25. október, en þetta var í fyrsta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.
Styrkir voru veittir til sérfræðinga og nemenda í framhaldsnámi. Við mat á styrkumsóknum var sérstaklega horft til rannsókna sem fela í sér nýsköpun þekkingar og þróunarverkefna sem efla fræðilegt og faglegt framlag til menntunar- og kennslufræða samkvæmt stofnskrá sjóðsins. Samanlögð styrkfjárhæð er ein milljón króna.
Styrkþegar og verkefni þeirra eru:
Ásthildur Bjarney Snorradóttir, sérfræðingur á skrifstofu fræðslu- og frístundasviðs Hafnarfjarðar, og Bergrós Ólafsdóttir, sérfræðingur á skóla- og frístundasviði Akraneskaupstaðar, hljóta styrk til að þróa námskeið og handbók þar sem kynntar verða hagnýtar aðferðir við málörvun barna og undirbúning lestrarkennslu. Sérstaklega verður fjallað um börn sem eru í áhættuhópi fyrir lesblindu og þurfa stuðning til þess að ná tökum á lestri.
Í umsögn dómnefnar segir: „Verkefnið snýst um að efla málþroska og læsi, einkum hjá hópum sem eiga í erfiðleikum af ýmsum ástæðum. Verkefni gagnast stórum hópi barna í samfélaginu.“
Bjarnheiður Kristinsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið, hlýtur styrk til nýsköpunarverkefnis um notkun hljóðlausra myndbanda í stærðfræðikennslu á framhaldsskólastigi. Verkefnið er hluti af doktorsrannsókn Bjarnheiðar þar sem væntingar kennara til notkunar slíkra myndbanda í kennslu verða kannaðar og reynsla þeirra af notkuninni.
Í umsögn dómnefndar segir: Spennandi verkefni sem felur í sér nýsköpun í kennsluháttum. Styrkurinn nýtist til að kynna verkefnið á alþjóðavettvangi og efla samstarf styrkþega við erlenda aðila. “
Eva Harðardóttir, doktorsnemi og aðjunkt við Menntavísindasvið, hlýtur styrk til verkefnis um þátttöku ungs flóttafólks á Íslandi í menntun og þróun borgaravitundar og reynslu af því starfi. Rannsóknin styðst við þjóðfræðilegar þátttökuaðferðir þar sem hlutdeild unga fólksins sjálfs í rannsóknarferlinu fær meira vægi en tíðkast hefur í menntavísindarannsóknum hérlendis.
Í umsögn dómnefndar segir: „Styrkurinn stuðlar að nýsköpun þekkingar á viðkvæmum og vaxandi þjóðfélagshópi sem lítið hefur verið rannsakaður hérlendis hingað til en nauðsynlegt er að þekkja betur.“
Hákon Sæberg, M.Ed. í grunnskólakennarafræði með sérhæfingu í kennsluaðferðum leiklistar, hlýtur styrk til þátttöku á ráðstefnunni International Drama in Education Research Institute sem haldin er á Nýja-Sjálandi þar sem hann hyggst kynna meistaraverkefni sitt.
Í umsögn dómnefnar segir: „Athyglisvert verkefni sem tengir leiklist á nýstárlegan hátt við almennt skólastarf. Mikilvægt er að geta sett verkefnið í samhengi á alþjóðavettvangi og efla tengsl við erlenda sérfræðinga.“
Ragný Þóra Guðjohnsen og Eygló Rúnarsdóttir, aðjunktar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hljóta styrk til þróunar á nýjungum í kennslu með því að nýta menningarstarf og samfélagslega umræðu til að auka skilning nemenda á fræðilegu efni í menntavísindum.
Í umsögn dómnefnar segir: „Áhugaverð og hagnýt rannsókn á háskólakennslu. Háskólanám verður sífellt stærri hluti af starfsmenntun þjóðarinnar og því mikilvægt að stuðla að fjölbreyttum kennsluháttum og skilvirkni námsins. “
Stjórn sjóðs Steingríms Arasonar skipa Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs sem er formaður, Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor og forseti Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar, og Baldur Sigurðsson, dósent og forseti Kennaradeildar.
Um sjóðinn
Sjóður Steingríms Arasonar hét áður Columbia-sjóður en hann var stofnaður með peningagjöf Steingríms Arasonar kennara árið 1939. Steingrímur (1879-1951) lauk kennaraprófi frá Flensborgarskóla árið 1908. Hann stundaði háskólanám í uppeldis- og menntunarfræði, fyrstur Íslendinga, við Teachers College í Columbia-háskóla í Bandaríkjunum (1915-1920). Hann starfaði við kennslu barna og unglinga í Eyjafirði og Reykjavík en aðalstarf hans var við Kennaraskólann þar sem hann kenndi í 20 ár.