Mikill kraftur í þverfræðilegri samvinnu
Hundrað og tuttugu nemendur við Heilbrigðisvísindasvið munu taka þátt í nýju þverfræðilegu námskeiði í haust. Vinnustofa fyrir leiðbeinendur í námskeiðinu fór fram föstudaginn 18. ágúst.
Nýtt námskeið um þverfræðilega samvinnu í heilbrigðisvísindum hefst þann 1. september. Námskeiðið er fyrir nemendur sem lokið hafa a.m.k. tveimur árum í námi á Heilbrigðisvísindasviði. Þar verður hugmyndafræði þverfræðilegrar samvinnu höfð að leiðarljósi og nemendum veitt tækifæri til þess að æfa fagmennsku, teymisvinnu og samskipti. Í námskeiðinu verður unnið í þverfræðilegum hópum að sameiginlegu verkefni. Verkefnin verða æfingar í klínískum tilfellum, þróun nýsköpunarhugmyndar eða lýðheilsuáætlun.
Vinnustofa fyrir leiðbeinendur í námskeiðinu fór fram í Veröld - húsi Vigdísar föstudaginn 18. ágúst. Dr. Þröstur Björgvinsson, klínískur sálfræðingur og dósent við Harvard Medical School, fjallaði þar um mikilvægi þverfræðilegrar samvinnu og miðlaði af reynslu sinni frá McLean-spítala í Massachusetts. Dr. Ásta Bjarnadóttir, mannauðsstjóri Landspítala, fjallaði enn fremur um árangursrík samskipti í þverfaglegri teymisvinnu. Leiðbeinendurnir unnu einnig að undirbúningi námskeiðsins í umræðuhópum.
25 leiðbeinendur af ýmsum sviðum heilbrigðisvísinda komu á vinnustofuna og munu sjá um kennslu í námskeiðinu. Þar á meðal eru sérfræðingar í nýsköpun, geislafræðingar, hjúkrunarfræðingar, lyfjafræðingar, læknar, næringarfræðingar og sálfræðingar, bæði starfandi innan Heilbrigðisvísindasviðs og utan. Umsjónarkennari námskeiðsins er dr. Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild.
Námskeiðið hefst sem fyrr segir 1. september og lýkur með kynningu á verkefnum hópanna þann 13. október.